Í haust (2009) skunduð um 700 hafnfirsk ungmenni niður á Ráðhúsplan og mótmæltu einum rómi verulegum niðurskurði á fjárveitingum til starfsemi félagsmiðstöðva hér í bæ. Þetta var í senn gleðilegt og dapurlegt. Gleðilegt í þeim skilning að unglingar komi skoðunum sínum á framfæri og nýti sér lýðræðislegan rétt sinn til að tjá sig sem og réttinn til að mótmæla þegar að þeim fannst á hlut þeirra gengið. Dapurlegt að bæjaryfirvöld hafi gefið hagsmunum unga fólksins lítinn gaum með sífelldum niðurskurði fjárveitinga til félagsmiðstöðva í bænum.
Á krepputímum breytist margt. Eitt af því eru tómstundir og ekki síst tómstundir barna og unglinga. Lykilbreytur eru kostnaður . Þátttaka í dýrari tómstundatilboðum snar minnkar og þátttaka í ódýrari eða ókeypis þjónustu eykst sé slíkt í boði. Þó svo að æfingagjöld hjá íþróttafélögum séu niðurgreidd af bæjaryfirvöldum, sem er afar gott, þá er erfitt fyrir marga foreldra að fjármagna það sem til fellur aukalega s.s. búnaður, búningar, ferðakostnaður, mótsgjöld o.fl í þessum dúr allt eftir eðli starfsemi. Breytingar verða því þær, ef ekki er við brugðist, að þá finni ungviðið orku sinni annan farveg en í uppbyggilegri starfsemi. Viðkvæmasti hópurinn í þessum efnum er hin s.k ófélagsbundna æska. Því miður kennir reynslan okkur, bæði hvað varðar reynslu Finna og ekki síst ýmislegt sem átti sér stað í efnahagsdýfunni miklu hérlendis um miðjan tíunda áratug síðust aldar. Má þar nefna aukna unglingadrykkju , landasölu o.fl.
Til þess að mæta þessu ástandi þá þarf m.a. að efla starfsemi félagsmiðstöðva, styrkja fagmennsku, auka opnunartíma og auka möguleika unglinga til uppbygglegra tómstundastarfa í bæjarfélaginu. Þess vegna stingur í stúf að en á ný skulu koma fram tillögur sem fela í sér skerðingu á þjónustu við börn og unglinga í bæjarfélaginu hvort sem litið er til starfsemi eða fagmennsku. Í haust voru lagðar fram tillögur verkefnisstjóra æskulýðsmála um skipulagsbreytingar að frumkvæði íþrótta- og tómstundanefndar. Þær tillögur féllu sem kunnugt er í grýttan jarðaveg. Í kjölfarið var skipaður starfshópur sem fékk að það afmarkaða verkefni að endurvinna þegar fram komnar og afleiddar hugmyndir að virðist?
Eins og fram kemur í „nýju“ tillögunum þá segir þar berum orðum að segja eigi upp öllum forstöðumönnum félagsmiðstöðva og einungis endurráða þrjá sem yrðu þá forstöðumenn sem eftirleiðis kallast „svæðisstjórar“ yfir 2-3 félagsmiðstöðum? Í félagsmiðstöðvum sjálfum starfi eftirleiðis „verkefnastjórar“ sem ekki verði gerðar kröfur um að uppfylli nein sérstök skilyrði um menntun? Með þessu tapast a.m.k. tvennt. Í fyrsta lagi er fagfólk, menntun þeirra og dýrmæt reynsla fjarlægð af vettvangi og starfsmönnum á gólfi fækkar. Í öðru lagi er farið með menntunarkröfur til starfsmanna í félagsmiðstöðvum áratugi aftur í tímann. Í raun er því hér um verulegan niðurskurð að tefla hvort sem litið er til fjármuna eða faglegar sjónarmiða. Sem fyrr er gengið út frá því að tilraun í þessa veru í Áslandshverfi (sem engin hefur tekið út formlega) hafi gengið vel ? Með þessum tillögum er verið að flytja þrjá starfsmenn í stjórnsýslustörf á skrifstofu æskulýðsmála sem þarf ekki á slíku að halda enda þegar þrír starfsmenn þar fyrir? Félagsmiðstöðvar í Hafnarfirði verða með þessum breytingum ekki tækar til þess að taka að sér vettvangsnema í tómstunda- og félagsmálafræðum frá Háskóla Íslands. Starfsemin uppfyllir ekki lágmarkskilyrði um menntun starfsmanna til að taka að sér leiðsögn nema. Maður furðar sig á þessum tillögum og veltir jafnframt fyrir sér hvort búast megi við sambærilegum tillögum varðandi aðrar stofnanir bæjarins s.s. leik- og grunnskóla? Eiga tveir þrír leikskólar að fara undir forsjá eins leiksskólastjóra. Hvar er fagmennskan -eru börn og unglingar afgangsstæð?
Einhver skrifstofuvæðing æskulýðsmála er ekki verkefni dagsins, þau eru einfaldlega þau að auka eins og frekast er kostur starfsemi með börnum og unglingum í nærumhverfi þeirra. Hjá ITH starfa margir frábærir starfsmenn og stefna bæjaryfirvalda ætti fyrst og fremst snúast um að skapa forsendur fyrir ennþá betra starfi á vettvangi . Fyrirliggjandi skipulagstillögur hafa lítið með það að gera. Eftir stendur að rúmlega 700 ungmenni tjáðu hug sinn í verki á haustmánuðum. Í Hafnarfirði, bæ hins virka íbúalýðræðis verða menn að bregðast við slíku. "Hinn rétti mælikvarði á stöðu þjóðar er hversu vel hún sinnir börnunum." (UNICEF, 2007).
Grein þessi birtist í Fjarðarpóstinum 25.mars 2010 - www.fjardarposturinn.is