fimmtudagur, 8. september 2016

Fyrst kom feitur karl inn á sviðið frá vinstri


Vín er stórfengleg borg – kom þangað fyrst fyrir langa löngu sennilega 1994 sem þátttakandi í aðalfundi  EYCE (Samtök Evrópskra félagsmiðstöðva) og hef komið þangað nokkrum sinnum síðar.  Í tengslum við aðalfundinn og ráðstefnuna 94 var boðið upp á : A) Óperuna Ísold og Tristan eftir Wagner í Vínar óperunni (þrír þættir ca sex klukkustundir)  B) Evrópsku jazzhátíðina sem fram fór á bökkum Dónár (12 svið og ég hef ekki tölu á öllum þeim artistum sem komu fram). Valið einfalt jazzhátíðin og það þrátt fyrir að  Wagner hafi verið mesti þungarokkari sinnar tíðar, sem hefði átt á freista (hefði samt sem áður mátt bæta við 6- 10 kontrabössum í 120 manna band sitt og 120 manna kórinn sem stóðu fyrir grúvinu hjá Wagner).

Norskur vinur minn ásamt allri dönsku sendinefndinni ákváðu að fara á Wagner óperuna. Daginn eftir spurði ég hann hverning honum hefði líkað og ekki stóð á svarinu:
"…Árni þetta var stórkostleg  sýning, í fyrsta þætti sem tók um tvo tíma þá var töluvert af fólki syngjandi víða um sviðið og í nægu að snúast bæði hjá hljómsveit og kór, í öðrum þætti ákváðum við að fara út að borða þ.e.a.s öll nema Sören sem ákvað að halda áfram að sofa. Þriðji þáttur var stórfenglegur. Fyrst kom feitur karl inn á sviðið frá vinstri og söng af feykilegum styrk í ca 30 mín og svo kom feitlagin kona skyndilega inn hægra megin og söng há tíðni skala af engu minni styrk en karlinn þéttvaxni í ca 30 mín. Óperan  náði síðan hápunkti sínum þegar að þau færðu sig fram á mitt sviðið og sungu saman í ca 45 mín, Strengir þandir til hins ítrasta, blásið af miklum móð,slagverk í algleymi og kórinn allur á útopnu …en skyndilega þegar leikar standa sem hæðst,  varð eitthvað vesen, nánar tiltekið á 43. mínútu, sem varð til þess að þau söngparið íturvaxna hné niður með afar sannfæraandi tilburðum leiklistarfræðilega örend … og öllu lokið. Ég gat ekki annað gert en staðið upp og hrópað bravissiomo, bravissiomo"

Með fullri virðingu fyrir Wagner og sem praktíserandi bassaleikari hef ég aldri sé eftir því að hafa drifið mig á Jazzhátíðina. Datt þetta í hug um daginn er ég sótt fund í ritstjórn The International journal of Open Youth Work*  í þessari fögru borg.