mánudagur, 30. desember 2013

Allar íslenskar hagstærðir


Allar íslenskar hagstærðir hvíla á óverðtryggðum og afar lágum launum. Af þeim sökum er afar einfalt fyrir alla aðila aðra en launafólk að velta öllu hugsanlegu og óhugsanlegu út í verðlagið s.s ónýtri íslenskri krónu sem er í stöðugu gengisfalli, launabreytingum o.fl. Slíkt hefur verið gert og oft á tíðum afar ótæpilega. Eftir stendur kaupgjaldið sem fellur algerlega óbætt hjá garði . Af þessum sökum er lítið traust milli launafólks og Samtaka atvinnulífsins (SA) og hefur verið svo um langa hríð. SA nennir ekki lengur að eiga orðastað við launafólk í landinu eða fulltrúa þess nema í gegnum rándýrar áróðurs- og auglýsingarherferðir.

Það er vitlaust gefið, forsendur kjarasamninga byggja á ósanngirni og fullkomnu ójafnræði milli aðila. Þetta er ávísun á ævarandi átök og mun ekki breytast fyrr en forsendur kjarasamninga byggja á jafnræði milli aðila. Slíkt verður ekki gert nema með því að annað hvort afnema vísitölubindingu með öllu en ekki bara kaupgjalds eins og nú er eða vísitölubinda allar hagstæðir. Þar til slíkt verður gert er allt sem miður fer í íslenskum efnahagsmálum á kostnað launafólks og myndar þar með grundvöll hinnar grjóthörðu séríslensku láglaunastefnu.

Á slíkt er ekki bætandi. Kjarasamningar hvers meginforsendur eru þær að þeir sem litla sem enga ábyrgð bera, eða hafa sýnt, lofa bót og betrun, halda einfaldlega ekki (og hafa ekki haldið). Þetta minnir óþægilega mikið á það sem meðferðarbransinn kallar með réttu meðvirkni. Á slíku er ekki að byggja hvað varðar afkomu fólks. Það er einfaldlega vitlaust gefið og við slíkt verður ekki búið eins og verkuleikinn sannar.

Að vinda ofan af þessari vitleysu ætti að vera meginverkefni hins íslenska samfélags, ekki bara hinar afar hófstilltu forystu verkalýðshreyfingarinnar, sem að ósekju mætti vera mun beittari og agressívari í sínum aðgerðum. Verkefnið er ærið, það kemur ekkert af sjálfu sér – virk þátttaka, staðfesta og þor eru grundvallaratriði – Verkalýðshreyfingin verður ekki sterkari en fólkið, almenningur, sem hana myndar, virkni þess og áræði. Þessu óréttlæti verður einfaldlega viðhaldið svo lengi sem hagmunaaðilar komst upp með það og til þess að koma í veg fyrir slíkt þá er ekki í boði hjá launafólki að vera stikkfrí. Fyrsta skrefið er að taka þátt í atkvæðagreiðslum um kjarasamning og ekki síst láta sig þessi miklivægu mál varða með virkum hætti  – ekki satt?

mánudagur, 9. september 2013

Brauðmolahagfræði og kjarasamningar


Á næstu vikum og misserum munu fulltrúar Samtaka atvinnulífsins ótt og títt kveða sér hljóðs á almennum vettvangi í þeim tilgangi að boða váleg tíðindi í íslensku efnahagslífi.  Þeirri vá verði einugs mætt með því að taka snarlega upp að nýju brauðmolahagfræðina. Stefna sem að flestra mati var talið að hefði dáið drottni sínum með hruninu? (http://addigum.blogspot.com/2008/10/er-virk-fyllibytta-stjrn-s.html) Þessi kenning gengur út á það að fyrirtæki í landinu eigi helst ekki að borga neitt til samfélagsins og fái frekar ríkisaðstoð í formi skattaafsláttáttar m.m. Allt gengur þetta út að það að fyrirtæki græði sem allra mest því þá fjárfesti það og með fjárfestingum myndist einhver gróði sem þá þarf að nýta í aðrar fjarfestingar. Þegar að eigendur fyrirtækjanna eru búnir að braska með auranna eins og frekast er unnt, kaupa og selja fyrirtæki, hlutbréf og annan loftkenndan varning (jafnvel erlendis) þá verður (vonandi) til eitthvert smáræði, brauðmolarnir sem eru grundvöllur þessarar kenningar.

Brauðmolarnir, sem falla af borðum alsnægtanna, eru síðan það sem er til skiptanna þ.e. kaupgjaldið þeirra sem vinna verkin. Vandinn er hins vegar sá að brauðmolarnir eru afar fáir, ef nokkrir, þegar upp er staðið enda grundvöllur þessarar stefnu það sem að í daglegu tali er kallið hin grjótharða íslenska láglaunapólitík. Allt rask á þessu fyrirkomulagi nema ef vera skyldi í þá veru að fækka brauðmolum veldur stórfeldri vá, að sögn almennt en með réttu hvað varðar ítrustu sérhagsmuni umbjóðenda SA

Málflutningur fulltrúa á næstu misserum mun bera keim af þessu. Grein framkvæmdastjóra SA í Fréttablaðinu 24. ágúst 2013 „Verðbólgan ræðst af niðurstöðum kjarasamninga“ er klassískt dæmi um Brauðmolaretorik. Þar eru forsendur um einhverja smáræðis hækkun á launum í spám Hagstofu og Seðlabankans taldar kom öllu í vitleysu. Framkvæmdastjórinn tekur síðan dæmi um hófsamar hækkanir í nágrannalöndum okkar sem séu til fyrirmyndar, án þess þó að geta í nokkru eða gera tillögur um sambærilegt kaupgjald og þar ríkir. Sú hófsemd sem SA boðar almennt gildir auk þess eingöngu fyrir aðra en þá eins og sjá má varðandi hækkun kaupgjalds og þróun þess hjá æðstu stjórnendum fyrirtækja.

Íslenskir kjarasamningar eru, sennilega einir kjarasamninga (í hinum vestræna heimi), því marki brenndir að vera markaðir af kerfis- og lögbundnu óréttlæti. Kaupgjald sem ekki er vísitölubundið í vísitölubundnu þjóðfélagi er rót mikils vanda og gerir það að verkum að kjarasaming eftir kjarasamning velta aðilar SA/SI/SVÞ og fleiri samtök öllum kaupgjaldshækkunum beint út í verðlagið, án nokkurs eftirmála, sem væri ekki hægt ef kaupgjaldið lyti sömu reglum og annað í íslensku hagkerfi.

Að mati SA er aldrei ráðrúm til hærra kaupgjalds, ekki einu sinni á þeim tímum er efnahagur hefur verið í blóma. Íslenskir kjarasamningar hafa því miður ekki snúist um réttláta og sanngjarna skiptingu tekna samfélagsins – um það hefur fjarri því verið sátt, íslensk kjarabarátta hefur einkennst af samfeldum átökum og vantrausti gagnvart vinnuveitendum vegna langvarandi óbilgirni . Telur SA að hin grjótharða íslenska láglaunapólitík, þetta félagslega böl, sé líkleg til þess að koma íslensku efnahagslífi í gang?

Brauðmolahagfræði a la SA er einungis ávísun á áframhaldandi og síaukin ójöfnuð í íslensku samfélagi. Verkefni næstu kjarasamninga snúast ekki um slíkt . Þau snúast um sanngjörn skipti, og sanngjarna hlutdeild. Slíkt eru öllum til góða ekki síst umbjóðundum SA.

mánudagur, 17. júní 2013

Daðrað við þjóðernishyggju



Ég er satt best að segja nokkuð uggandi yfir þeim leiktjöldum sem umlykja núverandi ríkisstjórn. Og þá er ég ekki að tala  um hið hefðbundna pólitíska krap. Það er umgjörðin, sérstaklega sú ríka þjóðernishyggja sem sviðið er skreytt með. Táknrænir fundir í stjórnamyndunarviðræðum á Þingvöllum, kynning stjórnarsáttmálans í Héraðsskólanum á Laugarvatni, innblásinn ræða forsætisráðherra á 17. júní   o.fl. í þessum dúr.  Allt á þetta sér stoð í stjórnarsáttamála ríkisstjórnarinnar en þar segir segir:

„Íslensk þjóðmenning verður í hávegum höfð, að henni hlúð og hún efld. Áhersla verður lögð á málvernd, vernd sögulegra minja og skráningu Íslandssögunnar, auk rannsókna og fræðslu. Ríkisstjórnin mun vinna að því að auka virðingu fyrir merkri sögu landsins, menningu þess og tungumálinu, innanlands sem utan.“

Og til þessa að tryggja að svo verði þá er  nánast allt sem lýtur að „þjóðmenningu“ fært undir forræði forsætisráðherra sem verður einhverskonar þjóðmenningarmálaráðherra.

Vinur minn og kollegi við Háskólann í Malmö sem hefur látið sig þessi mál varða og segir einfaldlega að allar þjóðir eigi sér „sitt ómeti“ eins og hákarl, sinn „þorramat“, sitt brennivín, allar þjóðir eiga sína fallegu staði, sögu og  tónlist. Og hann hefur spurt, hvað gerir eitt land eitthvað sérstaklega merkilegri en annað?  Og svarað er ekkert. 

Að efla þjóðerniskennd fram úr hófi er leið til þess að efla veika eða laskaða þjóðarsál, slíkt var því einkennandi í sjálfstæðisbaráttu margra þjóða, ekki síst okkar eigin eins og við þekkjum gjörla. Slíkt var skiljanlegt í einu fátækasta bændasamfélagi Evrópu þar sem fólk lifði í samfelldri vosbúð, fátækt og hokri. Sögur íslenska aðalsins, Íslendingasögurnar, voru settar í samhengi ofurmennsku og síðar meir, að undirlagi Jónasar frá Hriflu, í sögukennslubækurnar svo að æska landsins gæti samsamað sig með fyrirmyndum og við tilveru fólks,  sem þrátt fyrir allt hefur aldrei verið í boði fyrir íslenskt alþýðufólk, hvorki þá né nú. 

Nú veltir maður fyrir sér hvort eitthvert sérstakt  tilefni sé til þess að endurvekja gamaldags þjóðernishyggju, nema þá helst í „afmörkuðum“ pólitískum tilgangi? Ég gef mér að slíkt sé raunin því aðrar ástæður eru óbærilegar. Hinn „afmarkaði“pólitíski tilgangur því einfaldlega sá að setja íslenska þjóðmenningu í samhengi hins sérstæða og einstæða og sem slík þá hafi Íslendingar lítið sem ekkert að sækja út fyrir landssteinanna (nema í hlutverki einhverskonar útrásarvíkinga) og hvað þá til Evrópu. Evrópusambandið er hinn stóri óvinur, ógnvaldur, hin ytri vá, sem hefur eftir  miklu að slægast hérlendis, ekki síst hinu afar dýrmæta sjálfstæði íslensku þjóðarinnar, a.m.k.  að sögn ýmissa þeirra sem nú blása upp einhvern þjóðernisrembing. Það er fátt sem sameinar betur í slíkri baráttu og „góður“ óvinur. Hið vonda ESB og  vondu útlöndin (svo ekki sé minnst á Alþjóða gjaldeyrissjóðinn) sem stilltu okkur upp við vegg og gerðu við okkur vonda samninga vegna útrásarvíkinga sem hinn almenni Íslendingur ber enga ábyrgð á. Þetta spilverk allt saman getur því miður orðið jarðvegur hins algera illgresis og leitt okkur í hinar mestu ógöngur, eins og sagan ætti að hafa kennt okkur. 

Vandinn er hins vegar sá að þjóðernisumræða einskorðast ekki við eitt afmarkað mál.  Hin hliðin á þessum miklu þjóðernisáherslum er nefnilega grafalvarlegur og fellst í þeim skilboðum sem berast þeim fjölmörgu Íslendingum sem ekki geta rakið ættir sínar mann fram af manni hérlendis og eru einfaldlega, í allra stystu útgáfu, þessi: Þið eruð ekki hluti af þjóðinni. Skilaboð sem eru algerlega ósæmandi í því fjölmenningarsamfélagi sem við lifum í og þrífst með ágætum í hinum vestræna heimi.

Að ætla sér að byggja einhverja pólitíska þrætubókarlist á íslenskum þjóðrembing og drambi er  algert glapræði.  Einstakt íslenskt atgervi og sérstök viðskiptagreind á heimsvísu var að sögn útrásarvíkinga forsenda farsældar í viðskiptum …eða hitt þó heldur! Á því eigum við að læra, fremur en að endurtaka.  Pólitík og rík þjóðernishyggja er baneitruð blanda og ekki til annars falin en að auka sundurlyndi þeirra sem þetta land byggja. Daður við þjóðernishyggju kann ekki góðri lukka að stýra, ég hvet stjórnvöld eindregið til að ganga hægt inn um gleðinnar dyr í þessum efnum

mánudagur, 1. apríl 2013

Verð á fisinu í sumar - ódýrar ferðir um Hekluslóðir

Það vita það flestir sem mig þekkja að ég er með króniska flugdellu. S.l. sumar flaug ég í fyrsta sinn s.k. vélfisi og það má segja að eftir þá reynslu sé ég ekki samur. Þessi magnað tilfinning  frelsis sem fylgir flugi af þessum toga hefur gert það að verkum að í vetur settist ég á skólabekk í þeim tilgangi að afla mér réttinda á vélfis. Því er núna að mestu lokið, ég á að vísu eftir nokkra flugtíma en eftir það, sem væntanlega verður í byrjum júní, þá má ég fljúga með einn farþega án endurgjalds.

Hitt er öllu "verra" að ég er búin að  kaupa 1/3  hlut í slíku tveggja manna tæki og þó svo að það sé ekki sérstaklega dýrt (650 þús) þá er ljóst að það reynir á pyngju ríkisstarfsmanns.

Ég er því búin að ákveða að bjóða fólki upp á útsýnisflug um Hekluslóðir í sumar á góðviðrisdögum en Fisið er staðsett í Landsveitinni. Ég má náttúrulega ekki taka gjald fyrir en að loknu flugi gefst  farþegum kostur á kaffihlaðborði í Neðri Snjalla fyrir sanngjarnt verð. Áhugasömum er bent á að hafa samband við mig í rafpóstfangið arni.gudmunds@simnet.is

þriðjudagur, 12. febrúar 2013

Hin grjótharða íslenska láglaunapólitík er félagslegt böl

Mestu öfugmæli  sveitarfélaga og annara vinnuveitanda í kjaramálum ( s.l. 40 - 50 ár amk) er frasinn um að allt fari til andskotans í efnahagsmálum hérlendis ef laun hækki. Þangað er allt farið og enn hanga viðsemjendur launafólks á grjótharðri láglaunapólitík eins og hundar á roði, við erum ennþá í þessum láglaunpytti.

Ef litið er til sögunnar þá hefur aldrei verið ráðrúm til launahækkana, hvorki í góðærum eða á samdráttarskeiðum. Rök vinnuveitenda hafa hverju sinni verið gaumgæfilega útfærð og ekkert endilega í samhengi við þau rök  sem áður voru viðhöfð eða þau sem eftir á komu.  Í góðærum ógna launahækkanir "stöðugleika" og á samdráttarskeiðum "þarf" að leggja niður og draga saman grunnþjónustu ef laun fara yfir fátækrarmörk. Allt rök sem vega að öryggistilfinningu fólks og ala á ótta þess. Svona mætti lengi telja og þegar að mest á mæðir taka talsmenn vinnuveitenda þetta á "tárakirtlunum"  enda eftir nokkru að slægjast, stöðug láglaunapólitík í húfi .

Það sem verra er að margur trúir því að hin grjótharða íslenska láglaunapólitík sé orsök alls okkar vanda. Þokkalegt sjónvarpstæki og notaður 7 ára gamal fjölskyldubíll er talin orsök hrunsins mikla. Og það að eiga eða hafa þokkalega umgjörð um sig og sína þykir lúxus hérlendis en meðal flestra þjóða talið til grunnþarfa. Íslensk láglaunapólitík er félagslegt böl og varð m.a. til þess að hrunið kom verr niður á okkur en ella.

Sænska dagblaðið Dagens Nyheter, sem seint verður talið málsvari félagshyggjunnar, birti,  í kjölfar hrunsins hérlendis, grein í þessa veru. Í greininni var því haldið fram að vegna lágra launa í hinu íslenska samfélagi "allsnægtanna"  hefðu íslendingar fjármagnað neyslu sína með lánum fremur en sparnaði af launum eins og ku vera alsiða í nágrannalöndum okkar þar sem ríkari sátt er um skiptingu auðsins en hérlendis. Í stað sanngjarnar tekjuskiptingar í efnuðu íslensku samfélagi hefði fjármagn safnast á nánast einn stað, í bankakerfið sem síðan lánaði á okur vöxtum öllu sem hreyfðist (m.a ómálga börnum - innskot ÁG)  og ekki síst fólki sem ekki hafði laun til að greiða af viðkomandi lánum.  Sanngjörn laun vinni einfaldlega á móti  svona þróun og skapi ákveðið jafnvægi ritaði sérfræðingur DN. Hefði óneitanlega hefði verið mikil kostur í íslensku efnahagslífi síðustu áratugi  Hin grjótharða íslenska láglaunapólitík er félaglegt böl . Afleiðingarnar hræðilegar eins og almennt launafólk hefur fengið að reyna og ekki síst í kjölfar hrunsins. Og lítið miðar okkur áfram, eða réttar sagt upp á við, og erum vart hálfdrættingar miðað við  önnur Norðurlönd og þó víðar væri leitað. Á þessu sviði íslenskra efnahagsmála er vissulega mikið rými til framfara.

mánudagur, 7. janúar 2013

Segir fátt af einum - að minnsta kosti í eigin miðli


Man þetta ekki alveg enda ekki menntaður fjölmiðlafræðingur en fræðimaðurinn  McQuil (Mass Communication m.m.) nefnir einhverjar birtingarmyndir um samspil fjölmiðlunar og eignarhalds á þeim. Ein birtingarmyndin var um fjölmiðlasamsteypur í eigu “bísnessmanna“, tycoons og eða moguls minnir mig að þetta hafa verið nefnt. Viðkomandi nota miðilinn / miðlana í þágu persónulegra hagsmuna og hafa með beinum hætti (og jafnvel óbeinum hætti) áhrif á ritstjórnarstefnuna. Skólabókardæmi um slíkt má sjá á bls 2 í Fréttablaðinu í dag. Sjón er sögu ríkari

þriðjudagur, 1. janúar 2013

Ekki mikil retorik hjá Ólafi

Hlýddi á nýársávarp Ólafs Ragnars og þótti ekki mikið til þess koma. Algjörlega hefðbundin ræða stjórnmálamanns af gamla skólanum . Einföld málfundaæfing eins og það að tengja alvarlega stöðu í umhverfismálum, andvaraleysi  í þeim málum og líkja því við breytingar á stjórnarskrá er retorik sem þessu embætti er ekki samboðin. Er samasem merki milli þeirra sem vilja breytingar á stjórnarskrá og þeim sem sýna ábyrgðarleysi í umhverfismálum? Það vantaði ekkert inn í þessa fléttu nema kanski að koma Evrópu umræðunni inní þetta undarlega mengi sem kallaðist nýársávarp forseta Íslands. Eftir einarða og einsleita umræðu um hvílíkt glapræði felist í stjórnlagaþingsbreytingum var ávarpið kórónað með að hvetja til "samstöðu".  Ekki var þetta sérstaklega landsföðurlegt ávarp - Að mínu mati var hápunktur ávarpsins sá þegar að Ólafur leggur til að hlúa þurfi sem best að æsku landins og um það geta allir verið sammála - annað var hefðbundið pólitískt karp.