Þegar að pólitíkin verður með slíkum eindæmum og hin mörgu klassísku gildi tilverunnar eins og siðferði verða algerlega út undan í glórulausu valdabrölti, þá misbýður fjölda fólks. Þegar að svo er komið þá hefur samkvæmt hinu íslenska „ Pollyönnuheilkenni „ verið nokkuð víst að hægt að er treysta á þriggja daga svekkelsi almennings og síðan ekki söguna meir.
Nú hefur þetta sem betur fer breyst eða er að breytast. Lætin í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær þarf að setja í víðara samhengi. Allt þetta vesen í þjóðfélaginu hefur auðvitað áhrif á yngri kynslóðina. Verðsamráð, okur, fákeppni, pólitísk hagsmunagæsla, húsnæðisvandamál eru veruleiki og þegar að við bætist almennt ráðleysi gangvart hinum praktísku og mikilvægu málefnum ungs fólks þá veit það ekki á gott. Á sama tíma og viðfangsefni stjórnmálamanna eiga að snúast um þetta þá svífast stjórnmálamenn einskis í eigin valdabrölti og gera hvað sem er fyrir völd og valdabrölt í þágu margra annarra en akkúrat æskunnar og þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Hin brýnu viðfangsefni hversdagsins sitja á hakanum.
Um þetta snýst málið að stórum hluta að mínu mati og á þessari ólgu ber að taka mark á fremur en að ræða einhverjar leikreglur sem fólkið fari ekki eftir. Við skulum hafa það í huga að viðkomandi stjórnmálamenn eru sjálfir á vinnandi á mörkum hins siðlega og jafnvel ef við setjum það undir hugtakið pólitískt siðferði (þ.e.a.s ef maður telur slíkt vera til).
Það er því tilvalið fyrir þá stjórnmálamenn sem ekki skilja kall tímans og grafa hausinn í sandinn og tala um þessa uppákomu sem einber ólæti – málið er auðvitað það að unga fólkið vill stjórnmalamenn sem vinna 24/7 að málefnum sem skipta máli. Rödd æskunnar eru verðmæti fyrir hvern stjórnmálamann þó svo að hún sé sett fram með óhefðbundnum hætti og galsafegnum. Minni miðaldra og þaðan af eldri stjórnmálamenn á að einu sinni voru þeir sjálfir þessi ódæla æska, sem bjó við fordóma þess tíma miðaldra og þaðan af eldri stjórnmálamanna sbr. 68 kynslóðin.
Vona því að menn taki mark á þessum skilaboðum ungviðisins eins og samfélagið gerði um 1970 með því að breyta gildum samfélagsins til mun betri vegar s.s auknum áhrifum ungs fólks. Skilaboðin eru augljós að mínu mati og ég fagna því að ungt fólk láti í sér heyra í stað þess eins og við mörg hver sem eldri erum og höfum látið hverja vitleysuna af annarri yfir okkur ganga, verið spæld í þrjá daga og hugsað eins og Pollyanna „verra gat það verið“.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli