þriðjudagur, 31. mars 2009

Bókin kemur ekki út á morgun

Eins og margir vinir mínir vita þá hef ég nýlokið við bók um sögu æskulýðsmála í Hafnarfirði. Ég áætlaði að bókin yrði klár úr prentun í byrjun apríl en vegna prófkjara og landsfunda ýmiskonar þá var prentsmiðjan tilneydd til þess að fresta útgáfunni um nokkra daga. Bið ég fólk afsökunar á þessari seinkun og einnig því að áætluð móttaka í Hafnarborg á morgun 1. apríl kl 17:00 fellur niður.
Hins vegar má panta bókina í þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar í sima 585 55 00 og eða póstfanginu hafnarfjordur@hafnarfjordur.is Bókin er 186 síður, prýdd fjölda mynda og kostar aðeins 2.600 krónur.

mánudagur, 23. mars 2009

Er frjálshyggjan ekki frjálshyggjunni að kenna ?

Undarlegt að sjá undir iljarnar á helstu talsmönnum "hugmyndafræði frjálshyggjunnar" þegar að talið berst að ábyrgð ! Vondir karlar í “góðu kerfi” er hið staðlaða svar – hefur maður ekki heyrt þessa frasa áður og voru það ekki akkurat menn eins og hugmyndfræðingurinn Hannes Hólmsteinn og hans lærisveinar sem gerðu grín að svona rökum hér í eina tíð. Þótti ekki góð retorik í þá daga en að virðist nýtileg í nauðvörn frjálshyggjunnar um þessar mundir. Verst auðvitað ef að menn afneiti tengslum við hugmyndakerfið með öllu, svona svipað eins og í Markúsarguðspjalli 14:72

Í Chile frjálshyggjunnar var mikið haft fyrir “góðu körlunum” – eitt stykki her nýttur til að halda hugmyndafræðinni gangandi sem reyndar átti einnig við í Sovétinu sáluga – Alltaf erfitt þegar að almúginn passar ekki inn í hugmyndakerfi aðalsins hverju nafni sem hann kann að nefnast hverju sinni - skiptir þá í engu hvort átt er við fullkomlega misheppnaða brauðmolahagfræði frjálshyggjunnar eða alræði Sovétsins sáluga.

mánudagur, 16. mars 2009

Barnasáttmálinn lögfestur

Sá afar ánægjulegi atburður átti sér stað í dag að Alþingi Íslendinga lögfesti Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það var þingmaðurinn Ágúst Ólafur Ágústson sem fékk frumavarp sitt þess efnis samþykkt.
Sannarlega gleðitíðindi þar sem lögfestingin verður til þess að margvísleg réttindi barna og ungmenna hvíla nú á sterkari stoðum en verið hefur – ekki veitir af höfum við mörg hver sagt, sem í uppeldisgeiranum vinnum.

Sjá sáttmálann

sunnudagur, 15. mars 2009

Tóbakssalar og Davíð Oddsson

Voru orð í tíma töluð, þó langt sé um liðið. Á sér hliðstæðu í "markaðsátaki" bjórbransans í dag. Vettvangur - Fundur Æskulýðsráðs Reykjavíkur, dagurinn er þriðjudagurinn 22. febrúar á því herrans ári 1977. Dagskráliður 7.

"Rætt um auglýsingaherferð tóbaksseljenda sem stendur yfir. Formaður ráðsins, Davíð Oddsson, lagði fram eftirfarandi tillögu: "Æskulýðsráð Reykjavíkur fordæmir þá herferð, sem hafin er í þeim tilgangi að hvetja m.a. ungt fólk til tóbaksnotkunar. Hvetur ráðið sérhvern borgara að gera sitt til þess að slík herferð renni út í sandinn, svo hún nái ekki að vinna það tjón, sema henni er ætlað.” Tillagan var samþykkt samhljóða. Jafnframt var framkvæmdastjóra falið að beina þeim eindregnu tilmælum til kaupmanns þess, er verslun rekur í Skaftahlíð 24 ( við Tónabæ) , að hann fjarlægi tóbaksauglýsingar úr gluggum verslunarinnar".

Tek sérstaklega ofan fyrir formanninum fyrir þessa skeleggu bókun. Þurfum nokkrar svona bókanir og viðbrögð í dag gegn auglýsingaherferðum í áfengisbransanum, auglýsingar sem að langstærstum hluta er beint gengdarlaust á börn og ungmenni. Fara því miður yfir strikið átölulaust um þessar mundir, bæði siðferðilega og ekki síst lagalega.

Vona hins vegar að það fari fyrir þeim eins og fór fyrir tóbaksauglýsingunum, hverfi, og þangað til að svo verður þá hvet ég fólk til þess að sýna hug sinn í verki og sniðganga auglýstar áfengistegundir

þriðjudagur, 3. mars 2009

Fréttatilkynning frá Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum.

Undanfarið hefur staðið yfir markviss áfengisauglýsingaherferð. Tilefnið “20 ára afmæli bjórsins”. Sem fyrr þá er auglýsingum beint sérstaklega að börnum og unglingum. Þrátt fyrir fjölda dóma vegna sambærilegra auglýsinga þá brjóta hagsmunaaðilar lögin dag út og dag inn að virðist átölulaust. Viðskiptasiðferði þessara aðila er á lægsta plani og virðing fyrir lögvörðum réttindum barna og unglinga er engin.

Útvarpsstöðvar sem höfða sérstaklega til barna og unglinga auglýsa ekki bara bjór, fjölmargar auglýsingar eru frá veitingarhúsum og eru um sterka áfengadrykki. Einstaklega ósmekklegt þar sem markhópur viðkomandi útvarpsstöðva hefur ekki einu sinni aldur til að sækja viðkomandi vínveitingahús. Ríkissjónvarpið sem hefur ríkum skyldum að gegna í þessum efnum og á að vera öðrum miðlum fordæmi birtir með reglulegum hætti áfengisauglýsingar og nú síðast án þess að reyna á nokkurn hátt að snúa út úr skýrri löggjöf um bann við áfengisauglýsingum. Vinsælir þættir á Skjá einum eru kostaðir af áfengisframleiðendum með tilheyrandi áfengisauglýsingum og svona mætti lengi telja.

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum spyrja einfaldlega – Hvar er ákæruvaldið? Hvar er útvarpsréttarnefnd? Hvar er hin ritstjórnarlega ábyrgð? Hvar eru borgar- og bæjaryfirvöld sem veita jákvæðar umsagnir um vínveitingaleyfi til vínveitingastaða sem þverbrjóta lög?

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum skora á almenning að sýna hug sinn í verki og senda inn ábendingar um brot á banni við áfengisauglýsingum. Það er hægt að gera með einföldum hætti rafrænt í gegnum heimasíðu samtakanna http://www.foreldrasamtok.is/ á slóðinni http://foreldrasamtok.is/?p=kaerubref

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum
http://www.foreldrasamtok.is/

Vinsamlegast áframsendið þessa tilkynningu til vina, vandamanna og allra þeirra sem bera hag barna og unglinga fyrir brjósti.