mánudagur, 30. desember 2013
Allar íslenskar hagstærðir
Allar íslenskar hagstærðir hvíla á óverðtryggðum og afar lágum launum. Af þeim sökum er afar einfalt fyrir alla aðila aðra en launafólk að velta öllu hugsanlegu og óhugsanlegu út í verðlagið s.s ónýtri íslenskri krónu sem er í stöðugu gengisfalli, launabreytingum o.fl. Slíkt hefur verið gert og oft á tíðum afar ótæpilega. Eftir stendur kaupgjaldið sem fellur algerlega óbætt hjá garði . Af þessum sökum er lítið traust milli launafólks og Samtaka atvinnulífsins (SA) og hefur verið svo um langa hríð. SA nennir ekki lengur að eiga orðastað við launafólk í landinu eða fulltrúa þess nema í gegnum rándýrar áróðurs- og auglýsingarherferðir.
Það er vitlaust gefið, forsendur kjarasamninga byggja á ósanngirni og fullkomnu ójafnræði milli aðila. Þetta er ávísun á ævarandi átök og mun ekki breytast fyrr en forsendur kjarasamninga byggja á jafnræði milli aðila. Slíkt verður ekki gert nema með því að annað hvort afnema vísitölubindingu með öllu en ekki bara kaupgjalds eins og nú er eða vísitölubinda allar hagstæðir. Þar til slíkt verður gert er allt sem miður fer í íslenskum efnahagsmálum á kostnað launafólks og myndar þar með grundvöll hinnar grjóthörðu séríslensku láglaunastefnu.
Á slíkt er ekki bætandi. Kjarasamningar hvers meginforsendur eru þær að þeir sem litla sem enga ábyrgð bera, eða hafa sýnt, lofa bót og betrun, halda einfaldlega ekki (og hafa ekki haldið). Þetta minnir óþægilega mikið á það sem meðferðarbransinn kallar með réttu meðvirkni. Á slíku er ekki að byggja hvað varðar afkomu fólks. Það er einfaldlega vitlaust gefið og við slíkt verður ekki búið eins og verkuleikinn sannar.
Að vinda ofan af þessari vitleysu ætti að vera meginverkefni hins íslenska samfélags, ekki bara hinar afar hófstilltu forystu verkalýðshreyfingarinnar, sem að ósekju mætti vera mun beittari og agressívari í sínum aðgerðum. Verkefnið er ærið, það kemur ekkert af sjálfu sér – virk þátttaka, staðfesta og þor eru grundvallaratriði – Verkalýðshreyfingin verður ekki sterkari en fólkið, almenningur, sem hana myndar, virkni þess og áræði. Þessu óréttlæti verður einfaldlega viðhaldið svo lengi sem hagmunaaðilar komst upp með það og til þess að koma í veg fyrir slíkt þá er ekki í boði hjá launafólki að vera stikkfrí. Fyrsta skrefið er að taka þátt í atkvæðagreiðslum um kjarasamning og ekki síst láta sig þessi miklivægu mál varða með virkum hætti – ekki satt?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli