Hef verið að kynna mér „tillögur“ um skipan æskulýðsmála í
okkar ágæta bæjarfélagi, Hafnarfirði. M.a. skýrslu
sem finna má á vef bæjarins. „Tillögur“ er auðvitað rangnefni þar sem að
um einni og hálfri klukkustund eftir að tillögur þessar í æskulýðsmálum voru fyrst
gerðar opinberar á sérstökum auka bæjarstjórnarfundi 29. júní s.l. var búið að
samþykkja æskulýðshluta skipulagsbreytinga bæjarfélagsins og það án nokkurra
umræðna, samráðs eða aðkomu þeirra sem í geiranum starfa, ungmennum í
ungmennaráði Hafnarfjarðar og eða bæjarbúum almennt. Og þegar að þetta er
skrifað er búið að segja nokkrum fjölda lykilstarfsmanna í æskulýðsmálum upp
störfum.
Þessi atburðarrás er sennilega einsdæmi og svo sannarlega ekki til eftirbreytni endu ku alsiða að kynna mál ítarlega með góðum fyrirvara auk þess sem slíkar grundvallarbreytingar kalla á tvær umræður í bæjarstjórn. Starfsmannapólitíkin er svo auðvitað kapítuli út af fyrir sig.Textinn um æskulýðsmál er afar rýr en aðleiðingar miklar, niðurskurður og uppsagnir. Ekki verður annað séð en að þessi grundvallarbreyting byggi á eftirfarandi.
Fáar línur og innihaldið
eftir því
„… Verkefni
íþróttadeildar og forvarna - og tómstundadeildar verði færð undir (ekki til
– innskot ÁG) fræðsluþjónustu.
Lagt er til að öll verkefni íþróttadeildar og forvarna - og
tómstundadeildar utan félagsstarfs aldraðra verði færð undir
fræðsluþjónustu. Tillagan er rökstudd bæði út frá faglegum og
rekstrarlegum sjónarmiðum. Fram kom í greiningu að nokkuð vanti upp á samstarf
og samspil á milli grunnskóla og frístundaheimila.
Stjórnendur skóla og frístundaheimila séu að skipuleggja
starfið í kringum hvern annan en frístundaheimilin eru inn í húsnæði
grunnskólanna. Það verður að teljast eðlilegt að verkefnin hafi sömu
yfirstjórn og einn stjórnanda innan skólans sem verði skólastjóri.
Þannig verði tryggt enn frekar að starfsfólk, húsnæði og aðrir fjármunir nýtist
sem best." (Capacent - Hafnarfjarðarbær
- Úttekt á rekstri og stjórnskipulagi bæjarins, bls 211).
Spurning á hvern hátt þessi klausa samræmist almennu
æskulýðsstarfi og markmiðum í þeirri starfsemi? Er starfsemi frístundaheimila
og félagsmiðstöðva framhald eða hluti af almennu skólastarfi, ef svo er, er það
ekki réttast að setja skylda starfsemi eins og t.d starfsemi skáta og félagasamtaka undir hatt
skólanna? Og eða leikskólana sem eru í næsta nágrenni. Ennfremur segir:
"Skólastjórnendur sjá tækifæri í því setja rekstur frístundaheimila
og félagsmiðstöðva undir skólana. Það gæti verið leið til að auka
samfellu á starfinu og ná fram heildstæðari þjónustu fyrir börnin. Boðleiðir
í þessum efnum geta verið fulllangar þar sem sérstakir verkefnastjórar eru yfir
frístundaheimilunum á öðru sviði. Nefnt var að skólar bæjarins hafi tekið upp SMT
agakerfi en það geri frístundaheimilin ekki. Þá séu tækifæri til að efla
fræðsluhlutverk frístundaheimilanna." (Capacent - Hafnarfjarðarbær -
Úttekt á rekstri og stjórn- skipulagi bæjarins – Greiningarhluti, bls 75)
Spurt er?
Fyrir mig sem bæjarbúa, einlægan áhugamann um velferð
æskunnar og sérfræðing í æskulýðsmálum er leitt að horfa upp á þessa
stjórnkerfisvitleysu sem ekki er hægt að orða með öðrum hætti en að um
sannkallaða fúskvæðingu málaflokksins sé að ræða, afturhvarf um ca 35 ár. Varpa
af þessu tilefni fram eftirfarandi spurningum til forseta bæjarstjórnar,
formanns bæjarráðs og skýrsluhöfunda.
Ég velti í fyrsta lagi fyrir mér hvaða sérfræðingar á sviði
æskulýðsmála (s.s. tómstunda- og félagsmálafræðingar / félagsuppeldisfræðingar)
komu að gerð skýrslunnar/ tillagnanna? Í öðru lagi hvers vegna félagstarf
aldraðra er aðskilið öðru félagsstarfi? Í þriðja lagi þá finn ég hvergi faglegan rökstuðning fyrir þessu breytingum sem þó er sérstaklega
vísað til í skýrslunni? Í fjórða lagi hvaða
sérþekkingu hafa skólastjórar á sviði
tómstunda- og félagsmálafræða? Í fimmta lagi á agastjórnunarkerfi skólanna að
marka alla tilveru barna og ungmenna og hvernig getur slík verið ástæða til
grundvallarbreytinga í æskulýðsmálum bæjarfélagsins? Í sjötta lagi eiga ungmenni
sem af einhverjum ástæðum tekst ekki að aðalaga sig agavaldi skólans að gjalda
þess í frítíma sínum? Í sjöunda lagi hve
mikið hækka launum skólastjóra samkvæmt ákvæðum í kjarasamningum þeirra vegna
þessara breytinga? Í sjöunda lagi hvort
einhver getur sagt mér hvaða „fag“ eða
hlutverki fagstjóri frístundamála hefur eins og fram kemur í skipurriti
varðandi verkefni æskulýðs- og íþróttafulltrúa, er ekki hepplegast að slíkur
starfsmaður sjái um rekstur og stjórnun frístundamála eins og verið hefur?
Svona
mætti lengi spyrja en verður ekki gert að sinni hvað sem síðar kann að verða. Það
þarf vart að fjölyrða meira um þessar tillögur, samþykkt þeirra veldur því að
það virðist engu líkara en að það sé
einlægur ásetningur bæjaryfirvalda að koma sér hratt og örugglega í ruslflokk á
sviði æskulýðsmála – hér er um að ræða fúsk sem hvorki vel menntað og vandað
starfsfólk í málflokknum og æska bæjarins á skilið. Er björt framtíð í
æskulýðsmálum í Hafnarfirði? Nei því miður, hér hefur svo sannarlega,illu heilli, myndast
verulegt rými til framfara.
Árni Guðmundsson M.Ed félagsuppeldisfræðingur,
Rannsóknarstofu í Bernsku og æskulýðsfræðum
Tómstunda-og félagsmálafræðideild Menntavísindasvið Háskóla Íslands
Grein þessi birtist í Fjarðarpóstinum 8.júlí 2015 www.fjardarposturinn.is
Engin ummæli:
Skrifa ummæli