sunnudagur, 28. mars 2010

Skrifstofuvæðing æskulýðsmála í Hafnarfirði?


Í haust (2009) skunduð um 700 hafnfirsk ungmenni niður á Ráðhúsplan og mótmæltu einum rómi verulegum niðurskurði á fjárveitingum til starfsemi félagsmiðstöðva hér í bæ. Þetta var í senn gleðilegt og dapurlegt. Gleðilegt í þeim skilning að unglingar komi skoðunum sínum á framfæri og nýti sér lýðræðislegan rétt sinn til að tjá sig sem og réttinn til að mótmæla þegar að þeim fannst á hlut þeirra gengið. Dapurlegt að bæjaryfirvöld hafi gefið hagsmunum unga fólksins lítinn gaum með sífelldum niðurskurði fjárveitinga til félagsmiðstöðva í bænum.

Á krepputímum breytist margt. Eitt af því eru tómstundir og ekki síst tómstundir barna og unglinga. Lykilbreytur eru kostnaður . Þátttaka í dýrari tómstundatilboðum snar minnkar og þátttaka í ódýrari eða ókeypis þjónustu eykst sé slíkt í boði. Þó svo að æfingagjöld hjá íþróttafélögum séu niðurgreidd af bæjaryfirvöldum, sem er afar gott, þá er erfitt fyrir marga foreldra að fjármagna það sem til fellur aukalega s.s. búnaður, búningar, ferðakostnaður, mótsgjöld o.fl í þessum dúr allt eftir eðli starfsemi. Breytingar verða því þær, ef ekki er við brugðist, að þá finni ungviðið orku sinni annan farveg en í uppbyggilegri starfsemi. Viðkvæmasti hópurinn í þessum efnum er hin s.k ófélagsbundna æska. Því miður kennir reynslan okkur, bæði hvað varðar reynslu Finna og ekki síst ýmislegt sem átti sér stað í efnahagsdýfunni miklu hérlendis um miðjan tíunda áratug síðust aldar. Má þar nefna aukna unglingadrykkju , landasölu o.fl.

Til þess að mæta þessu ástandi þá þarf m.a. að efla starfsemi félagsmiðstöðva, styrkja fagmennsku, auka opnunartíma og auka möguleika unglinga til uppbygglegra tómstundastarfa í bæjarfélaginu. Þess vegna stingur í stúf að en á ný skulu koma fram tillögur sem fela í sér skerðingu á þjónustu við börn og unglinga í bæjarfélaginu hvort sem litið er til starfsemi eða fagmennsku. Í haust voru lagðar fram tillögur verkefnisstjóra æskulýðsmála um skipulagsbreytingar að frumkvæði íþrótta- og tómstundanefndar. Þær tillögur féllu sem kunnugt er í grýttan jarðaveg. Í kjölfarið var skipaður starfshópur sem fékk að það afmarkaða verkefni að endurvinna þegar fram komnar og afleiddar hugmyndir að virðist?

Eins og fram kemur í „nýju“ tillögunum þá segir þar berum orðum að segja eigi upp öllum forstöðumönnum félagsmiðstöðva og einungis endurráða þrjá sem yrðu þá forstöðumenn sem eftirleiðis kallast „svæðisstjórar“ yfir 2-3 félagsmiðstöðum? Í félagsmiðstöðvum sjálfum starfi eftirleiðis „verkefnastjórar“ sem ekki verði gerðar kröfur um að uppfylli nein sérstök skilyrði um menntun? Með þessu tapast a.m.k. tvennt. Í fyrsta lagi er fagfólk, menntun þeirra og dýrmæt reynsla fjarlægð af vettvangi og starfsmönnum á gólfi fækkar. Í öðru lagi er farið með menntunarkröfur til starfsmanna í félagsmiðstöðvum áratugi aftur í tímann. Í raun er því hér um verulegan niðurskurð að tefla hvort sem litið er til fjármuna eða faglegar sjónarmiða. Sem fyrr er gengið út frá því að tilraun í þessa veru í Áslandshverfi (sem engin hefur tekið út formlega) hafi gengið vel ? Með þessum tillögum er verið að flytja þrjá starfsmenn í stjórnsýslustörf á skrifstofu æskulýðsmála sem þarf ekki á slíku að halda enda þegar þrír starfsmenn þar fyrir? Félagsmiðstöðvar í Hafnarfirði verða með þessum breytingum ekki tækar til þess að taka að sér vettvangsnema í tómstunda- og félagsmálafræðum frá Háskóla Íslands. Starfsemin uppfyllir ekki lágmarkskilyrði um menntun starfsmanna til að taka að sér leiðsögn nema. Maður furðar sig á þessum tillögum og veltir jafnframt fyrir sér hvort búast megi við sambærilegum tillögum varðandi aðrar stofnanir bæjarins s.s. leik- og grunnskóla? Eiga tveir þrír leikskólar að fara undir forsjá eins leiksskólastjóra. Hvar er fagmennskan -eru börn og unglingar afgangsstæð?

Einhver skrifstofuvæðing æskulýðsmála er ekki verkefni dagsins, þau eru einfaldlega þau að auka eins og frekast er kostur starfsemi með börnum og unglingum í nærumhverfi þeirra. Hjá ITH starfa margir frábærir starfsmenn og stefna bæjaryfirvalda ætti fyrst og fremst snúast um að skapa forsendur fyrir ennþá betra starfi á vettvangi . Fyrirliggjandi skipulagstillögur hafa lítið með það að gera. Eftir stendur að rúmlega 700 ungmenni tjáðu hug sinn í verki á haustmánuðum. Í Hafnarfirði, bæ hins virka íbúalýðræðis verða menn að bregðast við slíku. "Hinn rétti mælikvarði á stöðu þjóðar er hversu vel hún sinnir börnunum." (UNICEF, 2007).

Grein þessi birtist í Fjarðarpóstinum 25.mars 2010 - www.fjardarposturinn.is

þriðjudagur, 23. mars 2010

Pravdisk fyrirsögn RÚV

RÚV útvarp og sjónvarp "allra landsmanna" hefur margsinnis þverbrotið lög um bann við áfengisauglýsingum sem eru í fullu gildi.

Þegar að fram kemur frumvarp Ögmundar Jónassonar og Þuríðar Backman sem skerpir lögin sem þegar hafa annars mjög skýran siðferðilega boðskap og anda, þá er fyrirsögn á heimasíðu RÚV um málið "Vill banna áfengisauglýsingar" ?

Hugsa um jólakveðju RÚV til barna og unglinga í landinu síðastliðin jól í formi síendurtekinar teiknimyndar um drykkfellda jólasveininn á sleða sínum sem gat ekki sinnt mikilvægum störfum sínum í aðdraganda jólanna þar sem hann fór að eltast við áfengisflutningabíl sem var fullur af "léttöli" sem er ekki til!

Sorglegt að yfirstjórn RÚV og þessi s.k. markaðdeild þess skynji ekki og eða skilji ábyrgð sína gangvart lögvörðum réttindum barna og unglinga í landinu.

laugardagur, 20. mars 2010

Ágæti þingmaður

Ágæti þingmaður

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fagna frumvarpi Ögmundar Jónassonar og Þuríðar Backman um breytingar á 20. grein áfengislaga. Sjá nánar hér http://www.althingi.is/altext/138/s/0339.html . Þó svo að núverandi lög séu skýr og ekki síst hinn siðferðilegi boðskapur þeirra þá hefur ákæruvaldið og dómskerfið ekki tekið á þessum málum sem skyldi og það þrátt fyrir að kærur og ábendingar vegna ólöglegra áfengisauglýsinga nemi hundruðum. Dómar eru fjölmargir, dæmi um nokkra þeirra má sjá á heimasíðu Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum www.foreldrasamtok.is En betur má ef duga skal og í þeim efnum styrkir frumvarp Ögmundar Jónassonar og Þuríðar Backman sjálfsögð réttindi barna og unglinga til þess að vera laus við gengdarlausan áfengisáróður.

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum skora á alla alþingismenn hvar í flokki sem þeir standa til að veita þessu frumvarpi brautargengi. Velferð barna- og unglinga er brýnna verkefni en ýtrustu viðskiptahagsmunir áfengisframleiðenda. Æskan er okkar fjársjóður

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum

"Hinn rétti mælikvarði á stöðu þjóðar er hversu vel hún sinnir börnunum." (UNICEF, 2007).

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum

Heimasíða www.foreldrasamtok.is

Rafpóstur foreldrasamtok@foreldrasamtok.is

Foreldrar, forráðamenn og aðrir þeir sem bera velferð æskunnar fyrir brjósti

SNIÐGÖNGUM AUGLÝSTAR ÁFENGISTEGUNDIR

fimmtudagur, 11. mars 2010

Áskorun til sveitarfélaga

Við undirrituð nemendur í grun- og framhaldsnámi og kennarar við Tómstunda- og félagsmálafræðibraut á Menntavísindasviði Háskóla Íslands skora á sveitarstjórnir að standa vörð um tómstunda og félagsstarf í sveitarfélögum á núverandi umbrota- og óvissutímum og tryggja um leið jöfn tækifæri til þátttöku í fjölbreyttu, faglegu frítíma- og tómstundastarfi. Undirrituð hafa áhyggjur af uppsögnum starfsfólks í þessum mikilvæga málaflokki víða um land. Samanber nýlega uppsögn íþrótta- og tómstundafulltrúa í Sveitarfélaginu Álftanesi.

Innlendar og erlendar rannsóknir sýna að þátttaka í skipulögðu félags- og tómstundastarfi undir handleiðslu hæfra leiðbeinenda dregur úr líkum á hvers kyns áhættuhegðun, félagslegri einangrun og skerðingu á lífsgæðum. Ávinningur af því að skerða tómstunda- og félagsstarfsemi þar sem einstaklingar eru virkir þátttakendur er því enginn. Mikill ávinningur yrði hins vegar að því að styrkja slíka starfsemi. Undirrituð benda á 24.grein Mannréttindayfirlýsingar SÞ en þar segir „Hverjum manni ber réttur til hvíldar og tómstunda“.Samkvæmt lögum um öldrunarþjónustu segir í 13.grein.

Þjónustumiðstöðvar aldraðra sem eru starfræktar af sveitarfélögum til að tryggja eldri borgurum félagsskap, næringu, hreyfingu, tómstundaiðju, skemmtun og heilsufarslegt eftirlit. Þjónustumiðstöðvar geta starfað sjálfstætt eða í tengslum við aðra þjónustu sem aldraðir njóta“.

Einnig viljum við benda á að Ísland er aðili að Barnasáttmála SÞ. Samkvæmt 31. grein sáttmálans viðurkenna aðildarríkin rétt barns til að stunda tómstundir, leiki og skemmtanir sem hæfa aldri þess. Auk þessa skuldbinda aðildarríki sig til að virða og efla rétt barns til fullrar þátttöku til tómstundaiðju og stuðla að viðeigandi og jöfnum tækifærum. Við skulum ekki gleyma að hinn rétti mælikvarði á stöðu þjóðar er hversu vel hún sinnir börnum sínum. Mikilvægi tómstunda- og félagsstarfs verður ekki metið til fjár á tímum sem þessum og aldrei hefur verið meiri þörf fyrir faglega starfsemi á þessum vettvangi því skorum við á sveitarfélög landsins að standa vörð um þennan mikilvæga málaflokk.

F.h. nemenda og kennara á Tómstunda- og félagsmálafræðibraut MVS Háskóla Íslands,

Helga Þórunn Sigurðardóttir nemendafulltrúi - hths8@hi.is
Árni Guðmundsson námsbrautarstjóri - arni@hi.is

mánudagur, 8. mars 2010

Af hafnfirskum bæjarstjórnarmálum - l

Einn frískasti meirihluti í Bæjarstjórn Hafnarfjarðar var meirihluti Alþýðuflokks og Alþýðubandalagsins 1986 -1990 undir forystu Guðmundar Árna Stefánssonar og Magnúsar Árnasonar. Farsælt samstarf sem leiddi til þess að kratar fengu hreinan meirihluta í kosningunum 1990. Margir túlkuð úrslitin þannig að nú væri ósk bæjarbúa sú að kratarnir færu einir með völd. Sem og varð en var misráðið því sennilega var það svo að margir bæjarbúar fyrrum fylgismenn annarra flokka studdu meirihlutann þ.m.t. sjálfstæðismenn margir hverjir sem ekki gátu hugsað sér að kjósa „kommanna“ og kusu því kratanna í staðin. Reyndin var hins vegar sú að sá ágæti drengur Magnús Árnason sem átti mjög verulegan þátt í farsæld 86-90 meirihlutans naut ekki ávaxtanna af þeirri vinnu.

Guðmundur Árni var dugmikil bæjarstjóri og afar vel virkur, ótvíræður foringi sem gerði Alþýðuflokkinn að stórveldi með opnum prófkjörum og aðkomu fjölda fólks úr grasrótinni . Guðmundur hefði hins vegar að ósekju mátt starfa lengur að bæjarmálum en í lok kjörtímabilsins 90 – 94 hvarf hann í landsmálin.

Erfið og misráðin samstarfsslit við Alþýðubandalagið 1990 höfðu mikil áhrif næstu árin og gerðu það að verkum að trúnaðarbrestur varð milli fyrrum félaga sem leiddi til þess að alskyns meirihlutar voru myndaðir með afar mismunandi árangri á tíunda áratug síðustu aldar sem endar síðan með því að Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn ná meirihluta.

þriðjudagur, 2. mars 2010

Í flokki lítið breyttra kvenna sigraði ..

Hef aldrei skilið það hvernig hægt er að keppa í Guðsskapnaði eins og s.k. fegurðarsamkeppnir ku ganga út á að mestu leyti. Límbönd, lýta“lækningar“ og önnur trix koma einnig sterk inn og munu ef að líkum lætur gegna sífellt mikilvægari hlutverki sem fegurðaraukandi viðbætur við orginal útgáfurnar.

En þetta eitt og sér nægir ekki í nútíma fegurðarsamkeppnum. Ef marka má umræður um keppnina Ungfrú Reykjavík sem haldin var fyrir skömmu þá er orðið verulega stutt í að dömurnar sem ku koma fram í afar erótískum undirfötum smelli sér hreinlega á súluna og taki "spor". En samkvæmt Geira í Goldfinger mun vera afar algengt að háskólastúdínur iðki þessa tegund listdans til að fjármagna nám sitt.

Einhverjum finnst “ keppnin“ komin út í ógöngur. Flosi Ólafsson heitinn, sá mikli húmoristi var fyrir löngu búin að leysa svona vandamál enda langt á undan sinni samtíð. Ef forsvarsmenn fegurðarkeppna í landinu og víðar hefðu þegið hans ráð þá væri keppnin ekki orðin táknmynd klámvæðingarinnar sem „tröllríður“ samfélaginu um þessar mundir.

Flosi taldi einfaldast í þessu skyni að nýta það sem þegar var til og lagði til að gæðingamatsreglur í Handbók hestamanna yrðu nýttar við dóma á fegurðardísum og gott ef hann tíundaði ekki einnig ítarlega verklag dómara við slíkt mat. Án þess að kasta rýrð á meistara Flosa þá yfirsást honum einn mikilvægur þáttur, skiljanlega því maðurinn skrifað pistla sína á ritvél og í samfélagi sem var nýflutt út úr torfkofum, en það var líftæknin.

Ég vil því bæta örlitlu við hinn Flosiska hugmyndaheim, betrumbæta og færa til nútímans. Viðurkenni strax að ég sæki hugmyndar mínar í torfærusportið. Haganlegast og best er að skipta keppendum fegurðarsamkeppna í eftirtalda flokka: Flokkur óbreyttra kvenna , flokkur lítið breyttra kvenna og flokkur mikið breyttra kvenna. Í staðinn fyrir titilinn ljósmyndafyrirsæta keppninnar þá yrðu veit sérstök verðlaun fyrir mest/best „Fótósjoppuðu“ stúlkuna. Að öðru leyti er best styðjast við klassískar hugmyndir meistara Flosa.

Með þessu fyrirkomulagi er tryggt að okkar fegurstu meyjar séu valdar af vísindalegri nákvæmni og samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum matskerfum sbr Handbók hestamanna. Umræða af þeim toga sem nú fer fram í bloggheimum yrði þarflaus með öllu. Ungfrú Ísland óumdeilanlega fegurst íslenskar kvenna. Málið dautt - þ.e.a.s ef maður telur það verðugt að keppa í Guðsskapnaði?