sunnudagur, 30. mars 2008

Af smokkum

Vorum sammála um það ég (þáv. yfirmaður æskulýðsmála í Hafnarfriði) og þáverandi bæjarstjóri Guðmundur Árni Stefánsson að óhæft væri að selja ekki smokka í félagsmiðstöðinni. Árið var 1988 og eins ótrúlegt og það kann að virðast þá var þetta nokkuð feimnismál.

Ungir menn áttu einn þann kost að fara í apótekið, sem var eini sölustaðurinn í þá daga, roðna og blána og versla oft á tíðum, þegar að upp var staðið, alkyns annan varning en blessaðar verjurnar, allt út úr tómum vandræðagangi. Var þetta því mörgum ungum manninum hin mesta sneypuför.

Ekki mátti búa við þetta ástand lengur, vorum við sammála um , þannig að ég geri mér ferð í hið virðulega Hafnarfjarðarapótek, sem þá var og hét. Spurði eldri dömu sem þarna afgreiddi umbúðalaust um verjur. Af hæversku réttir hún mér lítinn pakka eins og hér væri um leyniskjöl að ræða.

Var auðvitað ekki kátur með þessa afgreiðslu enda í opinberum erindagjörðum. Bið hana því að sýna mér fleiri tegundir sem og hún gerði, en skimar jafnframt í kringum sig. Velti fyrir mér í rólegheitum gæðum þessar 10 – 12 tegunda sem á boðstólum voru og spyr hana í framhaldinu um verð, gæði og hvað hún telji hagstæðustu kaupin.

Spurningin kom henni í opna skjöldu enda sennilega aldrei verið spurð að þessu, bendir mér síðan á tiltekna tegund, sem hún kveður mest keypta. „Fæ þá 200 stykki af þessum“ segi ég eftir nokkra umhugsun og sé að konunni bregður við, hugsar sennilega hvað ég haldi að ég sé , Casanova eða eitthvað álíka fyrirbæri.

„Tekur þú beiðni frá bæjarsjóð “ spyr ég og sé þá að afgreiðslukonunni er allri lokið. Félagsmálstofnun að kaupa smokka fyrir einhvern kvennaflagarann, hugsar hún örugglega, lýkur samt afgreiðslunni af fagmennsku en með nokkurn roða í vöngum.

Blessaðir smokkarnir fóru síðan í sölu upp í gamla Æskó. Seldust ágætlega , flestir ef ekki allir sem þá keyptu nýttu þá sem vatnsblöðrur, enda ýmis ungmenni sem ekki voru klár að hinu viðtekna notagildi smokksins, sem auðvitað kom síðar. Hitt er annað mál að ástfangnir starfsmenn sáu sér sennilega leik á borði og versluð frekar hjá okkur en að fara í apótekið.

Hitt er svo allt annað mál að í félagsmiðstöðinni Vitanum var smokkasjálfsali löngu áður en það var almennt. Ágætur starfsmaður í félagsmiðstöðinni hafði sannfært fyrirtækið um að það yrði gríðarlega sala og fyrirtækið myndi græða verulega. Salan var lítil en gestur nokkur í fermingaveislu sem þarna var haldin, en oft var húsið leigt undir slíkt þegar að allir aðrir salir voru uppteknir, sagði þetta í fyrsta skiptið sem hann hafi verið í fermingu þar sem jafnframt voru seldir smokkar.

fimmtudagur, 27. mars 2008

Sterkur leikur

Fínt framtak, tímabært og með sanni tímamót. Gríðarlegur ferðakostnaður hefur oft á tíðum háð starfsemi félaga á landsbyggðinni.

"Á fundi ríkisstjórnar Íslands í mars 2007 var samþykkt að koma á fót ferðasjóði íþróttafélaga innan vébanda ÍSÍ til að jafna aðstöðumun og efla íþrótta- og forvarnastarf, í samræmi við tillögur nefndar sem menntamálaráðherra fól að fjalla um ferðakostnað íþróttafélaga. Með stofnun ferðasjóðsins eru mörkuð tímamót í ferðakostnaðarmálum íþróttahreyfingarinnar.

Með samningnum er komið á fót sjóði sem kemur til móts við íþróttafélög vegna kostnaðar þeirra af ferðalögum innanlands, sérstaklega þeirra sem eiga um langan veg að fara til þess taka þátt í viðurkenndum mótum. Markmið sjóðsins er einnig að stuðla að öruggum ferðamáta íþróttafólks." (af heimasíðu Mmr)

miðvikudagur, 26. mars 2008

Á hjólastól í grindarhlaup !

Ríkustu fátæklingar í heimi (sbr. skrif Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar) búa á Íslandi og þá munar lítið um að taka á sig hækkað vöruverð, sem nú þegar er með því hæsta sem þekkist. Var einungis 63% yfir meðalverði EU landa. Nú eru það sk. ytri aðstæður sem gera það að verkum að verslunin og heildsala, sem reyndar er að mestu leyti á sömu höndum, neyðist til þess að hækka vöruverð um ca 20 %. Undir þetta taka fjölmiðlar með réttu og skiptir þar í engu hverjir eiga viðkomandi miðla enda fjölmiðlar að sjálfsögðu óháðir – ekki satt?

Í síðustu hækkunarhrinu í kring um lækkun matarskattarins þá voru það birgjarnir sem orsökuð hækkað vöruverð að sögn verslunarinnar. Argumentsjónir og útfærsla á röksemdum vegna hækkana eru aðdáunarverðar og sennilega unnar af okkar færustu ímyndarfræðingum.

Ekki verður heyrt á ummælum fulltrúa viðskiptalífsins þessa dagana að nokkurt rými sé til hófsemdar í álagningu þrátt fyrir 63% forskot umfram það sem aðrar þjóðir telja hæfilega álagningu. Þetta spilverk gengur ekki upp með góðu móti nema allar hagstærðir í þjóðfélaginu lúti sama kerfi. Eins og alltaf áður þá er öllu velti yfir á launafólk sem ekki býr við vísitölutryggingar eins og öll önnur fjármál á íslandi.

Íslenskir launþegar eru því eins og maður í hjólastól sem skráður hefur verið til keppni í grindarhlaupi. Dæmdur til að tapa og það áður en hlaupið hefst. Alvöru hagstjórn hlýtur að byggja á einhverskonar jafnræði sem felst í því að allar hagstærðir lúti sömu reglum . Ef menn vilja viðhalda vísitölubindingu sem einhverskonar hagstjórnartæki þá er auðvitað helber vitleysa að skilja laun út undan. Það gerir ekkert annað en að kerfisbundið minnka hlut launa. Varla getur það verið markmiðið – ... eða hvað?

mánudagur, 24. mars 2008

Ketill Larsen

Brá mér í Tjarnarbíó um síðustu helgi . Erindið að sjá heimildarmynd um vin minn Ketill Larsen. “Heimildarmynd” veit það ekki – myndi frekar kalla þetta persónulega sýn kvikmyndargerðarmannana á Larsen, ágæt sem slík en nær engan veginn utan um jafn margbreytilegan persónuleika og Ketill er. Um Ketil nægir ekki að gera rúmlega 20 mínútna mynd, hann verðuskuldar alvöru long film eins og Kaninn segir og sennilega fleiri en eina. Larsen 1, 2 og 3 myndi sennilega ná utan um viðfangsefnið.

Ketill vann árum saman í æskulýðsmálum sem hann gerði af stakri prýði og margur vel virkur unglingurinn á honum mikið að þakka og fullvíst að margt ungmennið komst sæmlega til manns m.a. með þátttöku í góðu starfi Ketills á þeim vettvangi.

Málefni þeirra sem minna mega sín hafa ávallt verið Katli hugleikin. Hann hefur árum saman heimsótt fólk á sjúkrahúsum og stofnunum, einstæðinga og fólk sem hvergi á höfði sínu að halla. Hann var hér á árum áður duglegur við að skemmta án endurgjalds á alskyns stofnunum og svona mætti lengi telja.

Larsen bindur ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamenn. Og slíku fólki er erfitt að gera skil í fáum orðum eða stuttri mynd. Ketill og hans mörgu ásjónur þurfa veglegri umgjörð og umfangsmeiri en svo. Sagan um hrekklausan mann sem leitast ávallt við að ganga til góðs og láta gott af sér leiða er þemað. Væri fínt efni í bók – sem þarf að skrifa.

fimmtudagur, 20. mars 2008

Sími allra landsmanna – im memorium

Halldór Blöndal þáverandi samgönguráðherra sagði að breyting Símans í hlutafélag væri bara formbreyting, ríkið héldi um bréfið og ekkert mundi breytast fyrirtækið yrði sem fyrr í eigu ríkisins en auðvitað yrði að “h/f a” fyrirtækið vegna markaðsaðstæðna, eða hvað menn kölluðu þetta. Og svo liðu nokkrir mánuðir og hlutbréfið var fært yfir í fjármálaráðuneytið ... og svo var skipt um ráðherra og svo koll af kolli ... !

Hjá Halldóri hófst einkavinavæðingarferli sem nú sér fyrir endann á með yfirtöku Exista á fyrirtækinu og lýkur þar sennilega gjörgæsluvöktun fámenns hóps yfir Símanum sáluga með afburðarárangri, ekki eitt einasta hlutabréf rataði í vasa almúgans (sem reyndar á lítið aflögu) . Allt orðagljáfur stjórnmálamanna og fulltrúa þeirra í t.d. einkavæðingarnefnd um að koma Símanum í almenningseign (sem hann reyndar var hér í eina tíð) staðlausir stafir. Lok lok og læs Síminn innmúraður og kominn af markaði eftir 5 mínútur – Milljarðaeign samfélagsins færð tilteknum hópi á silfurfati.

Dr. David Hall, sá merki fræðimaður, prófessor við Hálskólann í Greenwich ,sem rannsakað hefur einkavæðingu víða um lönd ætti að fara yfir þetta ferli Símans. Það þarf ekki að gera annað en að stilla upp ummælum stjórnamálamanna í tímaröð til þess að sjá vefnaðinn og sýna fram á nauðsyn þess að fara ítarlega í saumana á þessu ferli. Aðkoma ýmissa einstaklinga í ferlinu orkar auk þess verulega tvímælis sem og margt annað í þessu máli öllu.

Núna, þegar að almenningi í landinu blöskrar þessar aðfarir, segir fjármálaráðherra að svona séu reglurnar. Væntanlega reglurnar sem hann tók þátt í að setja – ekki satt. Svarið er því einfalt, með Símann var ekki pólitískur vilji til að fara með öðruvísi en gert hefur verið þ.e. að færa eigur samfélagsins til örfarra einstaklinga. Það tókst og með miklum ágætum.

þriðjudagur, 18. mars 2008

Gunnsteinn Sigurðsson vanhæfur

Úrskurður samgönguráðuneytisins varðandi ráðningu í embætti verkefnastjóra æskulýðs- og tómstundamála í Kópavogi kemur fáum á óvart. Úrskurðurinn er skýr, ótvíræður en algerlega öndverður áliti bæjarlögmanns í Kópavogi? Formaður ÍTK Gunnsteinn Sigurðsson var vanhæfur.

Í úrskurði af þessum toga er ekki tekið tillit til hæfi umsækjenda , það gerir hins vegar umboðsmaður Alþingis. Sjá til dæmis og sbr. úrskurð umboðsmanns vegna kæru Helgu Jónsdóttur varðandi umsókn um starf ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu, þar sem fram kom að gengið hafa verið fram hjá hæfari umsækjanda þ.e.a.s. Helgu. Ekki er mér kunnugt um hvort einhverjir umsækjendur í þessu máli láti á það reyna, en eðli málsins vegna væri slíkt ekki óeðlilegt.

Þetta mál er auðvitað ein allsherjar vitleysa, ekki bara það að nánast allir forstöðumenn ÍTK séu hættir eða að hætta störfum, eftir situr þessi dæmalausi bæjarstjórnarfundur um árið sem gefur fullt tilefni til frekari eftirmála. Á Visi.is kemur eftirfarandi fram um vanhæfi formannsins fyrrverandi :

„Samgönguráðuneytið hefur úrskurðað fyrrverandi formann Íþrótta - og tómstundaráðs í Kópavogi, Gunnstein Sigurðsson, vanhæfan til að fjalla um ráðningu í stöðu verkefnisstjóra æskulýðs- og tómstundarmála í Kópavogi. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar kærðu ákvörðun ÍTK til ráðuneytisins á sínum tíma því þau töldu óeðlilegt að Gunnsteinn tæki þátt í ráðningaferlinu vegna tengsla sinna við einn umsækjandann.
Viðkomandi umsækjandi hafði verið undirmaður Gunnsteins, sem er skólastjóri í Lindaskóla, til margra ára auk þess sem hann var meðmælandi hennar á umsókn um starfið og mælti hann með henni í starfið þegar ákvörðun var tekin um ráðningu.“ (visir.is)


Sjá alla fréttina http://www.visir.is/article/200880318043

sunnudagur, 16. mars 2008

Baldur Sveinsson...

... hitti svo sannanlega í mark með bók sinni Flugvélar yfir og á Íslandi, ljósmyndabók í hæsta gæðaflokki, frábærar myndir og vel unnar. Viðfangsefnið fjarri því að vera einfalt. Útkoman frábær bók sem er skyldueign allra ljósmynda- og flugáhugamanna og ekki verra eins í mínu tilfelli þegar að þetta hvoru tveggja fer saman.

Hef ekkert flogið sjálfur nema í Fligth simulator en sú reynsla segir mér að ég vildi ekki vera farþegi hjá mér, sem er önnur saga. Hef samt sem áður ferðast mikið og reynt að sameina þessi áhugamál mín. Birti hér mynd sem ég tók rétt sunnan við Surtsey, sennilega úr 34 -35 þúsund feta hæð.

Flug í góðu skyggni er skemmtilegasta landafræðikennslan - Borgir, ár og fjöll sýna manni samhengi sem erfitt er að miðla í bók eða frásögn.

sunnudagur, 9. mars 2008

Veit fátt leiðinlegra ...

...en að hanga í umferðarteppu morgun eftir morgun á leið minni til vinnu frá Hafnarfirði til Reykjavíkur. Eru heilir 7 km sem hefur gengið afar illa að komast á stundum. “Personal verst” eru tæpar 90 mínútur. En yfirleitt má gera ráð fyrir ca 30 - 40 mínútum í ferðatíma.
Umferðaróhöpp á þessar leið er tíð og oft alvarleg. Tjón nemur milljónatugum ef ekki hundurðum milljóna árlega. Á meðan vandinn eykst stöðugt þá þrátta stjórnmálamenn dag inn og dag út um mislæg gatnamót hér og tvíbreiðar akreinar þar. Vegakerfið ber ekki lengur alla þá gríðarlegu umferð sem um það fer. Ein redding færir vandann að öðrum gatnamótum og svona mætti lengi telja.

Allt skammtímalausnir og bútasaumur, vandinn þarf að leysast innan tímaramma stjórnmálanna sem eru fjögur ár þegar að best lætur. Lausnir í samgöngumálum reiknast ekki í kjörtímabilum né skyndigróða einkafyrirtækja. Uppbygging tekur ártugi ef ekki mannsaldur. Ástæðan fyrir þessu ófermdarástandi er auðvitað tilkomin vegna þess að menn hugsa skammt og í einni vídd með því að einblína á bíl-isma sem einu lausnina. Það er löngu orðið nauðsynlegt að kanna aðrar leiðir í bókstaflegri merkingu þess orðs

Í mínum huga er ekki nokkur spurning um að allt svæðið frá Akranesi alla leið í Leifstöð á að járnbrautavæða. Sambland af sporvögnum, lestum og jarðlestum. Kostar auðvitað urmul fjár en ef menn hætta að hugsa slíkt sem fjárfestingu sem á að borga sig á kjörtímabilinu þá kemur fljótlega í ljós að til lengri tíma litið er þetta eina skynsemin og frá mörgum sjónarhornum afar góður kostur. Ódyrt rafmagn, umhverfisvæn rekstur, hraðvirkt, öruggt og öflugt samgöngukerfi óháð hinu ofurhlaðna vegakerfi.

sunnudagur, 2. mars 2008

Bankinn er ekki vinur þinn III

Birti hér til glöggvunar gjaldskrá SEB bankans í Svíþjóð vegna debetkorta. Vinir mínir Svíar eru ekki par hrifnir af hárri verðlagningu bankanna og kalla þetta helbert okur. Hins vegar komast sænsku bankarnir ekki með tærnar þar sem íslensku bankarnir eru með hælana. Færslugjöld hvað er það nú? Sjón er sögu ríkari.

Bankkort Visa
Pris 250 kr/år
Automatuttag i Sverige 0 kr
Uttag i SEB Eesti Ühispanks (Estland), SEB Vilniaus Bankas(Litauen), SEB Unibankas (Lettland) automater 0 kr

Automatuttag i euro inom EU 1) 0 kr
Automatuttag i övriga länder och valutor 35 kr
Kortköp i Sverige 0 kr
Valutaväxlingspåslag vid köp/uttag utomlands 2) 1,65 %
Kopia av inköpsnota 75 kr
Kort skickat till utlandet 350 kr

Maestro
Pris 180 kr/år(tas ut med 15 kr/mån)
Pris 13–21 år 0 kr
Egen design 95 kr
Automatuttag i Sverige 0 kr
Uttag i SEB Eesti Ühispanks (Estland), SEB Vilniaus Bankas(Litauen), SEB Unibankas (Lettland) automater 0 kr
Automatuttag i euro inom EU1) 0 kr

Automatuttag i övriga länder och valutor 10 kr
Kortköp i Sverige 0 kr
Valutaväxlingspåslag vid köp/uttag utomlands2) 1,65 %
Kopia av inköpsnota 75 kr
Kort skickat till utlandet 350 kr

Automatkort
Pris 0 kr
Ersättningskort 50 kr
Automatuttag i Sverige 0 kr


1) EU-länder samt i Norge, Island och Liechtenstein.
2) Vid köp/uttag utomlands räknas beloppet om efter en av banken tillämpad valutakurs. Ett valutaväxlingspåslag på f.n. 1,65 % ingår. Kontohavaren står för eventuell valutarisk under tiden från inköp eller kontantuttag till dess att omräkning sker av banken.


Heimild: heimasíða SEB bankans