miðvikudagur, 29. nóvember 2006

Vågar flugvöllur

Nú veit ég hvað menn meina þegar þeir segja að aðflug að Vågaflugvöll í Færeyjum geti verið mjög erfitt. Kom hingað til Færeyja í gær frá Kaupmannahöfn en í stað þess að ferðast beint heim frá Malmö, til að stoppa þar í einn dag og til þess að fara þann næsta til Færeyja í gegnum Köben, þá heimsótti ég æskuvin minn sem býr í Danmörku og fór síðan beint frá Köben til Færeyja þar sem ég funda nú með félögum mínum í stjórn ungmenningar verkefnisins Ung i Norden.

Flugferðin sem slík var með öllu tíðindalaus eða allt þar til við fórum að nálgast eyjarnar fögru, sem engin leið var að sjá þar sem mjög láskýjað var. Þannig háttar til að vindur blés af miklum móð frá suðvestri. Sem þýðir það að aðflug er úr norðri og vindur er nánast þvert á braut. Aðstæður eru einnig þær að flogið er inn langan fjörð og innst inni í firðinum eru háir þverhníptir bergveggir til beggja hliða sem þrengja verulega aðflugið því þar rétt fyrir innan er sjálfur flugvöllurinn, sem auk þess er í styttra lagi vegna staðhátta.

Hvað með það. Aðflug í blindflugi er ekki endilega það þægilegasta en það er það öruggasta. Hinn ágæti kapteinn tjáði okkur að það yrði nokkur ókyrrð sem voru orð að sönnu. Og ekki leist mér á blikuna þegar einhverjir farþegar héldu ekki lengur niðri veitingunum. Verst þótti mér hins vegar að sjá ekkert út. Ekki veit ég hvað tímanum leið en eftir ca 6 – 8 mínútna óþægilegt skak þá tilkynnir kapteinninn að það verði enn meiri ókyrrð, sem varð og ef einhverjir kostir voru við það, þá voru það þeir að nú mátti sjá til jarðar, Við vorum sem sagt komin innarlega í fjörðinn og vorum stödd rétt fyrir utan þessar þrengingar. Heldur tók nú vélin að hristast og ekki bara upp og niður, því hún hallaði á alla kanta og maður var fjarri því að vita hvert hún stefndi hverju sinni. Í mestu dýfunum lét fólk í sér heyra og sjálfur var ég orðin logandi nervös og leið eins og í versta rússíbana.

Og viti menn skyndilega erum við komin út úr þessu og í gamla skakið og sterkan hliðarvind, sem manni þótti nú bara fínt og ekki síst flugvöllurinn sýnilegur framundan. Lentum með ágætum og allir fegnir að hafa fast land undir fótunum. Færeyingarnir voru á því að þetta aðflug hefði verið með allra versta móti en þeir kalla ekki allt ömmu sína í þessum efnum og eru vanir óblíðum veðuröflum. Ég hef hins vegar oft komið hingað með flugi og aldrei lent í neinu viðlíka og reyndar aldrei á ferðum mínum um víðan völl síðustu árin. Fer í beint reynslubankann þar sen hugtakið ókyrrð fær nýja vídd. Hættulegt flug? – nei held ekki, fyrst og fremst afar óþægilegt - þessar vélar eru smíðar til að þola og standast gríðarlegt álag - mun og miklu meira en hér var gert að umfjöllunarefni ... sem betur fer.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli