mánudagur, 31. ágúst 2009

Af pólitísku kennitöluflakki

Það verður að segjast eins og er að oft hefur Sjálfstæðisflokkurinn átt betri daga í íslenskri pólitík en nú um stundir. Málflutningur formannsins í Valhöll um daginn hljómar eins og að flokkurinn hafi fengið nýja kennitölu og komi ekki lengur við gamla kennitalan eða mál henni fylgjandi. Þarna var um að ræða afneitun á heimsmælikvarða. Er auðvitað absúrd eins og reyndar sneypirför aðal hugmyndafræðings flokksins um daginn í mótmæli gegn sjálfum sér á Austurvöll með bók sína „Svartbók kommúnismans“ undir hendinni. Fullkomlega misheppnað PR hjá hugmyndafræðingnum ,var svona álika „gáfulegt“ eins og að kveikja sér í sígarettu í púðurgeymslu.

Hugmyndafræðilegt gjaldþrot er staðreynd og bjartsýni að halda að gamla þrotabú frjálshyggjunnar nýtist eitthvað inn í framtíðina. Oddur Ólafsson heitinn og ýmsir aðrir mætir menn héldu uppi merkjum samhygðar og félagshyggju innan Sjálfsstæðisflokksins í eina tíð. Þá var öldin önnur og engin kannast við slíkt lengur, núna eru tímar frjálshyggjunnar og fyrirheitnu löndin eru Argentína og Chile. Hinn pólitíski kompás íhaldsins er í algeru lamasessi og bendir einungis á „ysta hægrið“ og meðan að svo er þá á flokkur lítið erindi við samtímann og fjarri því að vera það afl sem einu sinni var.

þriðjudagur, 25. ágúst 2009

Unglingalýðræði en bara þegar að vel gengur

Velti fyrir mér hvort Ungmennaráð Hafnarfjarðar hafi verið haft með í ráðum í ákvörðunum um verulegan niðurskurð í starfsemi félagsmiðstöðva? Held ekki og velti fyrir mér hvers vegna hefur ekki verið óskað álits þeirra á þessari ráðagerð sem snertir þau með beinum hætti ? Gæti verið að ungt fólk þ.e.a.s. þau sem ekki eru kjörgeng eigi sér í raun enga rödd eða málsvara. Minnist þess fyrir allmörgum árum þegar að stjórnmálamenn fóru allt í einu að tala um framhaldsskólann, sem var í velflestum tilfellum í beinu samhengi við lækkun kjörgengis í 18 ár. Getur verið að áherslur stjórnmálamanna miðist nær eingöngu við áhuga virkra atkvæða sbr. foreldramiðuð skólaumræða ?

Hvers vegna er verið að tala um unglingalýðræði og til hvers er fyrirkomulag eins og Ungmennaráð Hafnarfjarðar ef það hefur ekkert um brýn hagsmunamál sín að segja þegar á reynir ? Ungmennin eru ekki einu sinni spurð álits þegar að unglingastarfsemi í bæjarfélaginu er skorin verulega niður og langt umfram annan niðurskurð ?

Ég hef lengi verið talsmaður þess að lækka kjörgengi í 16 ára aldur og með því gefa ungu fólki raunhæfa möguleika á því að hafa áhrif á mótun samfélagsins og ekki síst á þau mál sem á þeim brennur – Unglingalýðræði í núverandi mynd virkar ekki þegar á móti blæs - Tel því einu raunhæfu leiðina að lækka kjörgengi og því fyrr því betra. Veit sem er að við slíkt myndu málefni unglinga ekki verða sú afgangsstærð sem því miður vill verða – Það hefur ekkert samfélag efni á slíku fálæti og allra síst á tímum eins og þeim sem við lifum á.