mánudagur, 17. júní 2013

Daðrað við þjóðernishyggjuÉg er satt best að segja nokkuð uggandi yfir þeim leiktjöldum sem umlykja núverandi ríkisstjórn. Og þá er ég ekki að tala  um hið hefðbundna pólitíska krap. Það er umgjörðin, sérstaklega sú ríka þjóðernishyggja sem sviðið er skreytt með. Táknrænir fundir í stjórnamyndunarviðræðum á Þingvöllum, kynning stjórnarsáttmálans í Héraðsskólanum á Laugarvatni, innblásinn ræða forsætisráðherra á 17. júní   o.fl. í þessum dúr.  Allt á þetta sér stoð í stjórnarsáttamála ríkisstjórnarinnar en þar segir segir:

„Íslensk þjóðmenning verður í hávegum höfð, að henni hlúð og hún efld. Áhersla verður lögð á málvernd, vernd sögulegra minja og skráningu Íslandssögunnar, auk rannsókna og fræðslu. Ríkisstjórnin mun vinna að því að auka virðingu fyrir merkri sögu landsins, menningu þess og tungumálinu, innanlands sem utan.“

Og til þessa að tryggja að svo verði þá er  nánast allt sem lýtur að „þjóðmenningu“ fært undir forræði forsætisráðherra sem verður einhverskonar þjóðmenningarmálaráðherra.

Vinur minn og kollegi við Háskólann í Malmö sem hefur látið sig þessi mál varða og segir einfaldlega að allar þjóðir eigi sér „sitt ómeti“ eins og hákarl, sinn „þorramat“, sitt brennivín, allar þjóðir eiga sína fallegu staði, sögu og  tónlist. Og hann hefur spurt, hvað gerir eitt land eitthvað sérstaklega merkilegri en annað?  Og svarað er ekkert. 

Að efla þjóðerniskennd fram úr hófi er leið til þess að efla veika eða laskaða þjóðarsál, slíkt var því einkennandi í sjálfstæðisbaráttu margra þjóða, ekki síst okkar eigin eins og við þekkjum gjörla. Slíkt var skiljanlegt í einu fátækasta bændasamfélagi Evrópu þar sem fólk lifði í samfelldri vosbúð, fátækt og hokri. Sögur íslenska aðalsins, Íslendingasögurnar, voru settar í samhengi ofurmennsku og síðar meir, að undirlagi Jónasar frá Hriflu, í sögukennslubækurnar svo að æska landsins gæti samsamað sig með fyrirmyndum og við tilveru fólks,  sem þrátt fyrir allt hefur aldrei verið í boði fyrir íslenskt alþýðufólk, hvorki þá né nú. 

Nú veltir maður fyrir sér hvort eitthvert sérstakt  tilefni sé til þess að endurvekja gamaldags þjóðernishyggju, nema þá helst í „afmörkuðum“ pólitískum tilgangi? Ég gef mér að slíkt sé raunin því aðrar ástæður eru óbærilegar. Hinn „afmarkaði“pólitíski tilgangur því einfaldlega sá að setja íslenska þjóðmenningu í samhengi hins sérstæða og einstæða og sem slík þá hafi Íslendingar lítið sem ekkert að sækja út fyrir landssteinanna (nema í hlutverki einhverskonar útrásarvíkinga) og hvað þá til Evrópu. Evrópusambandið er hinn stóri óvinur, ógnvaldur, hin ytri vá, sem hefur eftir  miklu að slægast hérlendis, ekki síst hinu afar dýrmæta sjálfstæði íslensku þjóðarinnar, a.m.k.  að sögn ýmissa þeirra sem nú blása upp einhvern þjóðernisrembing. Það er fátt sem sameinar betur í slíkri baráttu og „góður“ óvinur. Hið vonda ESB og  vondu útlöndin (svo ekki sé minnst á Alþjóða gjaldeyrissjóðinn) sem stilltu okkur upp við vegg og gerðu við okkur vonda samninga vegna útrásarvíkinga sem hinn almenni Íslendingur ber enga ábyrgð á. Þetta spilverk allt saman getur því miður orðið jarðvegur hins algera illgresis og leitt okkur í hinar mestu ógöngur, eins og sagan ætti að hafa kennt okkur. 

Vandinn er hins vegar sá að þjóðernisumræða einskorðast ekki við eitt afmarkað mál.  Hin hliðin á þessum miklu þjóðernisáherslum er nefnilega grafalvarlegur og fellst í þeim skilboðum sem berast þeim fjölmörgu Íslendingum sem ekki geta rakið ættir sínar mann fram af manni hérlendis og eru einfaldlega, í allra stystu útgáfu, þessi: Þið eruð ekki hluti af þjóðinni. Skilaboð sem eru algerlega ósæmandi í því fjölmenningarsamfélagi sem við lifum í og þrífst með ágætum í hinum vestræna heimi.

Að ætla sér að byggja einhverja pólitíska þrætubókarlist á íslenskum þjóðrembing og drambi er  algert glapræði.  Einstakt íslenskt atgervi og sérstök viðskiptagreind á heimsvísu var að sögn útrásarvíkinga forsenda farsældar í viðskiptum …eða hitt þó heldur! Á því eigum við að læra, fremur en að endurtaka.  Pólitík og rík þjóðernishyggja er baneitruð blanda og ekki til annars falin en að auka sundurlyndi þeirra sem þetta land byggja. Daður við þjóðernishyggju kann ekki góðri lukka að stýra, ég hvet stjórnvöld eindregið til að ganga hægt inn um gleðinnar dyr í þessum efnum