þriðjudagur, 25. ágúst 2015

Öll gagnrýni afþökkuð


Helga Ingólfsdóttir bæjarfulltrúi í Hafnarfirði sendir mér tóninn í grein í Fréttablaðinu 5. ágúst s.l. undir titlinum „Fagleg umfjöllun óskast!“ og vísar til skrifa minna um æskulýðsmál í Hafnarfirði. Mér þykir leitt að bæjarfulltrúinn hafi ekki getað gert skrifin mín sér að góðu og velti fyrir mér hvort það geti ekki talist hluti þess vanda sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur komið sér í á vettvangi æskulýðsmála. Ekki endilega skrif í mín um æskulýðsmál, ekki síður algert samráðsleysi við fag- og fræðaumhverfið og þá aðila sem málið varðar. Vandi sem felst í grundvallarbreytingum sem var þvingað í gegnum bæjarstjórn umræðulaust á sérstökum auka bæjarstjórnarfundi og komið til framkvæmda nánast sama dag með tilheyrandi uppsögnum o.fl. Fulltrúar þessara aðferða bregðast svo við opinberri umræðu með greinum eins og „Fagleg æskulýðsmál í Hafnarfirði“ og „Fagleg umræða óskast!“ ómstrítt í meira lagi, svona svipað eins og Raggi Bjarna að spila pönk. Ferli þessa máls segir allt sem segja þarf.

Annað er fúsk – hitt er fagmennska
Bæjarfulltrúinn vísar til umdeildra skipulagsbreytinga í Reykjavík sem hann telur sambærilegar breytingum í Hafnarfirði, sem er rangt í öllum meginatriðum. Í Reykjavík var tekist á um hvort heildstætt og vel starfandi svið Íþrótta- og tómstundamála (ÍTR) ætti að hluta til eða að öllu leiti falla undir annað stjórnsýslusvið eða halda áfram í sömu mynd. Umræðan snerist fyrst og fremst um vistun málaflokka og í þessu tilfelli var æskulýðshlutinn þ.e. frístundaheimili, frístunda- og félagsmiðstöðvar fluttar á nýtt svið, Skóla- og frístundasvið (SFS) Þessum hluta æsklýðsstarfseminar er stýrt af skrifstofu frístundamála af fv. æskulýðsfulltrúa ÍTR sem nú gegnir starfi framkvæmdastjóra frítímamála og tekur sem slíkur bæði rekstrar- og faglega ábyrgð á málaflokknum.
Í Hafnarfirði var skrifstofa íþróttamála í raun lögð niður og starfsemi skrifstofu æskulýðsmála (ÍTH), sem verið höfðu undir félagsþjónustu, flutt í afar breyttri og smættaðri mynd undir forræði fræðslusviðs. Í Hafnarfirði eru einstakir skólastjórar gerðir ábyrgir fyrir starfsemi félagsmiðstöðva og frístundaheimila hver í sínum ranni. Öll sú þekking, menntun og reynsla sem fyrir er,er að engu gerð – foræðið í formi rekstarábyrgðar flutt til skólastjórnenda sem hafa enga þekkingu á þessu sviði. Niðurstaðan sú að forsendur starfsins hvíla algerlega á herðum óskyldra aðila þ.e. einstakra skólastjóra. Í annari deild innan fræðslusviðsins, æskulýðs- og íþróttadeild situr einhverskonar ráðgjafi, umboðslaus með öllu, án starfsmanna- og fjárforræðis, sem nefndur er „fagstjóri frístundastarfs“ eins og hér sé um að ræða einhverja einstaka kennslugrein í almennu skólastarfi eins þetta starfsheiti gefur til kynna?

Grundvallarmunur
Á þessu tvennu er alger grundvallarmunur. Í tilfelli Reykjavíkurborgar voru tiltekin viðfangsefni flutt milli tiltekinna sviða án nokkurs afsláttar á fag- og fræðilegum vinnubrögðum og eða rekstrarlegum forsendum. Starfsemi heldur áfram og þróast í anda þeirrar fagmennsku sem viðhöfð er bæði hjá ÍTR og SFS. Í Hafnarfirði er forræði og ábyrgð á starfsemi félagsmiðstöðva og frístundaheimilinna færð undir forræði skólastjórnenda hvers á sínum stað sem enga sérþekkingu hafa á málaflokknum. Slíkar hugmyndir voru í hávegum hafðar af ýmsum skólamönnum fyrir margt löngu eða um 1970, fyrir tíma frístundaheimilanna, en voru slegnar út af borðinu af framsýnum mönnum eins og Markúsi Erni Antonssyni dugmiklum þ.v. formanni Æskulýðsráðs Reykjavíkur (ÆR), frumherja og baráttumanni sem, ásamt öðrum slíkum Hinriki Bjarnasyni þ.v. framkvæmdastjóra ÆR, lögðu drög að félagsmiðstöðvavæðingu Reykjavíkurborgar sem var mikið heillaspor fyrir Reykvíska æsku og reyndar æskuna almennt í landinu þar sem frumkvæði borgarinnar hafði víða áhrif og varð framsæknum bæjarfélögum til eftirbreyttni.

Ef bæjarfulltrúinn greinir ekki munin á þessu tvennu og telur skipan mála í Reykjavík sambærilega við Hafnarfjörð þá er sú vandræðalega staða sem uppi er í þessum málum í Hafnarfirði sjálfboðin og liggur í hlutarins eðli. Sýnir í reynd nauðsyn þess að vanda til verka, bæði hvað varðar innihald og málsmeðferð stjórnsýslubreytinga, sem í þessu tilfelli hefur verið algerlega óboðleg ferli frá A-Ö. En áfram skal haldið, hvað sem tautar og raular, í nafni þokukenndra og algerlega órökstuddra frasa um bætta þjónustu, samráð o.fl í þeim dúr, ef marka má skrif bæjarfulltrúans. Affarasælast væri hins vegar fyrir bæjaryfirvöld vinda ofan af þessu skipulagsslysi þegar í stað og vinna þetta af virðingu og í samræmi við mikilvægi málflokksins í samvinnu við þá sem málið varðar og af fagmennsku.

mánudagur, 3. ágúst 2015

Af faglegum æskulýðsmálum í Hafnarfirði


Forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og og formaður Íþrótta- og tómstundaráðs Hafnarfjarðar rita grein í Fréttablaðið þ. 21. júli s.l.  Grein þeirra  Faglegt æskulýðsstarf í Hafnarfirði og er sennilega sett fram sem einhverskonar svar við grein minni í Fjarðarpóstinum þ.9 júli s.l. er nefndist Er björt framtíð í æskulýðsmálum (í Hafnarfirði) sem og umfjöllun Hafnfirska vefmiðilsins Bærinn okkar undir fyrirsögninni Í ruslflokk á sviði æskulýðsmála. Eins og fyrirsagnirnar gefa til kynna þá má vera ljóst að vera að sitt sýnist hverju hvað varðar skipulagsbreytingar í æskulýðsmálum hjá bæjarfélaginu. Sá sem þetta ritar getur vel tekið undir það að æskulýðsstarf í Hafnarfirði sé faglegt því hjá ÍTH (Íþrótta- og tómstundaráði Hafnarfjarðar)  starfar fjöldi vel menntaðra og hæfileikaríkra starfsmanna af heildindum og trúmennsku en við stórfellt  skilningsleysi bæjaryfirvalda á þessum mikilvæga málaflokki. Í grein forseta og formanns ÍTH er nánast í engu fjallað um stjórnsýslubreytingar æskulýðsmála sem slíkar en þess í stað, rætt um að tillögur geti miskilist, nú þurfi að fara fram samtal, fólk eigi ekki að vera hrætt við breytingar m.m.

Kjarni málsins er þessi
29. júní s.l. voru tillögur um stjórnsýslubreytingar hjá Hafnarfjarðarbæ fyrst “ kynntar“  bæjarfulltrúum á lokuðum fundi og í kjölfar „kynningarinnar“ var haldin sérstakur auka fundur í Bæjarstjórn Hafnarfjarðar.  Um 90 mínútum eftir að „tillögurnar“ voru fyrst gerðar opinberar var búið að samþykkja æskulýðshluta þeirra af meirihluta í Bæjarstjórn Hafnarfjarðar?  Algerlega umræðulaust, án samráðs eða skoðannaskipta við nokkra þá sem málið raunverulega varðar eða snertir,  án  samráðs eða aðkomu þeirra sem í geiranum starfa, án samráðs við ungmenni í ungmennaráði Hafnarfjarðar, án nokkurar kynningar eða opinberrar umræðu í bæjarfélaginu.  Í kjölfarið var svo einhverjum lykilstjórnendum æskulýðsmála sagt upp störfum. Og nú síðast þá hafa  grunnskólar Hafnarfjarðar auglýst laus störf í æskulýðsgeiranum og þá væntanlega í samræmi við nýtt "skipurit".  Að sögn forseta bæjarstjórnar (sbr upptöku af fundi bæjarstjórnar þ. 29. júní) var nauðsynlegt að samþykkja þessar tillögur til þess að skólastjórnendur gætu hafið nauðsynlegan undirbúning nú þegar.

Fúsk
Stjórnkerfisbreytinguna bráðnauðsynlegu er því miður ekki hægt flokka undir annað en fúsk. Oft á tíðum hafa málaflokkar og deildir verið fluttir á milli sviða í bæjarfélögum en haldið viðfangsefnum sínum í öllum meginatriðum. Í þessu tilfelli er gengið mun lengra því samþykktin felur í sér að frístundaheimili  og félagsmiðstöðvar bæjarfélagins eru settar undir forræði einstakra skólastjórnenda (eins og þeir hafi ekki nóg að sinni könnu)  en æskulýðs- og íþróttafulltrúi  verði  „fagstjóri“  frístundamála sem muni hafa það hlutverk ráðleggja skólastjórnendum, sem ekki hafa neina sérþekkingu í tómstunda- og félagsmálafræðum um það hvernig á að reka slíkt starf í stað þess að æskulýðsdeildin geri það og með ágætum eins og verið hefur?  Talandi um að einfaldar boðleiðir,  sem var ein af fáum röksemdunum fyrir þessum undarlegu breytingum. Önnur röksemd var að skólarnir starfi eftir s.k. SMT agastjórnunarkerfi en það geri æskulýðsstarfið ekki?  Svo sé „eðlilegt“ , af því starfsemin sé í sama húsnæði,  að skólastjórar fari með forræðið?  Í þeim nokkru og fátæklegu línum sem eignaðar eru æskulýðsmálum að öðru leiti í þessari skýrslu er rúsínan í pylsuendanum  þessi „Tillagan er rökstudd bæði út frá faglegum og rekstrarlegum sjónarmiðum“.  Þrátt fyrir afar ítarlega leit finnast þessi faglegu rök ekki enda augljóst af lestri skýrslunnar að hvorki Capcent , R3, og HLH ehf búa ekki yfir neinni faglegri þekkingu að sviði æskulýðsmála. 

Spurt er
Á agastjórnunarkerfi skólanna að marka alla tilveru barna og ungmenna og hvernig getur slíkt verið ástæða til grundvallarbreytinga í æskulýðsmálum bæjarfélagsins? Eiga hafnfirsk ungmenni sem af einhverjum ástæðum tekst ekki að aðalaga sig agavaldi skólans að gjalda þess í frítíma sínum? Hvaða sérþekkingu hafa skólastjórar á sviði tómstunda- og félagsmálafræða? Er ekki bara tilvalið að skólastjórar sinni alfarið því sem þeir eru bestir í sem að öllu jöfnu er að reka skóla? Um þetta mætti hafa mörg fleirri orð en verður ekki gert að sinni.

Að lokum
 „Ræðum málin til enda“ skrifar forseti bæjarstjórnar sem hljómar reyndar ekki sérstaklega sannfærandi.  Í fyrsta lagi þegar staðið er frammi fyrir orðnum hlut í æskulýðsmálum og í öðru lagi þegar litið er á ferli þessa máls í Bæjarstjórn Hafnarfjarðar.  Ef forseti  bæjarstjórnar meinar eitthvað með þessum skrifum þá er fyrsta skrefið af hans hálfu að draga þessa samþykkt til baka og skapa með því raunverulegar forsendur til alvöru samtals um æskulýðsmál í Hafnarfirði. Ekki veitir af því öll viljum við áframhaldandi  faglegt æskulýðsstarfi í Hafnarfirði – ekki satt?


Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 29. júlí s.l.

sunnudagur, 12. júlí 2015

Er björt framtíð í æskulýðsmálum í Hafnarfirði?Hef verið að kynna mér „tillögur“ um skipan æskulýðsmála í okkar ágæta bæjarfélagi, Hafnarfirði. M.a. skýrslu sem finna má á  vef bæjarins.  „Tillögur“ er auðvitað rangnefni þar sem að um einni og hálfri klukkustund eftir að tillögur þessar í æskulýðsmálum voru fyrst gerðar opinberar á sérstökum auka bæjarstjórnarfundi 29. júní s.l. var búið að samþykkja æskulýðshluta skipulagsbreytinga bæjarfélagsins og það án nokkurra umræðna, samráðs eða aðkomu þeirra sem í geiranum starfa, ungmennum í ungmennaráði Hafnarfjarðar og eða bæjarbúum almennt. Og þegar að þetta er skrifað er búið að segja nokkrum fjölda lykilstarfsmanna í æskulýðsmálum upp störfum. 


Þessi atburðarrás er sennilega einsdæmi og svo sannarlega ekki til eftirbreytni endu ku alsiða að kynna mál ítarlega með góðum fyrirvara auk þess sem slíkar grundvallarbreytingar kalla á tvær umræður í bæjarstjórn. Starfsmannapólitíkin er svo auðvitað kapítuli út af fyrir sig.Textinn um æskulýðsmál er afar rýr en aðleiðingar miklar, niðurskurður og uppsagnir. Ekki verður annað séð en að þessi grundvallarbreyting byggi á eftirfarandi.

Fáar línur og innihaldið eftir því
 „… Verkefni íþróttadeildar og forvarna - og tómstundadeildar verði færð undir (ekki til – innskot ÁG) fræðsluþjónustu.

Lagt er til að öll verkefni íþróttadeildar og forvarna - og tómstundadeildar utan félagsstarfs aldraðra verði færð undir fræðsluþjónustu. Tillagan er rökstudd bæði út frá faglegum og rekstrarlegum sjónarmiðum. Fram kom í greiningu að nokkuð vanti upp á samstarf og samspil á milli grunnskóla og frístundaheimila.

Stjórnendur skóla og frístundaheimila séu að skipuleggja starfið í kringum hvern annan en frístundaheimilin eru inn í húsnæði grunnskólanna. Það verður að teljast eðlilegt að verkefnin hafi sömu yfirstjórn og einn stjórnanda innan skólans sem verði skólastjóri. Þannig verði tryggt enn frekar að starfsfólk, húsnæði og aðrir fjármunir nýtist sem best."  (Capacent - Hafnarfjarðarbær - Úttekt á rekstri og stjórnskipulagi bæjarins, bls 211).

Spurning á hvern hátt þessi klausa samræmist almennu æskulýðsstarfi og markmiðum í þeirri starfsemi? Er starfsemi frístundaheimila og félagsmiðstöðva framhald eða hluti af almennu skólastarfi, ef svo er, er það ekki réttast að setja skylda starfsemi eins og t.d starfsemi skáta og félagasamtaka undir hatt skólanna? Og eða leikskólana sem eru í næsta nágrenni. Ennfremur segir:

"Skólastjórnendur sjá tækifæri í því setja rekstur frístundaheimila og félagsmiðstöðva undir skólana. Það gæti verið leið til að auka samfellu á starfinu og ná fram heildstæðari þjónustu fyrir börnin. Boðleiðir í þessum efnum geta verið fulllangar þar sem sérstakir verkefnastjórar eru yfir frístundaheimilunum á öðru sviði. Nefnt var að skólar bæjarins hafi tekið upp SMT agakerfi en það geri frístundaheimilin ekki. Þá séu tækifæri til að efla fræðsluhlutverk frístundaheimilanna." (Capacent - Hafnarfjarðarbær - Úttekt á rekstri og stjórn- skipulagi bæjarins – Greiningarhluti, bls 75)

Spurt er?
Fyrir mig sem bæjarbúa, einlægan áhugamann um velferð æskunnar og sérfræðing í æskulýðsmálum er leitt að horfa upp á þessa stjórnkerfisvitleysu sem ekki er hægt að orða með öðrum hætti en að um sannkallaða fúskvæðingu málaflokksins sé að ræða, afturhvarf um ca 35 ár. Varpa af þessu tilefni fram eftirfarandi spurningum til forseta bæjarstjórnar, formanns bæjarráðs og skýrsluhöfunda.

Ég velti í fyrsta lagi fyrir mér hvaða sérfræðingar á sviði æskulýðsmála (s.s. tómstunda- og félagsmálafræðingar / félagsuppeldisfræðingar) komu að gerð skýrslunnar/ tillagnanna? Í öðru lagi hvers vegna félagstarf aldraðra er aðskilið öðru félagsstarfi? Í þriðja lagi  þá finn ég hvergi faglegan  rökstuðning fyrir þessu breytingum sem þó er sérstaklega vísað til í skýrslunni?  Í fjórða lagi hvaða sérþekkingu hafa skólastjórar á  sviði tómstunda- og félagsmálafræða? Í fimmta lagi á agastjórnunarkerfi skólanna að marka alla tilveru barna og ungmenna og hvernig getur slík verið ástæða til grundvallarbreytinga í æskulýðsmálum bæjarfélagsins? Í sjötta lagi eiga ungmenni sem af einhverjum ástæðum tekst ekki að aðalaga sig agavaldi skólans að gjalda þess í frítíma sínum?  Í sjöunda lagi hve mikið hækka launum skólastjóra samkvæmt ákvæðum í kjarasamningum þeirra vegna þessara breytinga? Í sjöunda lagi  hvort einhver getur sagt mér hvaða „fag“  eða hlutverki fagstjóri frístundamála hefur eins og fram kemur í skipurriti varðandi verkefni æskulýðs- og íþróttafulltrúa, er ekki hepplegast að slíkur starfsmaður sjái um rekstur og stjórnun frístundamála eins og verið hefur? 

Svona mætti lengi spyrja en verður ekki gert að sinni hvað sem síðar kann að verða. Það þarf vart að fjölyrða meira um þessar tillögur, samþykkt þeirra veldur því að það virðist  engu líkara en að það sé einlægur ásetningur bæjaryfirvalda að koma sér hratt og örugglega í ruslflokk á sviði æskulýðsmála – hér er um að ræða fúsk sem hvorki vel menntað og vandað starfsfólk í málflokknum og æska bæjarins á skilið. Er björt framtíð í æskulýðsmálum í Hafnarfirði? Nei því miður, hér hefur svo sannarlega,illu heilli, myndast verulegt rými til framfara.

Árni Guðmundsson M.Ed félagsuppeldisfræðingur,
Rannsóknarstofu í Bernsku og æskulýðsfræðum
Tómstunda-og félagsmálafræðideild Menntavísindasvið Háskóla Íslands
Grein þessi birtist í Fjarðarpóstinum 8.júlí 2015 www.fjardarposturinn.is 


fimmtudagur, 2. júlí 2015

Þetta er því miður ekki Hafnarfjarðarbrandari

Þetta er því miður ekki Hafnarfjarðarbrandari. Capacent að missa sig í "ráðgjöfinni" samkvæmt meðfylgjandi mynd úr skýrslu um rekstur Hafnarfjarðarbæjar og enn furðulegra að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafi samþykkt þessa ótrúlegu vitleysu.

Samkvæmt mínum upplýsingum var aldrei rætt einu orði við starfsmenn ÍTH (Íþrótta- og tómstundaráðs Hafnarfjarðar) um fyrirhugaðar breytingar sem komu þeim algerlega í opna skjöldu og viðkomandi fengu aldrei tækifæri til þess að tjá sig um breytingarnar. Í þeim hópi eru afburðar gott fagfólk, reynslumikið, vel menntað, virt og metnaðarfullt sem haldið hefur út góðu starfi við erfiðar aðstæður en samkvæmt þessu augljóslega lítinn skilning. Það leið ca 1,5 klukkustund frá því að fólki barst þetta fyrst til eyrna, í tengslum við auka bæjarstjórnarfundi sem haldin var s.l. mánudagsmorgun 29/6,  þar til þetta rugl var samþykkt umræðulaust og algerlega einhliða af meirhluta bæjarstjórnar.

föstudagur, 22. maí 2015

Af íslenskri framleiðni og hinu alræmda kaupgjaldiAllar hagstæðir í íslensku samfélagi hvíla á herðum þeirra sem minnst hafa – Hugtakið framleiðni er t.d. núorðið nánast alfarið á ábyrgð þessa hóps og þá varðað þeim fordómum að íslenskt launfólk sé verkminna og eða latara en launafólk í öðrum löndum? Framleiðni ku vera lág og því ekkert ráðrúm til að hækka íslenskt kaupgjald úr verulega lágu upp í lágt.

Framleiðni er í sinni einföldustu mynd skilgreind sem fjöldi eininga af afurðum sem hægt er að vinna úr einni einingu af aðföngum og kjarni málsins er hversu mikið er hægt að fá út úr einni einingu í framleiðslu. Í þessum efnum eru laun bara einn þáttur – handónýtur gjaldmiðill,  fyrirtækjatengsl, vaxtaokur o.fl  hafa sennilega mun  meiri áhrif en „kostnaður“ af íslenskri láglaunapólitík. Í umræðunni, ekki síst hvað varðar kjaramál, er ábyrginni nánast alfarið vísað á launafólk? Að framleiða fúlleggjasallad hefur sennilega litla framleiðni í för með sér algerlega óháð vönduðu og eða rösku vinnuframlagi starfsmanna.

Framleiðnihugtakinu má á sama hátt hæglega  beita hvað varðar eininguna fjármagn eða peninga þar  sem ávöxtun þess/þeirra yrði mælikvarðinn þ.e.a.s. hversu mikilli ávöxtun skilar ein eining, t.d. ein króna, eiganda sínum. Í þeim efnum er framleiðni hérlendis verulega góð sem ætti þá að þýða að fjármagnseigendur séu mjög duglegir? Dugnaðurinn þá fólgin í viðvarandi vaxtaokri og háum arðgreiðslum?

Maður hlýtur að spyrja sig um hið „lata“ launafólk og hina dugmiklu fjármagnseigendur? Hugtakið framleiðni er til margra hluta nytsamlegt, ekki síst sem skálkaskjól í þrotlausri baráttu SA fyrir áframhaldandi grjótharðri láglaunapólitík hérlendis. Slíkt er ekki boðlegt, ekki síst í samfélagi þar sem allar hagstærðir hvíla afar lágum og óverðtryggðum launum, grunni hinnar grjóthörðu sér íslensku láglaunapólitíkur sem er fyrir margt löngu orðin að félagslegu böli í íslensku samfélagi. Mikilvægasta viðfangsefni samtímans er að vinna bug á þessari meinsemd. Slíkt er í allra þágu ekki síst SA.

föstudagur, 6. febrúar 2015

Skessuhorn - Æskan er okkar fjársjóður


Þessi grein birtist í Skessuhorni 4. febrúar 2015 - Vangaveltur um fagmennsku á sviði æskulýðsmála í Borgarnesbyggð af gefnu tilefni.

Mikilvægasta verkefni hvers samfélags er uppeldi æskunnar hverju sinni. Samfélagið er flókið og margþætt og það er engin ein stofnun sem nær utan um uppeldi æskunnar í heild og í raun óraunhæft að gera kröfur til þess að svo sé. Til þess að vel megi fara þá þarf heildrænt skipulag sem byggir á fagmennsku og þeirri bestu þekkingu sem fyrir hendi er hverju sinni. Allt sem fram fer í samfélaginu kemur fram og myndgerfis í hinum margvíslegu félagslegu athöfnum mannsins, er grundvöllur og samnefnari fyrir þroska einstaklingsins sem á sér stað í samfélagi við aðra. Samfélagið og félagslegar athafnir þess eru grundvöllur uppeldis. Mikilvægastir eru foreldrarnir og fjölskyldan síðan koma stofnanir og eða starfsemi í nær umhverfi barna og ungmenna. Það þarf þorp til þess að ala upp barn og í því ljósi byggja flest sveitarfélag umgjörð sína, umfang og stefnu.

Við Menntavísindasvið (MVS) Háskóla Íslands er starfrækt Námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræðum (NTF). Fjöldi fólks hefur lokið BA prófi frá brautinni. Aðsókn í námið er með miklum ágætum og er brautin sú eining innan MVS sem vex hve hraðast. Nýútskrifaðir tómstunda- og félagsmálfræðingar eiga að öllu jöfnu auðvelt með að fá vinnu. Starfsvettvangur tómstunda- og félagsmálafræðinga er afar fjölbreyttur, s.s. félagsmiðstöðvar, frístundaheimili, íþróttafélög, grunnskólar, leikskólar, félagssamtök, á vettvangi forvarnarmála, meðferðarstofnanir, þjónustumiðstöðvar, félagstarf aldraðra og skrifstofur íþrótta- og tómstundamála m.m. Meginfræðasvið í tómstunda- og félagsmálafræði eru tómstundafræði, sálfræði, félagsfræði, félagsuppeldisfræði, siðfræði, verkefna- og viðburðarstjórnum ,útivist og ekki síst fagmennska og vettvangsnám. Lögð er áhersla á að nemendur verði færir um að stjórna, skipuleggja, framkvæma og meta tómstundastarf.

Nýverið var auglýst laust til umsóknar starf í félagsmiðstöðinni Óðal í Borgarnesi og samkvæmt auglýsingunni var óskað eftir starfsmanni með menntun á þessu sviði enda starfið eða störfin augljóslega þess eðlis. Nú brá svo við að eini umsækjandinn sem uppfyllti menntunarkröfur fékk ekki starfið? Slíkt verður að teljast undarlegt og má í raun líkja því við að við grunnskólann í Borgarnesi væru einungis ráðnir leiðbeinendur í stað kennara þó svo að menntaðir kennarar stæðu til boða? Slíkt yrði talið dæmi um metnaðarleysi og einhverskonar fúskvæðingu skólastarfsins. Sama á auðvitað við um hvað varðar ráðningu í jafn mikilvæga starfsemi og þá sem fram fer í félagsmiðstöðvum. Samkvæmt rannsóknum þá eru starfsmenn félagsmiðstöðva þeir aðilar sem ungmenni leita einna fyrst til ef þau eru í vanda. Forvarnarstarfsemi, leitarstarf og fyrirbyggjandi starfsemi félagsmiðstöðva lýtur fag- og fræðilegum forsendum. Slíkt starf er ekki á færi félagslyndra og ágætara ungmenna á menntaskólaaldri . Það er ábyrgðarhlutur af hálfu bæjarfélagsins fela viðkomandi ungmennum starf sem viðkomandi hafa hvorki aldur, þekkingu né menntun til þess að sinna og eða axla þá miklu ábyrgð sem störfum á þessum vettvangi fylgja. Slíkt er einungis gert með fagmennsku í hvívetna hvort sem litið er til einstakra ráðninga eða skipulags málaflokksins í heild. Á slíku hefur verið nokkur brestur ekki bara hvað varðar ráðningu þá sem hér er til umfjöllunar, hún er sennilega einkennandi fyrir stefnu í málflokknum í heild og all fjarri því ágæta starfi er bæjarfélagið stóð fyrir í æskulýðsmálum af myndaskap og fagmennsku til margra ára. Á þeim grunni hefði verið skynsamlegt að byggja í stað þeirra stefnu er sennilega kristallast í þeim ráðningamálum sem hér hafa verið gerð að umtalsefni. Æskan er okkar fjársjóður og það er ábyrgð okkar sem eldri erum að búa henni eins góðar aðstæður og uppeldisskilyrði og frekast er unnt.