Fólki verður á, eða eins og engilsaxar nefna slíkt gjarnan "Shit happens". Oftast er hægt að fyrirbyggja langa og leiðinlega atburðarrás með því að segja afsakið í djúpri iðrun og lofa bót og betrun. Það er oft gert í almennum samskiptum, meðal venjulegs fólks, og reynist alla jafna vel. Slíku er ekki að skipta ef maður er ráðherra, stjórnmálamaður eða forsvarsmaður fyrirtækis. Þannig fólki verður einfaldlega ekki á og ef slíkar brigður eru bornar á viðkomandi þá er slíku samstundis vísað á bug ...eða til vara bent á annan.
Þetta hefur ekki gefist vel eins og dæmin sanna. Að kenna saklausu starfsfólki um nautakjötsleysi í nautakjötsbökum gerði sig ekki. Að verða þrí- eða fjórsaga um einhvern bankaskatt var klaufalegt, að gjör klikka á gagnaöryggi eins og Vodafon gerði er sorglegt, svo ekki sé minnst á, eins og frægt er orðið, leka á viðkvæmum gögnum úr ráðuneyti að virðist af sjálfsdáðum, sem er afleitt. Mörg önnur dæmi mætti nefna af nægu er að taka.
Ástandið er ekki gott. Staðan einfaldlega þessi að viðkomandi munu algerlega óháð efnisatriðum neita eða vísa frá sér öllu sem kallast ábyrgð eða mistök og í engu hvika. Í þessu liggur nokkur vandi og hann þarf að leysa.
Þar sem eru þarfir þar er bísness bendir frjálshyggjan réttilega á og því réttast að nýta aðferðir þeirrar hugmyndafræði við lausn þessa aðkallandi vanda. Það er allt fyrir hendi, hér er tækifæri, eftirspurn og ekki síst djúp þörf. Það er nauðsynlegt að stofna tafarlaust hlutafélag, einhvers konar embætti, í samvinnu Ríkistjórarinnar og Samtaka atvinnulífsins , embætti "rekins" eða embætti "axlanda ábyrgðar". Viðkomandi myndi að öllu jöfnu una hag sínum vel í fálæti t.d. í höfuðstöðvum SA en þegar að á þyrfti að halda myndi axlandinn taflaust mæta þar sem hans er þörf hverju sinni og inna af hendi starf sitt af stakri fagmennsku.
Hann hefði átt að vera í Borgarnesi, sem verkstjóri í nautabökudeildinni, grátandi og viðurkennt mestu mistök lífs síns þ.e. að hafa gleymt að setja nautakjötið út í bökurnar, biðja fólk afsökunar, hann væri bara venjulegur fjögurra barna faðir sem væri að bíða eftir lánaleiðréttingum og sér hefðu orðið á hræðileg mistök. Í kjölfarið hefði forstjórinn svo auðvitað rekið hann því einhver verður á axla ábyrð.
"Axlandinn" hefði einnig verið tilvalin ráðgjafi efnahags- og viðskiptanefndar varðandi bankaskattinn. Í því tilfelli hefði formaður nefndarinnar átt að segja í viðtölum strax og það mál kom upp " Hvað segir þú, er þetta virkilega svona? ég hélt að þessi maður væri fagmaður fram í fingurgóma" og síðan mjög alvarlega "þessi endurskoðandi er algerlega óhæfur". Í kjölfarið hefði axlandinn stigð fram iðrandi og rakið ættartengsl sín við stjórnendur viðkomandi banka og borið fyrir sig mannlegum breyskleikum eins og sívaxandi drykkjuskap samhliða miklum sambúðarvandamálum. Formaðurinn rekið viðkomandi á staðnum með tilþrifum, enda málið alvarlegt og hann því einnig séð til þess að axlandinn yrði sviptur löggildum endurskoðendaréttindum "sínum".
Hann hefði afstýrt miklu klúðri hjá Vodafon. Hlutverk hans þar hefði verið sem virðulegur en tekin "gagnaöryggisstjóri" fyrirtækisins. Hann sem slíkur hefði byrjað á því að flýja land strax eftir að gögnunum var rænt frá Vodafon, hefði samt fljótlega fundist á ódýru hótelherbergi í Kaupmannahöfn. Athyglin fyrst um sinn yrði öll á hinum horfna tæknistjóra sem auðvitað væri sá eini sem kann á þessu skýringar. Með "hvarfinu" vinnst dýrmætur tími, tveir þrír dagar. Ný fundin og aðspurður myndi "tæknistjórinn" fara með tækiorðarommsu sem ekki væri á færi hæfustu sérfræðinga að skilja, en ljóst væri af mæli hans þar sé að finna meginskýringuna en hins vegar geti hann ekki horft fram hjá því að nýi conponeta deilirinn olli straumhverfingu sem ekki var við ráðið og því fór sem fór. Á því bæri hann fulla ábyrgð væri miður sín, sjokkeraður og hefði skroppið til Kaupmannahafnar til þess að öðlast innri ró og átta sig á hvað hefði farið úrskeiðis. Það væri mikill misskilningur og alrangt eins og haldið hafi verið fram að hann væri á flótta. Að þessu sögðu hefði hann verið rekinn enda ljóst að gagnaöryggi var undir hans stjórn afar ábótavant. Forsvarsmenn fyrirtækisins vilja auðvitað ekki hafa svona fólk í vinnu.
En af allra bestu gagni kæmi hann núna þessa daganna sem tilvonandi fyrrverandi fulltrúi í Innanríkisráðuneytinu. "Axlandinn" myndi hringja í DV og játa lekann nafnlaust til að byrja með en strax næsta dag stíga fram og játa allt skýlaust. Lýsa yfir í örvilnan og að vonbrigði við að hafa ekki fengið aðstoðardeildastjórastöðuna í ISP merkingastaðladeild ráðuneytisins hafi verið mikil. Það hafi valdið honum andlegu ójafnvægi og sárri reiði. Til þess að valda yfirmanni ráðuneytisins sem mestum usla þá hafi hann ákveðið, í hefndarskyni, að fyrirmynd Assange, að leka þessum upplýsingum. Hann sæi núna að mannauðsstjórn ráðneytisins væri eitt og réttlætti ekki lekann sem væri annað og öllu alvarlegra mál. Hann vonaði að þessi mistök myndu ekki bitna á honum. Að þessu sögðu yrði hann síðan rekin með skít og skömm og málið dautt. Á þessum vanda er einnig önnur lausn sem er alls ekki við hæfi nema í algerum neyðartilfellum, en hún felst í því að einhver af þeim pólitísku tindátum sem starfa í efsta lagi ráðuneytisins tæki á sig ábyrgð á lekanum. Tindátinn yrði í framhaldinu um nokkra hríð í pólitísku skjóli, kælingu t.d. á flokkskrifstofu eða sambærilegri stofnun. Að hæfilegum tíma liðnum sprettur viðkomandi upp á ný í sambærilegum verkum í en í öðru ráðuneyti. Þetta er alls ekki gert nema í algerum neyðatilfellum enda ótvírætt veikleikamerki.
Hér hefur einungis verið minnst á örfá mál. Það nauðsynlegt, áður en af verður, að kanna markaðinn enn frekar þ.e. eftirspurnina. Hér er óplægður akur, arðsamur markaður, mikill bísness og öll líkindi til þess að embætti "axlandana ábyrgðar" yrði deild mjög fljótlega - hver veit? Hitt er ljóst að allir fá sitt - stjórnmálamenn og stjórendur fyrirtækja óskeikulir með öllu, eins og verið hefur og almenningur fær einhverskonar sorry og ekki síst þá undarlegur tilfinningu um að einhver sé í "raun" ábyrgur á marg- og fjölþættum "klúðrum" sem sannarlega eiga stað í stjórnsýslunni og viðskiptalífinu. Er hægt að biðja um meira?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli