fimmtudagur, 27. nóvember 2008

Góð ráð fyrir þingmenn frá ungri ...

...stúlku af Akranesi sem hafði ákveðnar meiningar gegn áfengisauglýsingum en í fundargerð kom eftirfarandi fram:

“Una Harðardóttir, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Brekkubæjarskóla, fjallaði um lög um auglýsingar á vímuefnum. Í máli Unu kom fram að á Íslandi væru lög sem segja að ekki megi auglýsa áfengi… sjá nánar á heimasíðu foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum www.foreldrasamtok.is

þriðjudagur, 18. nóvember 2008

Æskan á erfiðum tímum

Í bókinni Da Danmark fik sin ungdom, saga Ungdomsringen (Danska Samfés) í 50 ár, kemur fram hve gríðarlega mikilvægu hlutverki félagsmiðstöðvar gegndu á stríðstímum í hinni hernumdu Danmörku. Í Dönsku andspyrnuhreyfingunni var margt ungt fólk sem upplifði því miður ýmislegt sem ekki var beinlínis uppbyggilegt. Samfélagið varð því að finna einhver ráð til þess að halda utan um ungviðið. Í þeim efnum voru félagsmiðstöðvar í lykilhlutverki – ekki hvað varðar skipulag og starf andspyrnuhreyfingarinnar – félagsmiðstöðvar voru lykilaðilar í því að halda hinum mannlegu gildum að ungmennum, gildum sem því miður fer lítið fyrir í stríðsátökum og gildum sem því miður verða ríkjandi ef ekkert er aðhafst í þeim samfélögum þar sem allt fer á skjön. Hættan er því sú að kynslóðir ungs fólks sem ekki hafa hin sammannlegu gildi í hávegum vaxi upp og lifi og starfi í samfélaginu út frá reynslu sem ekki virkar með tilheyrandi árekstrum og vandamálum.

Ekki ætla ég að jafna ástandi hérlendis þessi misserin við reynslu þeirra sem búa yfir hinni sáru og óbærilegu reynslu stríðsátaka. Ég ætla hins vegar að halda því fram að kreppan sem læðist að okkur eins og skugginn muni hafa margvíslegar félagslegar afleiðingar sem hugsanlega munu leiði til einhverskonar afskiptaleysis gagnvart æskunni. Við slíkar aðstæður er hætta á að unglingurinn/ barnið telji að hið erfið ástand sé því að kenna. Sá sem þetta ritar upplifði kreppuna 68 með augum barnsins, skynjaði að eitthvað var að en skyldi ekki hvað það var og eða hvers vegna var svona dauft yfir fullorðna fólkinu. Í þessu ljósi er því gríðarlega mikilvægt að gleyma ekki ungviðinu eins og því miður gæti orðið raunin. Æskulýðsstarf í sinni víðustu mynd hefur því afar miklu hlutverki að gegna og góðu fréttirnar eru þær að við eigum góða að í þeim efnum; starfsemi félagsmiðstöðva er með miklum blóma , Ungmennafélagshreyfingin, Skátarnir, KFUM & K, íþróttahreyfingin og fleiri státa af mjög fjölbreyttu og vönduðu starfi. Hlutverk stafsmanna í æskulýðsstarfi er alltaf mikilvægt og á tímum eins og þessum sérlega mikilvægt. Hin faglega kunnátta að geta unnið með börnum og unglingum út frá hinum félaglegu afleiðingum kreppunnar eru sönn verðmæti sem ekki verða metin til fjár á hinum síðustu og verstu...

laugardagur, 8. nóvember 2008

Frábært framtak hjá Hinu Húsinu

Klár í kreppu? er ókeypis og óháð fjármálanámskeið á mannamáli fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára sem Hitt Húsið heldur í samstarfi við Neytendasamtökin og Reykjavíkurborg . Frábært framtak.

Sjá nánar á vefsíðu Hins Hússins

fimmtudagur, 6. nóvember 2008

Í landi hinna “tæknilegu mistaka” ...

... segir ekki nokkur maður af sér ... skiptir í engu hvort maður er verkalýðsforingi í siðlausri bankastjórn, stjórnmálamaður sem er giftur “besta vini aðal”, þaulsetinn dvalargestur á pólitísku elliheimili sem sumir nefna Seðlabankann ... og svona mætti lengi telja.

Ekki segir nokkur maður af sér – Hvað ætli þessi “tæknilegu mistök” í efnahagslífinu hafi kostað þjóðina mörg þúsund trilljón billjón milljónir Tobleron pakka. Einn Tobleron pakki var einum Tobleron pakka of mikið hjá vinum mínum Svíum sem þekkja ekki hið séríslenska hugtak “tæknileg mistök”.

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Fólk er fífl sagði ...

Fólk er fífl sagði Tómas Möller einn af yfirmönnum Olís í frægum tölvupósti í tengslum við verðsamráð olíufélaganna hér um árið. Sýndi auðvita með því fyrst og fremst eigin hroka og dómgreindarleysi. Ætti frekara í hans tilfelli að vera reynum að hafa fólk að fíflum.

Sjálftökulið bankakerfisins hefur greinilega sambærileg viðhorf til almennings þegar í ljós kemur að menn þar á bæ reyna aðallega og eftir fremsta megni að bjarga eigin skinni. Eru eins og skipstjóri sökkvandi skips sem fer fyrstur í bátinn, tekur með sér þá áhafnarmeðlimi sem klúðruðu ferðinni, brunar í burtu og skilur alla farþegana eftir á sökkvandi skipi. Um slíka kapteina og hans fylgilið má með réttu hafa uppi ummæli sambærileg þeim og forseti vor viðhafði eitt sinn í þingsölum Alþingis um mann einn sem honum fannst lítið til koma.

Eitt er það að klúðra, annað að standa andspænis klúðrinu og vera manneskja til gangast við því og gera sitt besta til þess að leysa mál í þágu þeirra sem klúðrið bitnar á. Fíflin í huga Tómasar Möller kallast á íslensku fórnarlömb, hinn sk. almenningur. Hin raunverulegu ((fífl (ef maður kýs yfirhöfðuð að hafa uppi slík ummæli um fólk)) vita allir hver eru og það sem verra er að þau skarta auk þess ýmsum öðrum löstum tegundarinnar homo sapiens sem ég læt lesendum dagskinnunnar eftir að viðhafa.