Forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og og formaður Íþrótta- og tómstundaráðs Hafnarfjarðar rita grein í Fréttablaðið þ. 21. júli s.l. Grein þeirra Faglegt æskulýðsstarf í Hafnarfirði og er sennilega sett fram sem einhverskonar svar við grein minni í Fjarðarpóstinum þ.9 júli s.l. er nefndist Er björt framtíð í æskulýðsmálum (í Hafnarfirði) sem og umfjöllun Hafnfirska vefmiðilsins Bærinn okkar undir fyrirsögninni Í ruslflokk á sviði æskulýðsmála. Eins og fyrirsagnirnar gefa til kynna þá má vera ljóst að vera að sitt sýnist hverju hvað varðar skipulagsbreytingar í æskulýðsmálum hjá bæjarfélaginu. Sá sem þetta ritar getur vel tekið undir það að æskulýðsstarf í Hafnarfirði sé faglegt því hjá ÍTH (Íþrótta- og tómstundaráði Hafnarfjarðar) starfar fjöldi vel menntaðra og hæfileikaríkra starfsmanna af heildindum og trúmennsku en við stórfellt skilningsleysi bæjaryfirvalda á þessum mikilvæga málaflokki. Í grein forseta og formanns ÍTH er nánast í engu fjallað um stjórnsýslubreytingar æskulýðsmála sem slíkar en þess í stað, rætt um að tillögur geti miskilist, nú þurfi að fara fram samtal, fólk eigi ekki að vera hrætt við breytingar m.m.
Kjarni málsins er
þessi
29. júní s.l. voru tillögur um stjórnsýslubreytingar hjá Hafnarfjarðarbæ
fyrst “ kynntar“ bæjarfulltrúum á
lokuðum fundi og í kjölfar „kynningarinnar“ var haldin sérstakur auka fundur í
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Um 90 mínútum
eftir að „tillögurnar“ voru fyrst gerðar opinberar var búið að samþykkja æskulýðshluta
þeirra af meirihluta í Bæjarstjórn Hafnarfjarðar? Algerlega umræðulaust, án samráðs eða
skoðannaskipta við nokkra þá sem málið raunverulega varðar eða snertir, án samráðs
eða aðkomu þeirra sem í geiranum starfa, án samráðs við ungmenni í ungmennaráði
Hafnarfjarðar, án nokkurar kynningar eða opinberrar umræðu í bæjarfélaginu. Í kjölfarið var svo einhverjum lykilstjórnendum
æskulýðsmála sagt upp störfum. Og nú síðast þá hafa grunnskólar Hafnarfjarðar auglýst laus
störf í æskulýðsgeiranum og þá væntanlega í samræmi við nýtt
"skipurit". Að sögn forseta
bæjarstjórnar (sbr upptöku af fundi bæjarstjórnar þ. 29. júní) var nauðsynlegt
að samþykkja þessar tillögur til þess að skólastjórnendur gætu hafið
nauðsynlegan undirbúning nú þegar.
Fúsk
Stjórnkerfisbreytinguna bráðnauðsynlegu er því miður ekki
hægt flokka undir annað en fúsk. Oft á tíðum hafa málaflokkar og deildir verið
fluttir á milli sviða í bæjarfélögum en haldið viðfangsefnum sínum í öllum
meginatriðum. Í þessu tilfelli er gengið mun lengra því samþykktin felur í sér
að frístundaheimili og félagsmiðstöðvar
bæjarfélagins eru settar undir forræði einstakra skólastjórnenda (eins og þeir
hafi ekki nóg að sinni könnu) en
æskulýðs- og íþróttafulltrúi verði „fagstjóri“
frístundamála sem muni hafa það hlutverk ráðleggja skólastjórnendum, sem
ekki hafa neina sérþekkingu í tómstunda- og félagsmálafræðum um það hvernig á
að reka slíkt starf í stað þess að æskulýðsdeildin geri það og með ágætum eins
og verið hefur? Talandi um að einfaldar
boðleiðir, sem var ein af fáum
röksemdunum fyrir þessum undarlegu breytingum. Önnur röksemd var að skólarnir
starfi eftir s.k. SMT agastjórnunarkerfi en það geri æskulýðsstarfið ekki? Svo sé „eðlilegt“ , af því starfsemin sé í
sama húsnæði, að skólastjórar fari með forræðið?
Í þeim nokkru og fátæklegu línum sem
eignaðar eru æskulýðsmálum að öðru leiti í þessari skýrslu er rúsínan í
pylsuendanum þessi „Tillagan er rökstudd
bæði út frá faglegum og rekstrarlegum sjónarmiðum“. Þrátt fyrir afar ítarlega leit finnast þessi
faglegu rök ekki enda augljóst af lestri skýrslunnar að hvorki Capcent , R3, og
HLH ehf búa ekki yfir neinni faglegri þekkingu að sviði æskulýðsmála.
Spurt er
Á agastjórnunarkerfi skólanna að marka alla tilveru barna og
ungmenna og hvernig getur slíkt verið ástæða til grundvallarbreytinga í
æskulýðsmálum bæjarfélagsins? Eiga hafnfirsk ungmenni sem af einhverjum ástæðum
tekst ekki að aðalaga sig agavaldi skólans að gjalda þess í frítíma sínum? Hvaða
sérþekkingu hafa skólastjórar á sviði tómstunda- og félagsmálafræða? Er ekki
bara tilvalið að skólastjórar sinni alfarið því sem þeir eru bestir í sem að
öllu jöfnu er að reka skóla? Um þetta mætti hafa mörg fleirri orð en verður
ekki gert að sinni.
Að lokum
„Ræðum málin til enda“
skrifar forseti bæjarstjórnar sem hljómar reyndar ekki sérstaklega sannfærandi. Í fyrsta lagi þegar staðið er frammi fyrir
orðnum hlut í æskulýðsmálum og í öðru lagi þegar litið er á ferli þessa máls í
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Ef forseti bæjarstjórnar meinar eitthvað með þessum
skrifum þá er fyrsta skrefið af hans hálfu að draga þessa samþykkt til baka og
skapa með því raunverulegar forsendur til alvöru samtals um æskulýðsmál í
Hafnarfirði. Ekki veitir af því öll viljum við áframhaldandi faglegt æskulýðsstarfi í Hafnarfirði – ekki
satt?
Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 29. júlí s.l.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli