miðvikudagur, 29. júlí 2009

Sniðgöngum auglýstar áfengistegundir

Núna í aðdraganda Verslunarmannahelgarinnar munu áfengisauglýsingar dynja á börnum og ungmennum og ekki síst í þeim miðlum sem sérstaklega höfða til æskunnar. Réttindi barna og unglinga eru fótum troðin og þau njóta ekki lögvarinna réttinda. Við foreldrar og forráðmenn barna og unglinga og aðrir sem bera hag þeirra fyrir brjósti erum ráðþrota gagnvart þessu. Það er auðvitað illa komið þegar að hagsmunaaðilar í krafti gífurlegs fjármagns fara sínu fram, óháð lögum, fjölda dóma og almennu siðferði.

Við foreldrar
, afar og ömmur og allir þeir sem bera hag æskunnar fyrir brjósti við þurfum að sýna hug okkar í verki gagnvart þessum ólöglegu áfengisauglýsingum og sniðgagna með öllu auglýstar áfengistegundir – Á maður að eiga viðskipti við fyrirtæki sem otar áfengi að börnum manns með ólöglegum áfengisauglýsingum? Það er ekki við hæfi.


Foreldrar – forráðamenn og allir þeir aðilar sem hafa velferð æskunnar að leiðarljósi - Sýnum hug okkar í verki - Sniðgöngum auglýstar áfengistegundir

þriðjudagur, 21. júlí 2009

Mikilvæg áskorun frá FFF

Barst þessi þarfa áskorun frá FFF

Sjá ennfremur pistil frá 18.nóvember 2008 http://addigum.blogspot.com/2008/11/skan-erfium-tmum.html

"Stjórn Félags fagfólks í frítímaþjónustu hefur sent sveitarstjórnum á Íslandi eftirfarandi áskorun:

"Félag fagfólks í frítímaþjónustu skorar á sveitarstjórnir að standa vörð um starfsemi félagsmiðstöðva og frístundaheimila fyrir börn og unglinga á þeim umbrota- og óvissutímum sem Íslendingar lifa nú og tryggja um leið jöfn tækifæri til þátttöku í fjölbreyttu frítímastarfi. Félagið varar við afleiðingum þess að skerða framlög til frítímastarfs barna og unglinga hjá sveitarfélögunum.


Sveitarstjórnir eru langstærsti stuðningsaðili við frístundastarf barna og unglinga. Á vegum sveitarfélaganna er komið til móts við þarfir ófélagsbundinnar æsku, sérstaklega þeirra barna og unglinga sem finna síður sína fjöl hjá íþróttafélögum eða frjálsum félagasamtökum. Þörfum barna og unglinga sem standa höllum fæti er nær eingöngu mætt í frítímaþjónustu sveitarfélaganna. Sú starfsemi er því kjarninn í öllu forvarnarstarfi á Íslandi. Öflugt frístundastarf stuðlar að auknum samskipta- og félagsþroska barna og unglinga og er lykilatriði þegar hlúð er að komandi kynslóðum sem munu bera uppbyggingu þjóðfélagsins í náinni og fjarlægri framtíð.


Innlendar og erlendar rannsóknir sýna að þátttaka í skipulögðu félags- og tómstundastarfi undir handleiðslu hæfra leiðbeinenda dregur úr líkum á hvers kyns áhættuhegðun, s.s. áfengis- og vímuefnaneyslu og ofbeldi. Ávinningur af því að skerða starfsemi þar sem börn og unglingar eru virkir þátttakendur er því enginn. Mikill ávinningur yrði hins vegar að því að styrkja slíka starfsemi.


Félagið bendir jafnframt á að Ísland er aðili að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þann 16. mars sl. var samþykkt þingsályktunartillaga um lögfestingu sáttamálans á Íslandi. Samkvæmt 31. grein sáttmálans viðurkenna aðildarríkin rétt barns til tómstunda og til að stunda leiki og skemmtanir sem hæfa aldri þess. Auk þessa skuldbinda aðildarríki sig til að virða og efla rétt barns til fullrar þátttöku og stuðla að viðeigandi og jöfnun tækifærum til tómstundaiðju."


F.h. Félags fagfólks í frítímaþjónustu,

Eygló Rúnarsdóttir, formaður

Afrit: Félagsmálaráðherra, Heilbrigðisráðherra, Menntamálaráðherra og Umboðsmaður barna"

þriðjudagur, 14. júlí 2009

Jón Hlöðver Áskelsson

... tónskáld er praktíserandi menningarveita sem gerir það að verkum að maður á erindi oftar en ella til Akureyrar. Sá og heyrði í Kvartett Inga Rafns í Ketilhúsinu s.l fimmtudag þar sem téður Jón Hlöðver kynnti kvartettinn til leiks. Fínir spilarar m.a Sigurður Flosason sax, Kjartan Valdimarsson píanó og einn efnilegast bassaleikari landsins Valdi Kolli. Mjög fínir tónleikar en ekkert einsdæmi því tónlistarlífið á Akureyri er í miklum blóma og hefur verið um margra ára skeið. Minnist með gleði Djangó jazz hátíðar sem ég sótti fyrir nokkrum árum og var sérstaklega vel heppnuð. Þetta og margt fleira sprettur ekki fram af sjálfu sér, það er fyrir tilstilli manns eins og Jón Hlöðvers og hans samstarfsmanna sem auðugt tónlistarlíf verður að veruleika. Og slíkt fólk er mikill akkur fyrir sitt bæjarfélag og þess nýtur Akureyrarbær ríkulega.