mánudagur, 28. janúar 2008

Ráðgjafasíður

Ungt fólk er oft að velta fyrir sér málum sem það þorir ekki að spyrja um eða að foreldrar þora ekki, eða vita ekki á hvern veg er best að svara, eða vekja máls á. Þetta verður til þess að unglingarnir leita svara á netinu. Oft eru þetta spurningar varðandi kynlíf, kynhegðun og kynhlutverk sem geta vafist fyrir unga fólkinu.

Í þessu sambandi eru tvær síður sem eru afar vandaðar og góðar. www.astradur.is sem er í umsjón læknanema er frábær og mjög faglega unnin síða. Sama á við um www.totalradgjof.is sem er ráðgjafasíða Hins Hússins í Reykjavík.

Vandaðar síður eru alltaf einkennanlegar þ.e. að glögglega má sjá hverjir halda úti viðkomandi síðu. Nokkur brögð eru á sjálfsskipuðum dulbúnum "sérfræðingum" í netheimum sem halda útí síðum sem gera bara illt verra. Best er auðvitað ef foreldrar geti rætt þessi miklivægu mál við unglingana sína, ef ekki þá er gott að geta bent á alvöru síður. Unglingar spyrja spurninga sem þarf að svara, tryggjum að þau fái rétt svör.

föstudagur, 25. janúar 2008

Hve glöð er vor æska

Þegar að pólitíkin verður með slíkum eindæmum og hin mörgu klassísku gildi tilverunnar eins og siðferði verða algerlega út undan í glórulausu valdabrölti, þá misbýður fjölda fólks. Þegar að svo er komið þá hefur samkvæmt hinu íslenska „ Pollyönnuheilkenni „ verið nokkuð víst að hægt að er treysta á þriggja daga svekkelsi almennings og síðan ekki söguna meir.

Nú hefur þetta sem betur fer breyst eða er að breytast. Lætin í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær þarf að setja í víðara samhengi. Allt þetta vesen í þjóðfélaginu hefur auðvitað áhrif á yngri kynslóðina. Verðsamráð, okur, fákeppni, pólitísk hagsmunagæsla, húsnæðisvandamál eru veruleiki og þegar að við bætist almennt ráðleysi gangvart hinum praktísku og mikilvægu málefnum ungs fólks þá veit það ekki á gott. Á sama tíma og viðfangsefni stjórnmálamanna eiga að snúast um þetta þá svífast stjórnmálamenn einskis í eigin valdabrölti og gera hvað sem er fyrir völd og valdabrölt í þágu margra annarra en akkúrat æskunnar og þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Hin brýnu viðfangsefni hversdagsins sitja á hakanum.

Um þetta snýst málið að stórum hluta að mínu mati og á þessari ólgu ber að taka mark á fremur en að ræða einhverjar leikreglur sem fólkið fari ekki eftir. Við skulum hafa það í huga að viðkomandi stjórnmálamenn eru sjálfir á vinnandi á mörkum hins siðlega og jafnvel ef við setjum það undir hugtakið pólitískt siðferði (þ.e.a.s ef maður telur slíkt vera til).

Það er því tilvalið fyrir þá stjórnmálamenn sem ekki skilja kall tímans og grafa hausinn í sandinn og tala um þessa uppákomu sem einber ólæti – málið er auðvitað það að unga fólkið vill stjórnmalamenn sem vinna 24/7 að málefnum sem skipta máli. Rödd æskunnar eru verðmæti fyrir hvern stjórnmálamann þó svo að hún sé sett fram með óhefðbundnum hætti og galsafegnum. Minni miðaldra og þaðan af eldri stjórnmálamenn á að einu sinni voru þeir sjálfir þessi ódæla æska, sem bjó við fordóma þess tíma miðaldra og þaðan af eldri stjórnmálamanna sbr. 68 kynslóðin.

Vona því að menn taki mark á þessum skilaboðum ungviðisins eins og samfélagið gerði um 1970 með því að breyta gildum samfélagsins til mun betri vegar s.s auknum áhrifum ungs fólks. Skilaboðin eru augljós að mínu mati og ég fagna því að ungt fólk láti í sér heyra í stað þess eins og við mörg hver sem eldri erum og höfum látið hverja vitleysuna af annarri yfir okkur ganga, verið spæld í þrjá daga og hugsað eins og Pollyanna „verra gat það verið“.

miðvikudagur, 23. janúar 2008

Tær snilld - Back Door Slam

Sex mínótur af tærri snilld. Sama hljóðfæraskipan og hjá hinni vinsælu léttspilandi rokksveit Plús, en örlítið fimari. Heyrn er sögu líkari: http://www.youtube.com/watch?v=y7PtSsbkGdM

sunnudagur, 20. janúar 2008

Ekki að gera sig og í Es dúr

Ekki þykir mér þjóðsöngurinn okkar grúva vel í þeirri útgáfu sem spiluð er í upphafi leikja hjá okkar mönnum í handboltanum. Allt of hratt leikið og ennþá í Es dúr. Ekki gott og með öllu ósyngjanlegt.

laugardagur, 19. janúar 2008

Íslenskan texta – já takk

Legg til að sjónvarp allra landsmanna, sem og aðrar sjónvarpsstöðvar, texti allt íslenskt efni. Getur ekki verið mikið mál þar sem mikið af þessu s.s. fréttir er nú þegar lesið af einhverjum textavélum. Af hverju má ekki senda það út einsog hvern annan texta. Eru heyrnarskertir sem og íslendingar af erlendu bergi brotið annars flokks þegnar í þessu landi? Hér er mikið rými til framfara – ekki satt.

fimmtudagur, 17. janúar 2008

5 ára afmæli

“Tíminn líður hratt á gervihnattaöld” kvað söngvaskáldið Magnús Eiríksson hér um árið. Orð að sönnu því mér finnst einhvern vegin að ég hafi opnað þessa dagskinnu fyrir stuttu. Raunin hins vegar sú að þann 15. janúar 2003 hófst kúrs í upplýsingatækni í KHÍ hjá þeim frábæra kennara Salvöru Gissurardóttur, þar sem m.a. annars var verkefni að opna dagskinnu. Varð óforbetranlegur í þessum heimum strax. Dagskinnan hefur reynst vel – ekki allir sammála því sem þar er sett fram og oft hefur gustað hressilega sérstaklega þegar ég var á kafi í verkalýðsmálum. Ein regla í hávegum höfð – skrifa ávallt undir nafni.

sunnudagur, 13. janúar 2008

Vel að verki staðið hjá menntamálaráðherra

Er ánægður með frumkvæði menntamálaráðherra varðandi heildarlöggjöf í skólamálum. Finnst menntamálaráðherra hafa sýnt mikilvægt frumkvæði og áræði með framlagningu þessara heilstæðu og yfirgripsmiklu frumvarpa. Sjá nánar:

Grunnskólar, 285.mál, (heildarlög), www.althingi.is/altext/135/s/0319.html
Framhaldsskólar, 286.mál, (heildarlög) www.althingi.is/altext/135/s/0320.html
Leikskólar, 287. mál, (heildarlög), www.althingi.is/altext/135/s/0321.html
Menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, 288.mál (kröfur til kennaramenntunar ofl) www.althingi.is/altext/135/s/0322.html

Næstu verkefni eiga að mínu mati að snúast um lög um símenntun og fullorðinsfræðslu sem er sífellt stækkandi málaflokkur og tímabært að setja lagaramma.

fimmtudagur, 10. janúar 2008

Extreme Low Level Flying

Ætli upplýsingafulltrúi Icelandair viti af þessu. Rakst á vídeó af þessar ævintýramennsku Icelandair flugmanna . Sennilega tekið upp fyrir austan. Sjón er sögu ríkari, sjá: http://www.metacafe.com/w/719766/

miðvikudagur, 9. janúar 2008

Það vantar hugtak

Hinn pólitíski fulltrúi löggjafarvaldsins sem jafnframt er einn æðsti embættismaður framkvæmdavaldsins skipar dómara hins óháða dómsvalds? Úps hvað hét þetta aftur í félagsfræðinni - þrískipting ríkisvaldsins og hvaða “ismi” er þetta orðið þegar “rétt” ætterni spilar inn í ? Er ekki búið að “hagræða” lýðræðinu full mikið. Er þetta kannski “menntað” einveldi? –Veit það ekki, fákeppni, einokun og samráð eru hugtök sem sennilega eiga sér víðari skírskotun en bara í viðskiptalífinu. Hér vantar nýtt hugtak?

mánudagur, 7. janúar 2008

Hörður Torfason ...

... er án alls vafa einn af okkar fremstu listamönnum. Lenti í því ánægjulega hlutverki að vera veislustjóri, eða frekar réttara að segja kynnir, í fimmtugsafmæli vinar míns á föstudagskvöldið. „ Afmælið“ reyndist þegar að til kom vera tónleikar með Herði Torfasyni.

Frábærir tónleikar enda Hörður okkar allra besti trúbadúr. Hörður er ekki bara afburðargóður tónlistamaður, hann er ekki síðri sagnameistari og þegar að tónlistin og sögurnar verða eitt þá er komin formúla að vel heppnuðum performans. Sem varð raunin á föstudagskvöldið, frábærir tónleikar í alla staði – Mikið erum við íslendingar ríkir að eiga svona „menningarveitu“ eins og Hörð Torfason.

miðvikudagur, 2. janúar 2008

Hvers eiga húsin að gjalda

Las um daginn að ungur maður í Bretlandi hefði verið dæmdur vegna “gangstéttahneigðar”. Maðurinn gerði sér sem sagt afar dælt við gangstéttar þegar að sá gálinn var á honum. Þessi undarlega ástleitni varð einnig til þess að manninum var gert skylt að leita sér meðferðar.

Datt þetta svona í hug þegar að ég sá þessa undarlegu og óviðeigandi Remax auglýsingu inn í miðju áramótaskaupinu. Fullt af fólki djúpt sokkið í einhverskonar ástaraltlotum við hús? “Húsahneigð” á háu stigi hugsaði ég með mér – argasta klám samkvæmt breska dómskerfinu – Remax fremstir í húsa porno bransanum - þurfa þeir ekki að fara í meðferð eins og Bretinn ungi?