laugardagur, 25. desember 2010

mánudagur, 13. desember 2010

Lærð stórslysaviðbrögð

Í Fréttablaðinu í dag er viðtal við Reynir Vignir framkvæmdastjóra PwC en fyrirtækið „endurskoðaði “ Glitni og Landsbankann. Fyrirtækið er harðlega gagnrýnt í tveimur skýrslum norskra og franska sérfræðinga um starfsemi bankanna á árunum 2006 og fram að falli þeirra í október 2008.

Viðtal þetta er skólabókardæmi um lærð stórslysaviðbrögð fyrirtækis í miklum vanda. Engu svarað efnislega en fjöldi mistæknilegra atriða slegið fram. Markmiðið að vinna tíma, komast í var og vonast eftir að öll töf minnki bæði pressu á fyrirtækið sem og vægi efnislegrar umræðu. Held að þetta mál sé þess eðlis að slíkt virkar ekki. Ef svo slysalega vildi til að svo yrði þá á hin íslenska deild PwC eftir að eiga við móðurfyrirtækið sem mun taka á málum út frá ýtrustu eiginhagsmunum sem m.a. gætu falið í þér að „fórna“ hinum íslenska hluta. Ekki veit ég hvernig það fer en hitt er öllum ljóst að íslenska endurskoðunarstéttin í heild geldur fyrir við- og vinnubrögð af þeim toga sem forsvarsmenn PwC á Íslandi sýna. Hlut endurskoðenda í hruninu verður að rannsaka eins og annað því tengdu. Því fyrr því betra. Viðtalið fylgir hér (feitletrun eru mín):

"Segir vinnugögn PwC flókin yfirferðar
„Gögn endurskoðenda er ekki einfalt að skoða og þau gögn sem sérstakur saksóknari fékk frá PwC eru að mestu á rafrænu formi en að hluta á pappír. Okkur finnst að áður en dómur verði felldur yfir störfum starfsfólks PwC sé nauðsynlegt að útskýringar þeirra á eigin vinnugögnum komi fram,” segir Reynir Vignir, framkvæmdastjóri PwC á Íslandi.“

Hann leggur áherslu á að vegna trúnaðar sé ekki hægt að birta útskýringarnar á hvaða vettvangi sem er og væntir þess að við rannsókn sérstaks saksóknara verði kallað eftir útskýringum og upplýsingum frá starfsfólki PwC sem kom að endurskoðun bankanna. Enginn starfsmaður hafi verið kallaður til skýrslutöku og ekki leitað eftir sjónarmiðum þeirra við rannsóknina.

Reynir fékk skýrslurnar afhentar á fimmtudag í síðustu viku og hefur haft knappan tíma til að skoða þær. „Skýrslurnar eru talsvert umfangsmiklar. Við þurfum að skoða þær nákvæmlega áður en við ákveðum á hvaða vettvangi við getum svarað þeim.

Í fljótu bragði sjáum við í skýrslunum báðum að skýrsluhöfundar setja fram mikið af fyrirvörum og benda á það í sérstökum köflum að þeir höfðu takmark að aðgengi að gögnum og að þeir skoðuðu ekki öll gögn, meðal annars ekki frumgögn úr bönkunum sjálfum. Jafnframt virðist okkur ljóst að tilvísanir til viðeigandi reglna um reikningsskil og endurskoðun séu veikar en frekar byggt á eftiráskoðun skýrsluhöfunda og jafnvel tilfinningum,“ segir hann.

Reynir, af skýrslunum að dæma brást PwC skyldum sínum. Hvað finnst þér? „Vinnu endurskoðenda verður að skoða miðað við þær aðstæður sem uppi voru þegar vinnan fór fram, en ekki með eftiráskoðun miðað við gjörbreyttar aðstæður. Við teljum að endurskoðendur félagsins hafi staðið vel að endurskoðun bankanna á sínum tíma og við munum sýna fram á það. Skýrslurnar eru ekki hinn endanlegi sannleikur um störf endurskoðenda.“"

fimmtudagur, 9. desember 2010

Sammála sjálfum sér eða ósammála ?

Í Fréttablaðinu í dag er harmsaga, framkvæmdastjóri Ölgerðarinnar ber sig illa vegna ómerkilegra og villandi auglýsinga samkeppnisaðilans Vífilfells. Fréttin er svona:

"Appelsín við fyrstu sýn
Vífilfell setti nýlega á markað nýjan gosdrykk sem ber heitið Hátíðar appelsín.Umbúðirnar eru með svipuðu sniði og Appelsínið frá Ölgerð Egils Skallagrímssonar, Egils appelsín. Yfir hátíðarnar tíðkast sá siður hér á landi að blanda saman appelsín og Malt Extract, drykkir sem voru fyrst um sinn einungis framleiddir af Ölgerðinni. Ein af auglýsingum fyrirtækisins yfir hátíðarnar ber yfirskriftina: „Ást við fyrstu sýn, Egils malt og appelsín.“ Vífilfell hefur nú tekið vörumerki hins nýja Hátíðar appelsíns skrefinu lengra, þar sem slagorð drykkjarins er: „Þú sérð það strax, við fyrstu sýn, að þetta er Hátíðar appelsín.“ Gunnar B. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Ölgerðarinnar, segist vona að neytendur sjái hversu augljóslegt það sé að verið sé að reyna að plata þá með svo keimlíkri markaðssetningu.
„Samkeppni er vissulega af hinu góða, en neytendur verða að átta sig á því hvað þeir eru að kaupa,“ segir Gunnar. Ölgerðin hefur sett málið í hendur Neytendastofu og eru lögfræðingar þeirra einnig að skoða málið.
„Aðalmálið fyrir okkur er að upplýsa neytendur,“ segir Gunnar."

Allt eru þetta góð og gild rök og óskandi að ákafi og sterk réttlætiskennd forstjórans gildi einnig í markaðsátaki Ölgerðarinnar (og reyndar Vífilfells einnig) á áfengi t.d. varðandi hinar sk. "léttöls" auglýsingar.  Öll rök forstjórans virka ágætlega gagnvart því og væri því ekki ráð fyrir forstjórann að ganga fram með góðu fordæmi og fara eftir því sem hann segir sjálfur. Nema kannski að viðkomandi "taki Ragnar Reykás á þetta". Hitt gæti þó orðið öllu verra ef Vífilfell auglýsti "létt" Hátíðarappelsín. Dómkerfið er svakalega svag fyrir slíku og hefur nýtt þetta misnotaða viðskeyti  sem lögfræðilegt skálkaskjól til að vísa frá augljósum lögbrotum  sbr. "létt"öl sem er ekki til í annari mynd en áfengi og hvað þá sem íslenskt hugtak yfir áfengislausa drykki.

föstudagur, 3. desember 2010

Merkilegar niðurstöður stjórnlagaþings - Aðferðafræðilegt stórslys

Það er merkilegt að velta fyrir sér niðurstöðum í kosningum til stjórnlagaþings og þá ekki síst kosningakerfinu sem er fjarri því að vera óumdeilanlegt. Í einhverjum tilfellum er um aðferðafræðileg stórslys að ræða. Ef fjöldi atkvæða væri látin ráða þá væru niðurstöður með öðrum hætti eins og sjá má á meðfylgjandi lista. Ekki miklar breytingar en athyglisverðar. Skýringar, svart letur, röðun miðað við heildafjölda atkvæða. Blátt letur, staða á lista og  staða samkvæmt heildarfjöldi atkvæða  og rautt letur,  þeir sem duttu út.


1. Þorvaldur Gylfason        28.807
2. Ómar Þorfinnur Ragnarsson       24.411
3. Illugi Jökulsson                 23.707
4. Salvör Nordal    19.727
5. Freyja Haraldsdóttir       15.404  
5. ( 44. sæti)  Pétur Gunnlaugsson 5.727
6. Silja Bára Ómarsdóttir   13.613
7. Andrés Magnússon        13.518
8. Eiríkur Bergmann Einarsson      13.106
9. Þorkell Helgason             12.729
10. Örn Bárður Jónsson       11.180
11. Þórhildur Þorleifsdóttir    11.156
12. Katrín Fjeldsted               11.154
13. Guðmundur Gunnarsson   10.922
14. Ari Teitsson        10.713
15. Erlingur Sigurðarson 10.245
16. Gísli Tryggvason    9.659
16. (36. sæti)    Pawel Bartoszek  6.532
17. Þorgeir Tryggvason        9.031
17.  (29. sæti)  Arnfríður Guðmundsdóttir 7.276 
18. Katrín Oddsdóttir            8.984
19. Jónas Kristjánsson          8.461
20. Vilhjálmur Þorsteinsson   8.251
21. Jón Ólafsson      7.857
22. Lýður Árnason 7.853
23. Inga Lind Karlsdóttir       7.774
23.   (31. sæti)  Ástrós Gunnlaugsdóttir 7.153
24. Birna Þórðardóttir           7.602
25. Tryggvi Gíslason               7.589

Það sem vekur mesta athygli er sú staðreynd að sá sem nýtur langminnsta fylgis af þeim sem komust inn   (5.727 atkvæði) Pétur Gunnlaugsson nær 5. sæti á listanum, með  rúmlega 30% af atkvæðum miðað við næsta mann og einungis um 20 % af því  atkvæðamagni sem einstaklingur í 4. sæti hefur. Þetta er auðvitað staðfesting á aðferðafræðilegu stórslysi og sýnir veikleika kerfisins þar sem heildarfjöldi atkvæða Péturs dugir einungis í 44. sæti á heildarlistanum.

miðvikudagur, 17. nóvember 2010

Ef Alþingi er vinnustaður ...

... þá er hann afar sérstakur og eiginlega algerlega afleiddur sem slíkur. Enda svo komið að ýmsir starfsmenn kvarta undan ástandinu. Ástæður öllum augljósar, eða flestum, gríðarlegir samstarfsörðuleikar og viðvarandi einelti. Það er því ekki úr vegi að benda starfsmönnum á reglugerð sem byggir að lögum nr. 46/1980. Reglugerð aðgerðir gegn einelti á vinnustað. Reglugerð þessi gildir um aðgerðir gegn einelti á vinnustað sem lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, gilda um. Ef litið er til 3.gr orðskýringa þá kemur eftirfarnandi fram:

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a. Einelti: Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.”

Starfsmannafélag Reykjavíkur og Reykjavíkurborg skilgreina vandann með eftifarandi hætti og á svipuðum notum er bæklingur SFR.

Starfsmenn geta upplifað áreitni, truflandi hegðun og yfirgang í ýmsum myndum bæði af hálfu samstarfsmanna og þeirra sem njóta þjónustu borgarinnar. Matið á áreitni ræðst af ýmsum þáttum svo sem upplifun starfsmanns á atvikinu, hversu gróft það er og hvort um endurtekið atferli er að ræða. Einnig þarf að taka tillit til aðdraganda áreitninnar og kringumstæðna.
Einelti: Þolandi verður fyrir endurtekinni ertni, stríðni eða aðkasti, niðurlægingu, illu umtali, útilokun eða er á annan hátt lagður í einelti af starfsfélögum. Einelti er oft eins konar hópfyrirbæri þar sem tiltekinn einstaklingur verður fyrir aðkasti án þess að nokkur komi honum til varnar. Stundum er eineltið einangrað og fer leynt fyrir flestum í hópnum.”

Og síðar:

Önnur áreitni: Þolanda er sýndur yfirgangur í samskiptum, vegið að honum með skömmum, niðurlægjandi eða ögrandi ummælum, aðdróttunum, skætingi, fyrirlitningu og þess háttar. Hótanir flokkast undir áreitni hvort sem alvara er gerð úr þeim eða ekki. Hér undir flokkast einnig ofsóknir þar sem starfsmaður verður fyrir ítrekuðu aðkasti og óþægindum sem getur falist í því að fylgst er með honum, hringt í hann, hann fær sendingar eða skilaboð og fjölskylda hans er ónáðuð.”

Alþingi er ekki fyrsti vinnustaðurinn sem á hremmingum. Vandamálið þekkt og því hefur Vinnueftirlit ríkisins fyrir allnokkru gefið út fræðsluritið Vellíðan í vinnunni fræðslu- og leiðbeiningarit nr. 13. Þar segir í kaflanum Vinnan og sjálfsmyndin:

Við erum það sem við gerum. Starfið er ekki aðeins tæki til að afla tekna heldur hluti af sjálfsmynd okkar. Það er mikilvægt fyrir fólk að vera í starfi, sem hefur tilgang bæði í augum einstaklingsins sjálfs og umhverfisins.Staða mannsins innan vinnustaðarins skiptir einnig máli. Hlutverkin eru mismunandi innan starfshópsins, sumum er ætlað að stjórna, öðrum fremur að framkvæma. Það eykur öryggi manna, ef línurnar eru skýrar, þeir vita til hvers er ætlast af þeim. Skipurit og starfslýsingar eru tæki til að koma slíkum skilaboðum áleiðis. Rammar af þeim toga útiloka ekki, að samkomulag geti verið um, að hinn almenni starfsmaður taki ábyrgð á afmörkuðum verkefnum, sýni frumkvæði og taki sjálfstæðar ákvarðanir. Slíkt er þvert á móti æskilegt, eykur afköst og stuðlar að vinnugleði”.

Og síðar í þessum ágæta bæklingi segir:

Við erum það sem við gerum - GÓÐIR OG VONDIR VINNUSTAÐIR. Einkennandi fyrir góðan vinnustað er að vinnufélagarnir bera traust hver til annars, finna til samhygðar og hafa umburðarlyndi gagnvart sérkennum náungans. Starfshópurinn getur því aðeins unnið vel saman og þróast, að þekking, geta og sköpunarhæfni einstaklinganna nýtist eins og best verður á kosið. Í góðum starfshópi veit hver og einn til hvers er ætlast af honum og hvaða stöðu hann hefur í hópnum. Á góðum vinnustað ríkir lýðræði, fólk þorir að vera það sjálft og býr ekki við ótta og öryggisleysi. Vandamál eru rædd í vinsemd og til þess að leysa þau, en ekki til að koma höggi á sökudólg. Fjallað er um markmiðin og ákvarðanir teknar í samráði við starfsmenn. Miðað er að því að fólk þroskist og endurnýi sig í starfi, geti notið hæfileika sinna og þekking og færni hvers og eins sé metin að verðleikum. Samstarfsmenn gleðjast með glöðum og hryggjast með hryggum.”

Allt er þetta satt og rétt, sorglegt að ekki skuli unnið samkvæmt þessu. En þrátt fyrir það þá er ekki öll von úti því Vinnueftirlitið hefur gefið út leiðbeinandi stefnu og viðbragðsáætlun í eineltismálum sem einfaldlega má nýta á vinnustaðnum Alþingi Íslendinga.

STEFNA
Það er stefna fyrirtækisins að starfsmenn sýni samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti verður undir engum kringumstæðum umborið á vinnustaðnum. Meðvirkni starfsmanna í einelti er fordæmd.
VIÐBRÖGÐ
Starfsmaður sem verður fyrir einelti skal snúa sér hið fyrsta til næsta yfirmanns og tilkynna um atvikið. Ef næsti yfirmaður er gerandi málsins eða sinnir því ekki er hægt að snúa sér til tveggja annarra trúnaðaraðila.
Þegar yfirmaður eða trúnaðaraðilar fyrirtækisins fá vitneskju um einelti munu þeir bregðast við samkvæmt eftirfarandi viðbragðsáætlun. Strax er metin þörf þolanda fyrir bráðan stuðning og hann veittur. Lögð verður áhersla á að leysa málið hið fyrsta og koma í veg fyrir frekara einelti.
Auk yfirmanna fyrirtækisins eru eftirfarandi trúnaðaraðilar tilbúnir að ræða við starfsmenn um meint einelti á vinnustaðnum.
Bjarni Jónsson öryggistrúnaðarmaður og Sigrún Gunnarsdóttir, starfsmannastjóri og öryggisvörður.”

Niðurstaðan liggur í augum upp Alþingi sem vinnustaður er með því versta sem gerist enda tiltrú og viðhorf almennings gagnvart vinnstaðnum í sögulegu lágmarki. Ráð mitt er því að starfsmenn notfæri sér allt það ágæta efni sem til er og tekur á eins alvarlegum meinsemdum og hrjá þingheim í sérstaklega miklu mæli um þessar mundir. Annað er viðvarandi dónaskapur við vinnuveitendurnar sem að óbreyttu munu sennilega ekki endurnýja ráðingarsamninga margra þessara starfsmanna.

þriðjudagur, 9. nóvember 2010

Síðasta kvöldmáltíðin

Fékk þessa merkilegu mynd senda fyrir skömmu. Myndin ein og sér segir meira en mörg þúsund orð og sýnir hve ljósmyndin ein og sér er gríðarlega öflugur miðill. Síðustu kvöldmáltíðina kalla gárungarnir myndina þó svo að þann þrettánda vanti í hópinn, var ugglaust seinn fyrir og ekki með á myndinni af þeim sökum, sennilega að eitthvað að endasendast fyrir Baug og örugglega fyrir silfur að mati hinna sem á myndinni eru. En sjón er sögu ríkari.miðvikudagur, 3. nóvember 2010

Íslenskar æskulýðsrannsóknir 2010Æskulýðsráð í samvinnu við Tómstunda- og félagsmálafræðibraut MVS Háskóla Íslands og  Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri standa að ráðstefnunni
 Íslenskar æskulýðsrannsóknir 2010
Aðrir samstarfsaðilar eru: Félag fagfólks í frítímaþjónustu, FFF;  Rannsóknarstofa  í Bernsku- og æskulýðsfræðum, BÆR og Félag æskulýðs- íþrótta- og  tómstundafulltrúa, FÍÆT.

5.  nóvember  2010  MVS Háskóla Íslands v/Stakkahlíð í Bratta

Ráðstefnustjóri: Stefán Hrafn Jónsson, sviðsstjóri rannsókna- og þróunarsviðs Lýðheilsustöðvar.

Dagskrá:
09:30. Setning og ávörp. Berglind Rós Magnúsdóttir ráðgjafi Mennta- og menningarmálaráðherra og Jón Torfi Jónasson forseti MVS.

09:50. Hugleiðingar um stöðu æskulýðsrannsókna. Óskar Dýrmundur Ólafsson formaður Æskulýðsráðs. 
10.00 - 10.20. Hver kaupir ? Uppruni áfengis sem unglingar drekka og tengsl við drykkjumynstur þeirra. Kjartan Ólafsson, lektor HA. Meðhöfundur Þóroddur Bjarnason Prófessor í félagsfræði HA.
10.25 -10.45. Konsumtionssamhällets barn/unga, som föremål för våra omsorger. Frågan om "Med vilken rätt ger vi oss in i ungarnas liv?".Lars Lagergren, námsbrautarstjóri Fritidsvetenskap Malmö högskola.

Kaffi 15 mín.

11.00-11.20. Tómstundir og frístundir barna í 1., 3., 6., og 9 bekk. Dr. Amalía Björnsdóttir , MVS HÍ. Meðhöfundar Dr.Baldur Kristjánsson og Dr.Börkur Hansen , MVS HÍ.
11.25- 11.45. Hvað er farsælt samfélag? Um misskiptingu auðs og velferð barna og unglinga. Ástríður Stefánsdóttir, læknir og M.A í heimspeki.
11.50-12.10. Norsk klubbungdom. Pål Isdal Solberg, framkvæmdastjóri Ung og fri i Norge.

Matarhlé.
Málstofur A/B

13.00-13.20.
A. Varð kátt í höllinni? Um aðstöðuleysi æskunnar í íslensku samfélagi. Árni Guðmundsson, M.Ed og doktorsnemi HÍ.
B. Sjónarmið barna – þeirra réttindi.  Hervör Alma Árnadóttir, lektor Félagsráðgjafadeild HÍ.
13.20-13.50.
A. Hvernig getur samstarf heimila og skóla haft áhrif á vímuefnaneyslu nemenda? Geir Bjarnason, M.Ed, og forvarnarfulltrúi. Meðhöfundur Dr. Amalía Björnsdóttir, MVS HÍ.
B. Þátttaka barna við gerð áætlana um meðferð máls í barnaverndarmálum. Anni G Haugen, lektor félagsráðgjafadeild HÍ.
13.50-14.10
A. Eru Tómstundir tómar stundir? Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor HÍ.
B. „Mikilvægt að fá að vera barn meðan maður er barn”. Elsa S. Þorvaldsdóttir, iðjuþjálfi. Meðhöfundar: Dr. Hermann Óskarsson, dósent HA og Dr. Sigríður Halldórsdóttir, prófessor HA.

Kaffi 20 mín.

14.30-14.50. 

A. „Maður lærir helling sem ekki er hægt að læra frá öðrum en sjálfum sér“ Um ferðalög og reynslumiðað nám. Jakob Frímann Þorsteinsson, aðjúnkt HÍ.
B. Áhrif kyns á vöktun foreldra byggt á gögnum HBSC rannsóknarinnar um heilsu og lífkjör skólanema. Kristín Linda Jónsdóttir, meistaranemi HA.
14.50-15.10.
A. Líðan samkynhneigðra unglinga. Dr. Sigrún Sveinbjörnsdóttir, dósent HA. 

B. Líkamsímynd íslenskra skólabarna 2006-2010. Anna Lilja Sigurvinsdóttir, meistaranemi HA.
15.10-15.20.
A. Tjejers valmöjligheter : - en studie kring gymnasieval, yrkesval och framtid. Bibbi Björk Eriksson, M.A. Fritidsledarskolorna.
B. Tóbaksvarnir í grunnskólum á Íslandi. Jóhanna S Kristjánsdóttir, meistaranemi heilbrigðissviði HA.
15.20-15.40. 

A. Skortur á gögnum eða skortur á upplýsingum. Kjartan Ólafsson , lektor HA. 
B. Að vinna eða vinna ekki? Um hvers vegna 13-17 ára íslenskra ungmenni vinna eða vinna ekki með skóla. Margrét Einarsdóttir, doktorsnemi í félagsfræði, HÍ.

þriðjudagur, 26. október 2010

Hvað ef ... fín sýning

Sá sýninguna Hvað ef í Kassanum í Þjóðleikhúsinu í dag. Leikstjóri er Gunnar Sigurðsson. Tónlistarstjórn og handritsumsjón er í höndum  Guðmundar Inga Þorvaldssonar. Leikarar eru Ævar Þór Benediktsson, Ólöf Jara Skagfjörð og Guðmundur Ingi Þorvaldsson.
 Hér er um að ræða fína sýningu og fróðlega sérstaklega fyrir ungt fólk. Vímuefnavandinn er í brennidepli og er fjallað um hann  frá dýpstu alvöru yfir í hið mesta grín, sem sagt allur tilfinningakvarðinn nýttir. Getur orkað tvímælis en í þessari sýningu tekst þetta mjög vel  og boðskapurinn kemst vel til skila. Leikararnir stóðu sig allir mjög vel. Ólöf Jara fremst meðal jafningja en fyrir utan að vera góður leikari þó ung sé að árum þá er hún einnig afburðagóður tónlistarmaður. Góð sýning stutt og hnitmiðuð og tilvalið fyrir þá sem eldri eru að bjóða ungviðinu með sér á sýninguna sem gerir öllum gott og vekur athygli á brýnu málefni sem sífellt þarf að vera í umræðunni. Þakka fyrir mig. 

miðvikudagur, 20. október 2010

Og enn streymir verðlaunafé til mín

Nú hljóp enn og aftur á snærið hjá mér í lotteríum sem ég hef ekki einu sinni tekið þátt í en vinn samt. Núna eru það 1.000.000 evrur sem ég hef þegar ákveðið að gefa til velferðarmála. Mig munar ekkert um það þar sem ég á útstandandi annað eins. Ég hef því hugsað mér að gefa verðlaunaféð þegar að það berst  óskipt til Byggingafélags einstæðra leigubílstjóra sem ku vera í nokkrum kröggum  um þessar mundir. En bréfið góða sem mér barst í kvöld er svona:

"Fullyrðingu þína vinna verðlaun!
 
Sir / Madam
 
Við erum ánægð að tilkynna þér að þú hafir komið sigurvegari undir öðrum flokki af kynningu okkar.
Sigurvegarar voru valinn af tölvukerfi, sem dregin er frá fyrirtækjum og einstaklingum netföng allan heim.
The teiknar eru opinberlega tilkynnt 19. október, 2010. Þú hefur verið að því veitt í einu lagi á
Ein milljón evra, sem er aðlaðandi greiða út fyrir Flokkur A sigurvegari.
 
ATH: Til að auðvelda tilvísun og greiningu, muna að vitna í þessi vinna tölur hér segir í þínu
bréfaskipti við kröfu Department okkar: Ticket Number: 684775444, Tilvísunarnúmer: 63584, SQ/33,
Lucky númer: 57/qt/845600 og Serial númer: 3856/79678
 
Vinsamlegast hafið samband Sponsorloterij Krafa deild strax í vegna vinnslu og yfirfærsla verðlaunafé þína.
 
 Herra Nicholas Brown
 Tel: +31 xxx xxx xxx
  Fax: +31- xxx xxx xxx

Svara Email: xxxxxxx.xxx
 
 Með kveðju Kveðja,
 Dr Sandra Zagrab
  Umsjónarmann."

mánudagur, 4. október 2010

Er orðin moldríkur !

Mér barst eftirfarandi  tölvuskeyti í dag og hugurinn hvarflaði ósjálfrátt til þess tíma þegar að ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að afirískar ekkjur í umvörpum völdu mig úr hópi milljóna manna  til þessa að liðasinna sér, fyrir umtalsvert fé, við að ná út auðæfum látinna eiginmanna þeirra. Skrifaði þá eftirfarandi pistill Loksins einn sem var skotinn

En hvað með það þó svo að einn og annar vinningur hafi dottið inn frá hinu virta Madridar lotto, sem er eitt margra happdrætta sem ekki þarf að eiga miða í til þess að vinna, sem gerir að verkum að vinningslíkindi eru fantagóð miðað við framlag. Nú er það Shell Petroleum Development Company í Bretlandi sem veitir mér vinning algerlega þvert á öll líkindi.  Virðulegt bréf verðlaunum mínum til staðfestingar birti ég fólki til fróðleiks og aðdáunarvert að stórfyrirtæki eins og  Shell Petroleum Development Company í Bretlandi sjái sér fært aðrita mér þetta virðulega bréf á móðurmáli mínu.

"Shell Petroleum Development Company í Bretlandi

Úrskurður ráðuneytis Shell Petroleum Development Company í Bretlandi Shell Industrial Area, 34-35 Palace Road UK

Shell Kæri Prize Winner,

Eftirfarandiniðurstöður árlegrar okkar verðlaun / Grant dregur gerður í þessum mánuði, við erum stolt af að tilkynna þér að netfangið þitt fram semeinn af heppinn sigurvegari okkar á 2010 Shell teiknar æfa og hefur verið samþykkt eingreiðsla £ 200,000.00 sterlingspund.
Þetta er árleg verðlaun, sem er í eigu Shell Petroleum UK sem hluti af framlagi þess að mannkynið og þetta er fjármagnað af árlegum hagnaði sínum geira olíu í Bretlandi.
 Þér hefur verið úthlutað til krafna agent.Consequently, ert þú hér meðbeint samband við hann til næsta skimun, samþykkt og greiðslu verðlaun þinn.

Vinsamlegast fundið upplýsingar hér að neðan:
 Agent Name: Dr Grant Greenfield
 E-mail: xxxxxxxxxx
 Sími: +44 701 1182 711

Halda áfram að vinna upplýsingar trúnaði til að forðast tvöfalt kröfu.
Samþykkja heitustu okkar til hamingju.

Kveðjur,
Frú Rita Doris
(Prize Stjórnandi) Listen Read phonetically"

sunnudagur, 26. september 2010

Frábær fótbolti - Special Olympics

Íslandsleikar Special Olympics í fótbolta voru haldnir laugardaginn 25. september í Kaplakrika í Hafnarfirði en leikarnir eru haldnir í samvinnu við  knattspyrnudeild FH. Brá mér á svæðið enda með formlegt boð um slíkt frá vini mínum honum Þorgeiri markverði og varnarjaxl í liðinu Suðra frá Selfossi. Frábær fótbolti þar sem leikgleðin var í fyrirrúmi. Skemmtilegt mót  - þakka kærlega fyrir mig.

mánudagur, 13. september 2010

Tæknilegt sakleysi en siðferðileg sekt ?

Það dapurlegt að fylgjast með umræðum um niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis. Því miður er  af nægu að taka og ljóst að framkvæmdavaldið og "eftirlitsiðnaðurinn" eins og ýmsir stjórnmálamenn nefndu stofnanir eins og Fjármáleftirlitið,  gjörklikkaði. Æðstu stjórnendur framkvæmdavaldsins ráðherrarnir hljóta að bera ábyrgð a.m.k. er það svo í flestum þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við og flokkast til siðaðra samfélaga. Umræður um landsdóm bera  hæst um þessar mundir og hver lögfræðingurinn af öðrum dregin fram á sjónarsviðið og engu líkara en að ein alsherjar smjörklípa sé í uppsiglingu.  Nú ber svo við að ekki er hægt að fara eftir orðanna hljóðan í stjórnarskránni m.a. þar sem ákvæðið er svo gamalt og flókið?  Eru lögfræðingar fyrst núna að glíma við torræðan texta. Ég hélt að það væri eitt af aðal viðfagsefnum stéttarinnar? Ekki veit ég hverning þetta endar? Ömurlegast verður ef að menn verða "dæmdir" lagatæknilega saklausir enn af megin þorra almennings taldir siðferðilega sekir. Það yrðu "tæknileg mistök" af versta toga?

fimmtudagur, 2. september 2010

Baráttuhópur um bætt veðurfar

... er starfandi í félagsmiðstöðinni Hæðargarði í Reykjavík. Fremstur meðal jafningja í þeim hópi er veðurfræðingurinn góðkunni Páll Bergþórsson fv. Veðurstofustjóri. Hópur þessi, sem samanstendur af baráttuglöðum heldri borgurum, hittist reglulega og leggur á ráðin.

Ekki verður annað sagt en að helsta baráttumál hópsins hafði gegnið eftir a.m.k. í sumar sem sýnir í hnotskurn hverning samtakamátturinn og hin óbilandi barátta skilar verulegum árangri. Eitt besta sumar í áraraðir staðreynd og ekki síst fyrir tilstilli hópsins. Það er því von mín að baráttuhópurinn um bætt veðurfar slaki ekki á í neinu og að  við uppskerum fyrir vikið góðan vetur.

sunnudagur, 8. ágúst 2010

Af pólitískum gæludýragarði

Svo brá við fyrir margt löngu, að loknum kosningum í bæjarfélagi einu, sem hér verður ekki nefnt á nafn, að allmargir flokksmenn þóttu hafa staðið sig vel í stólaburði og öðru flokkstarfi í aðdraganda kosninganna. Kosningabaráttan hafði gengið afar vel og flokkurinn því með pálmann í höndunum að þeim loknum.  Eftir kjör í nefndir bæjarfélagsins þar sem dugmiklir flokksmenn komu til starfa þá var eitt vandamál óleyst. Einhverjir einn eða tveir afar vinnusamir flokksmenn  komust ekki að í hinu hefðbundna nefndarkerfi, sem var ekki gott og taldist með öllu óhæft innan flokksins.

Þáverandi bæjarstjóri, pólitíkus en auk þess afbragðs embættismaður, dó ekki ráðlaus og leysti málið að hætti Salómons konungs. Viðkomandi voru ráðnir til "starfa" hjá bæjarfélaginu og settir inn á gang einn ónotaðan í gömlu frystihúsi sem bæjarfélagið hafði eitt sinn rekið en stóð nú að mestu leyti autt. Orðhagur starfsmaður bæjarins og skáldmæltur í meira lagi nefndi ganginn umsvifalaust "gæludýragarðinn"  og gekk hann eftirleiðis undir því nafni meðal starfsmanna bæjarins.

Viðkomandi starfsmenn gengu ganginn fram og til baka dag út og dag inn og fóru jafnvel víðar með möppur,  umslög og önnur nauðsynleg fylgigögn ef því var að skipta . Ekki voru margir sem vissu hver umsýslan var, sennilega úttektir af einhverjum toga, en kosturinn  ótvíræður sá að ekkert af þessum viðfangsefnum hafði áhrif á hefðbundna stjórnsýslu bæjarfélagsins, sem gekk sinn vanagang enda margur reyndur embættismaðurinn þar fyrir á fleti. Með þessu vannst tvennt. Í fyrsta lagi þá gátu flokksmenn andað léttar því þeirra bestu menn voru komnir til starfa í einni eða annarri mynd og í öðru lagi  að ráðningarnar settu ekki annars ágætt stjórnkerfi bæjarins úr skorðum, sem var lykilatriði.

Fyrir þá stjórnmálamenn sem "lenda í því" að standa að pólitískum  ráðningum þá má þetta fyrirkomulag vera þeim til "fyrirmyndar". Því miður eru  dæmi í annars ágætu embættimannakerfi hins opinbera að settir séu til "verka"  í hefðbundinni embættismennsku einhverjir flokkshestar sem standa síðan mikilvægum málflokkum fyrir þrifum árum saman saman vegna fákunnáttu sinnar á því faglega- og eða sérfræðilega viðfangsefni sem viðkomandi eru ráðnir til þess að sinna en hafa enga burði til.

Slíkt kostar samfélagið stórfé og mun meira en bara laun viðkomandi þegar að upp er staðið. Velti því fyrir mér hvort ekki er hægt að opna hálfopinberan pólitískan gæludýragarð að hætti hins ónefnda bæjarfélags meðan að kaupin gerast enn með þessum hætti á eyrinni. Umsýslustofnunn Ríkisins væri hæfilega virðulegt nafn, stofnun sem reka mætti undir fjárlagaliðnum "framlag til stjórnmálaflokka" og þar mætti sameina á einn stað dugandi flokksmenn allra flokka sem nauðsynlegt þykir að umbuna með pólitísku fóstri hjá hinu opinbera?   Hitt er svo annað mál hvort við sem skattborgarar eigum að sætta okkur við pólitískt "handlang" af þessu tagi? Held og vona að slíkir tímar verði fyrir bí fyrr en seinna.

föstudagur, 9. júlí 2010

HM - RÚV og endalausar ólöglegar áfengisauglýsingar

RÚV tekst með einstaklega óviðeigandi hætti að spyrða saman heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu og áfengisauglýsingum. Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum hafa borist mjög margar kvartannir vegna þessa framferðis RÚV síðustu vikurnar. Foreldrasamtökin hafa marg bennt á þessa lögleysu, bæði með bréfum til RÚV sem og með og ábendingum og tilkynningum til lögreglustjóra.

Allmargar ábendingar bárust
foreldrasamtökunum þegar að þáttastjórnanda Betri stofunnar sá ástæðu til þess að vekja sérstaka athygli á snöggum viðbrögðum áfengisframleiðenda við lúðrum á HM með framleiðslu á áfengisauglýsingu, teiknimynd þar sem einhver björn treður lúður inn í sel? og sýndi í kjölfarið áfengiauglýsinguna (án hins friðþægandi útúrsnúnings að mati áfengisframleiðenda "léttöls") í miðjum þætti og svo auðvitað í sí og æ eftir það í auglýsingahléum.

Nú er svo komið að Ölgerðin nennir ekki einu sinni að setja inn í sekundubrot, í hinar ólöglegu auglýsingar, orðið "léttöl" í lítilli og óljósri starfagerð sbr. auglýsingu í leikhléi  í leik Spánar og Þýskalands  7/7 kl 19:30 og svo hitt að RÚV hirðir ekki lengur um að athuga hvað þeir senda út. Að sjálfsögðu var tafarlaust send ábending til þess bærra aðila. Það er því augljóst að Ölgerð Egils Skallagrímssonar fær enn einn dóminn (ef ekki tvo) á sig innan tíðar vegna brota og svo þarf útvarpsstjóri að svara fyrir og sæta ritstjórnarlegri ábyrgð vegna birtinganna. Telur útvarpsstjóri að þessar endalausu áfengisauglýsingar á RÚV séu í þágu hans umbjóðenda sem eru ekki síst börn og unglingar í landinu?

20. gr áfengislaga er afar skýr sem og siðferðilegur boðskapur laganna - Það alveg einstaklega óviðeigandi að RÚV fari ekki eftir þessum lögum en veiti þessi í stað áfengisframleiðendum óheftan aðgang að sínum mikilvægasta markhóp, börnum og unglingum, með endalausum ólöglegum áfengisauglýsingum í þáttum eins og t.d. í kringum hina annars ágætu HM keppnina.

Grein einnig birt á vef Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum www.foreldrasamtok.is

þriðjudagur, 22. júní 2010

Ferðalag sem engin vill fara í - nema fararstjórinn


Rak augun í  yfirlýsingu (hluta af) frá Starfsmannafélagi Hafnarfjarðar STH á vef félagsins.

"Stjórnir Starfsmannafélags Hafna(r)fjarðar , Félags Opinberra Starfsmanna á Suðurlandi og Starf(s)mannafélag Dala- og Snæfellssýslu funduðu í gær í Hafnarfirði og ákváðu að fara í formlegar viðræður með það að markmiði að sameina félögin. Var formönnum félaganna veitt fullt umboð til að fara í skipulagða undirbúningsvinnu að sameiningu félaganna.

Í yfirlýsingu stjórna STH, FOSS og SDS sem gerð var á fundinum standa þessi orð: Það er trú okkar að með sameiningu þessara félaga sé stigið mikið heilla spor fyrir félagsmenn félaganna“

... brá nokkuð en rann blóðið til skyldunnar og sem fv. formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar mjög hissa á þessum málatilbúnaði. Hef reyndar ekki fengið þessa „yfirlýsingu“ í heild þó ég hafi leitað eftir henni með formlegum hætti? Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum FOSVEST bættist í hópinn nokkrum dögum eftir þessa yfirlýsingu.
Velti fyrir mér hvort stjórn félagsins hafi gefist upp á því að vera fulltrúar félagsmanna með því að ákveða viðræður án þessa að það ráðfæri sig í einu eða neinu við þá í upphafi, en fá fullt umboð hver frá öðrum til þess að tala hver við annan?

Hef ekki nokkra trú á að félagsmenn STH samþykki þess vitleysu, ef á það reynir á annað borð, enda tilgangurinn afar þokukenndur og ekki beinlínis um „Bjarmalandsför“ að ræða svo ekki sé dýpra í árina tekið. Það er alveg sama hvar maður fer inn í þetta mál – hagmunir STH félaga eru ekki í öndvegi enda eru þeir ekki einu sinni spurðir álits.

STH á sér langa og merka sögu og var eitt af stofnfélögum BSRB og allar götur síðan verið virkt afl í kjarabaráttu opinbera starfsmanna. Sem slíkt hefur félagið verið í forystusveit BSRB og ekki síður innan regnhlífarsamtakanna Samflots bæjarstarfsmanna en þar voru flest bæjarstarfsmannafélögin en þó ekki öll.
Það er ekkert launungarmál að fyrir nokkrum árum sprakk Samflotið (Samflot bæjarstarfsmannafélaga) sem var til margra ára eitt sterkasta aflið innan BSRB. Og úr varð annarsvegar, nýtt og minna Samflot, og hins vegar Kjölur með gamla Starfsmannafélag Akureyrar sem forystuafl. Í Kili sameinuðust mörg lítil félög, flest landfræðilega tengd en þó ekki algilt, einhver félög gengu inn í Kjöl af öðrum ástæðu og sennilegast þeim að þar töldu þeir sínu hag betur komið heldur en innan regnhlífarsamtaka félaga eins og Samflotsins nýja ( 6-7 félaga) sem stofnað var í kjölfar klofningsins.

Hjá bæjarstarfsmannafélögum hafa orðið breytingar síðustu ár og flestar til bóta. Félag opinberra starfsmanna á Suðurlandi hefur verið að stækka en Selfoss var eins og eyja í miðju þeirra svæði og með sameiningu sveitarfélaga var Starfsmannafélag Selfoss lagt niður enda sama vinnu- launa- bæjarfélags- og landssvæði. Í STH gengu fyrir nokkrum árum inn félagsmenn af Álftanesi en þeir höfðu áður haft einstaklingsaðild að BSRB sem var ekki gott eða æskilegt og af þeim sökum var þeim boðin aðild að STH.

Sú viljayfirlýsing sem nú liggur fyrir er ekki í þessum anda. Nú eru þetta 3 -4 tiltölulega einangruð landsvæði með mjög mismunandi virkum og eða óvirkum félögum. Félögin eru afar ólík að gerð bæði hvað varðar hefðir, launasetningu, uppbyggingu, í hvernig samfélögum þau starfa og reyndar í flestu því sem gerir félög að félögum. STH hefur enga sérstaka þörf fyrir að sameinast og hvað þá félögum sem almennt búa við lakari kjör en til dæmis þau félög sem STH á að bera sig saman við, eins og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, Starfsmannafélag Kópavogs, Starfsmannafélag Garðabæjar og Starfsmannafélag Suðurnesja. Öll þessi félög eru utan Samflotsins eða Kjalar, eru á stór- Hafnarfjarðarsvæðinu og státa flest af því að búa við betri kjör en bæjar- og sveitarstjórnir þeirra félaga sem stjórn STH vill sameinast. Og þar stendur hnífurinn í kúnni.

Og nú hefur stjórn félagsins gefist upp sbr yfirlýsingin undarlega ! „...standa þessi orð: Það er trú okkar að með sameiningu þessara félaga sé stigið mikið heilla spor fyrir félagsmenn félaganna“ ...“
Þessu er ég sem fyrrverandi formaður STH 100% ósammála. Hin afar óljósa og tvísýna vegferð er dásömuð áður en lagt er af stað inn í þokuna! Sameining af þessum toga hefur enga þýðingu fyrir STH félaga og er fjarri því að vera nokkurt heillaspor. STH/Hafnarfjörður verður eyland úr tengslum við nágrannafélögin og í kompaní með einhverjum af mestu láglaunasvæðum landsins.

Verkefni STH eru á öðrum vettvangi og felast í samstarfi sjálfstæðra bæjarstarfsmannafélaga á stór- Hafnarfjarðarsvæðinu, hinu sameinilega launa- atvinnusvæði. Samtakamáttur á þeim vettvangi er vænlegur til árangurs. Skipulag, innra starf og sjálfstæði félagsins þarf að taka mið af því – að leggja það niður eða geyma það í skúffu í starfsmannahaldi bæjarins er ekki skynsamlegt. Verkefnin eru því allt önnur en að sameinast og ef það væri á döfinni þá væri Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar sennilega fyrsti kosturinn m.a vegna mun hagstæðari launatenginga starfsmats. Hitt er svo annað mál hvort bæjaryfirvöld myndu nokkurn tíma fallast að taka upp launatengingu borgarinnar, í ljósi reynslunnar verður að stórefa að slíkt yrði.

Launastefna Hafnarfjarðarbæjar hefur síðustu ár verið áköf láglaunapólitík og bæjarstjórn hefur fylgt í blindni afar óbilgjarnri láglaunastefnu launanefndar sveitarfélaga og skiptir í engu hvert ástand efnahagsmála hefur verið hverju sinni – í hinum mestu uppsveiflum fyrri ára var aldrei ráðrúm til leiðréttinga. Ég hef oft sagt að Hafnarfjarðarbær sé heilagri en páfinn í þessum efnum. Það helgast m.a. af því að starfsmannastjóri bæjarins um áraraðir var og er formaður launanefndar sveitarfélaga sem stundum er kallað skussabandalagið sökum fyrrgreindrar launastefnu sinnar. Um „launastefnu“ þessa má hafa uppi mörg orð sem ekki verður gert að sinni.

Því miður var horfið frá stefnu sem Guðmundur Árni Stefánsson fv. bæjarstjóri innleiddi með dyggum stuðningi Magnúsar Jóns Árnasonar, stefnu sem markaði ríkan skilning á málefnum starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar enda var það þannig í þeirra tíð að STH félagar voru í efstu viðmiðum hvað varðaði laun bæjarstarfsmanna í landinu og bæði bæjaryfirvöld og STH voru sammála um þá launastefnu enda í anda alvöru starfsmannastefnu. Svipaðri stefnu hafa bæjaryfirvöld í Garðabæ undir forystu Gunnars Einarssonar bæjarstjóra fylgt til margra ára . Að vera í efstu viðmiðum, í kerfi sem er ekki dýrt í eðli sínu, kostar hlutfallslega ekki mikið en gefur margfalt til baka, ekki síst fyrir viðkomandi bæjaryfirvöld. Skilaboð til starfsmanna eru skýr og þau sýna í verki alvöru starfsmannastefnu og jákvætt viðhorf til starfsmanna og mikilvægra starfa þeirra. Því miður hafa bæjaryfirvöld og eða fulltrúar þess ekki haft gæfu til þess að halda kúrs en oft leitað í farveg harðra átaka og með því sparað aurinn en kastað krónunni. Það er því og verður ærið verkefni fyrir stjórn Starfsmannafélags Hafnarfjarðar nú sem fyrr og eitt og sér að eiga við Bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

Það er því alvarleg staða ef stjórn STH nennir ekki að vera stjórn STH eða treystir sér ekki til þess og ef svo er komið málum þá á hún einfaldlega að segja af sér og gefa öðru fólk kost á að taka við. Verkefni eru ærin og ekki síst á tímum eins og þessum og þau felast ekki í því að setja rassinn upp í vindinn, hrekjast undan afar ósanngjarnri launastefnu Hafnarfjarðarbæjar og gefast upp. Að leggja niður Starfsmannafélag Hafnarfjarðar yrði stórslys og því verður að afstýra. Hvet allt það ágæta fólk sem myndar STH til þess að sjá til að svo verði ekki.

miðvikudagur, 2. júní 2010

Af hægrisinnuðum vændiskonum

Nú hefur argumentasjón Hannesar Hólmsteins risið í hæðstu hæðir sbr. þessi nýjust skrif hans:

„Þess vegna voru — og eru — styrkir fyrirtækja, stórra og smárra, til Sjálfstæðisflokksins eðlilegir, því að hann er einn flokka hlynntur frjálsu atvinnulífi, hagstæðu almennu umhverfi fyrir atvinnufyrirtæki. Á sama hátt voru — og eru — styrkir, sem stjórnendur almenningshlutafélaga veita vinstri flokkum og vinstri mönnum, óeðlilegir. Hið eina, sem vakir fyrir stjórnendum almenningshlutafélaga með slíkum styrkjum, er að kaupa einstaka menn eða flokka til einhvers, sem ekki er í samræmi við yfirlýsta vinstri stefnu þeirra
“( Hannes Hólmsteinn , Pressan 2010).

Ef þessi undarlega „hugmyndafræði“
prófessorsins er sett í feminiskt samhengi þá er ljóst að hægri sinnaðar vændiskonur og ömurlegar aðstæður þeirra eru ekki félagslegt vandamál eins og almennt er álitið þar sem þær kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Í því tilfelli fara "eðlilegar" hugmyndir „kaupandans“ vel saman við stjórnmálskoðun vændiskonunnar og því orðið að „eðlilegum“ samskiptum tveggja aðila. Í þessu tilfelli er því fullkomlega óeðlileg að nefna vændiskonuna vændiskonu þar sem hagsmunir hennar og kaupandans fara saman. Hinn hugmyndafræðilegi grunnur vændiskonunnar hefur því „automatiska“ syndaaflausn.

Því er ekki fyrir að fara ef vændiskonan er vinstri sinnuð, það er öllu verra, svo ég tali nú ekki um ef hún kýs Vinstri græna. Þá erum við að tala um fullkomlega ósiðlegt athæfi þar sem skoðun vændiskonunnar á vændinu fer ekki saman við hagsmuni „kaupandans“. Hún er jafnvel í mikilli neyð að vinna gegn eigin prinsippum og haldin "óeðlilegum" skoðunum að mati "kaupandans". Hin vinstri sinnaða vændiskona er því syndum hlaðið félagslegt vandamál og „kaupandinn“ á ekki að eiga „viðskipti“ við fólk að þessu tagi.

Ergo vændi er einungis "réttlætanlegt" svo fremi sem vændiskonan sé hægrisinnuð. Eða spilla bara spilltir spilltum? Ultra frjálshyggjan ríður ekki við einteyming.

sunnudagur, 30. maí 2010

Sem endranær þá sigruðu allir

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðum stjórnmálamanna eftir sveitarstjórnarkosningarnar. Sem endranær sigurðu allir í þessum kosningum! Ég velti fyrir mér í fullri alvöru hvort  stjórnmálmennirnir sjálfir trúi þessu bulli sínu ?  Og ef svo er, er þá hægt að treysta á að mat þeirra á öðrum mikilvægum viðfangsefnum samtímans sé ekki byggt á sömu ranghugmyndum? Eða er það kannski raunin? Veit það ekki en "Pollyönnu heilkenni" margra íslenskra stjórnmálamanna er sennilega algert.  

Auðvitað eru það svona viðbrögð sem gera það að verkum að tiltrú almennings á stjórnmálamönnum fer sífellt minnkandi. Tilvera almennings  er ekki samfelld sigurganga eins og "kosningasaga" stjórnmálamanna. Á milli þessara heima er af þessum sökum  breikkandi  gjá sem skynsamir stjórnmálamenn ættu að fyrirbyggja að þróist frekar . Að takast  á við lífsins sigra ... og töp af auðmýkt , æðruleysi og heilindum er hluti af tilverunni þ.m.t í pólitíkinni. Stjórnmálamenn sem ætlast til að þeir séu teknir alvarlega þurfa að gera sér grein fyrir þessu.

mánudagur, 17. maí 2010

Toblerone pólitík

Sótti  Svía heim um daginn. Þar er pólitíkin að komast á fullt enda þingkosningar í haust. Áhugi á pólitíkinni öllu meiri en hérlendis. Af því fer maður ekki varhluta enda umræður komnar á fulla ferð. „Go morgon“ þáttur sænska sjónvarpsins stendur fyrir ágætis umfjöllun, umræðan er hörð en málefnaleg sem er nokkurt nýmæli fyrir íslenskan áhugamann um stjórnmál.

Sem endranær telja hægri menn mikilvægast að lækka skatta enn frekar og á sama tíma telja kratarnir mjög mikilvægt að gæta hófs í þeim efnum enda þjóni skattalækkanir helst hagsmunum þeirra sem meira eiga sín í samfélaginu. Margt kunnuglegt í umræðunni. Ungum frambjóðanda hægri manna varð það á að telja Monu Salin formann sænskra jafnaðarmann keyra „tobleronepólitík“! og vísað þá til þess er hún notaði opinbert greiðslukort í eigin þágu. Sá hinn sami var vart búin að sleppa orðinu þegar að hann var minntur á að menntamálaráðherra „hans manna“ hefði ekki greitt afnotagjöld útvarps og sjónvarps um langt skeið og að annar ráðherra hans flokks hrökklaðist einnig frá völdum þegar að upp komst að viðkomandi réð barnapíu í „svarta vinnu“.

Á íslenskan mælikvarða er þetta „smotterí“ en í Svíþjóð höfðu þessi mál afgerandi áhrif. Þó svo að Mona Shalin hafi að einhverju leyti náð sér á strik eftir að hafa sagt af sér öllum helstu vegtyllum í sænskri pólitík fyrir rúmum áratug þá mun þessi Toblerone pakki fylgja henni alla tíð og hefur í raun gert það að verkum að hún er fjarri þeim pólitíska styrk sem hún gæti búið yfir ef þetta mál hefði ekki komið upp. Sama á við um hina ráðherranna sem eru trausti rúnir og í raun búnir í pólitík.

Þegar að maður fer að bera þessi mál saman við íslenskan raunveruleika þá verður veröldin absúrd. Ekki veit ég hve mörg hundurð þúsund þúsund Tobelronepakkar eru á sveimi í einni eða annarri mynd í íslenskri pólitík og eða í viðskiptalífinu. Svo má böl bæta sem bent sé á annað verra er lykilatriði á Íslandi. Og svo er auðvitað það "að engin er sekur fyrr en að sekt er sönnuð", sem er einhverskonar sér íslenskt skálkaskjól. Ekki minnist ég þess að þessir sænsku stjórnmálamenn hafi verði sérstakt viðfangefni dómskerfisins? En svo má vel vera, en kjarni málsins hins vegar sá að þessir stjórnmálamenn voru algerlega rúnir trausti löngu áður en dómskerfið hafði kveðið upp nokkurn dóm.

laugardagur, 1. maí 2010

1. maí 2002

Var að taka til  á gamla tölvudiskinum mínum  og rakst þá á  1. maí ávarp frá 2002  sem ég skrifaði  í nafni  verkalýðsfélaganna í Hafnarfirði en ég var á þeim tíma formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar.
Ekki verður annað sagt en við höfum sterklega varað við þeirri þróunn sem leiddi okkur inn í mesta efnahagsvanda seinni tíma. Birti hér nokkrar glefsur úr ávarpinu 2002 af tilefni dagsins.
 
"...allt er þetta þó í afar öfugsnúið þegar að litið er til afkomutalna hinna ýmsu fyrirtækja í landinu. Olíufélögin,  sem láta dag hvern eins og olíuverð sé háð einstakri umhyggju félaganna fyrir velferð almennings og byggð á góðmennsku þeirra, sýna afkomutölur upp á hundruð milljóna í gróða. Útgerðafyrirtæki sýna hagnað sem nemur miljörðum króna. Fákeppni á ýmsum sviðum  sem og einokun skapa beinlíns jarðveg fyrir enn meiri  gróða einstakra fyrirtækja. Háir vextir og sívaxandi þjónustugjöld í bankakerfinu eru komnir út fyrir allt velsæmi og svona mætti lengi telja. Ekki var þetta hugmyndin um stöðugleika við gerð síðustu kjarasamninga á hinum hógværu nótum og ekki var þetta hugmyndin með fórnum launafólks nær allan tíunda áratug síðustu aldar í kjölfar þjóðarsáttarninnar. Fyrirtækin í landinu er stikkfrí í öllu sem heitir þjóðarsátt og hagsmunir eigenda og markmið hámarkságóða tekin fram fyrir þjóðaheill. Hvert dæmið á fætur öðru sannar slíkt svo ekki verður um villst. Grátbroslegt verður þó að teljast þegar forráðamaður erlendrar hamborgarkveðju hér á landi seilist á ystu nöf röksemdanna er hann  telur skýringu á hinni afar háu verðlagningu fyrirtækisins hérlendis vera háann launakostnað?"

Og síðar

"Oft er deilt á hinn opinbera geira. Oftast að ófyrirsynju en stundum með réttu. Dæmin sanna þó að í þeim tilfellum sem það á rétt á sér þá eru hin opinberu fyrirtæki fyrst og fremst fórnarlöm misvitra stjórnmálamanna og eða umboðsmanna þeirra. Opinberir starfsmenn sinna afar mikilvægum og verðmætum störfum , svo verðmætum að hagsmunahópar ýmsir eru reiðubúnir til að seilast ansi lagt í að komst yfir þau verðamæti sem hinir s.k. opinberu starfsmenn skapa. Einkavæðing í anda nýfrjálshyggju eru grímulaus tilflutningur verðmæta samfélagsins til fárra útvaldra. Einkavæðing hefur hvergi leitt til lækkandi gjaldskrá til almennings. Og þrátt fyrir viðvörunarbjöllur hringi víða um veröldina varðandi afar og algerlega misheppnað ráðgerðir af þessu tagi, þá er í engu slegið af hér á landi og fremur gefið í en slakað á. Ný lög um Vatnsveitur sem og frumvarp til nýrra raforkulaga gefa tóninn um áframhaldandi óráðsíu í þessa veru. Grundvallarspurningu eins og t.d. um hvað samkeppni Vatnsveitur muni eiga í og við hverja er ósvarað en nokkuð ljóst að um einkarekna einokun verður að ræða. Einkaframkvæmdir á hafnfirska vísu eru og munu reynast dýrkeyptar og tryggja áframhaldandi há gjöld á bæjarbúa. Umhugsunarvert er að eignarmyndun þrátt fyrir há framlög er nánast enginn? Einkavæðing hefur því og mun leiða með beinum og óbeinu hætti til minnkandi kaupmáttar. Sem fyrri daginn mun hin almenni launamaður sitja í súpunni."

Svo mörg voru þau orð.

fimmtudagur, 22. apríl 2010

Semi sorry

... er sennilega það "hugtak" sem  passar best um hin iðrandi "athafnaskáld" og skrif þeirra í fjölmiðla þessi dægrin. Virkar illa þar sem flest af þessu er samið af mönnum sem Jónas Kristjánsson fv ritstjóri  kallar með réttu "blaðursfulltrúa". Einbeittur og einlægur brotvilji, undanskot, skattsvindl og ólöglegir og siðlausir viðskiptahættir liðina ára eru í hróplegu ósamræmi við þessi skrif.  Þess vegna gera þessi undarlegu bréfakorn ekkert fyrir almenning en þjóna fyrst og fremst þeim tilgangi að viðkomandi bréfritarar, eða réttara sagt umbjóðendur þeirra, ástunda einhverja opinbera sjálfssefunn um að þrátt fyrir allt séu viðkomandi hinir vænstu menn en illu heilli leiksoppar ríkjandi aðstæðna?

Íslenskt samfélag þarf síst af öllu á svona "tilfinningaklámi" að halda.

mánudagur, 19. apríl 2010

Rétt spá ...en vitlaust fjall / fjöll

Setti inn eftirfarandi pistil í byrjun árs og gerðist þar með semispámaður ...  eða hvað? Stutt í Heklugos ? Eru ekki 100 km vel innan skekkjumarka?
http://addigum.blogspot.com/2010/01/stutt-i-heklugos.html

sunnudagur, 11. apríl 2010

Allir skipta máli

Málþing útskriftarnema við Háskóla Íslands í Tómstunda- og félagsmálafræði

Miðvikudaginn 14.apríl næstkomandi kl. 12.00 verður haldið Málþing í Bratta, (Kennaraháskólinn) við Stakkarhlíð. Þar munu útskrifanemar flytja lokaverkefnin sín til B.A. prófs. Húsið opnar kl 11:45 og ráðstefnuna setur Trausti Jónsson Íþrótta-og tómstundaráðgjafi frá Þjónustumiðstöð Vesturbæjar.

Dagný Gunnarsdóttir – Tómstundir og unglingar með hegðunarröskun, hafa tómstundir áhrif á hegðun þeirra?
Hrafnhildur S. Sigurðardóttir – Tómstundir og stóriðja
Björg Óskarsdóttir – Áhrif Eden hugmyndfræðinnar á lífsgæði aldraðra
Agnar Trausti Júlíusson – Saga félagsmiðstöðva á Suðurnesjum
Gunnlaugur Víðir Guðmundsson – Námskeið fyrir ungt fólk án atvinnu
Eydís Bergmann Eyþórsdóttir – Tómstundir fyrir aldraða í Stykkishólmi
Jóhanna Aradóttir – Æskulýðsstarf innan Þjóðkirkjunar

Hlé kl.14.00 – 14.20

Kristín Ómarsdóttir – Götusmiðjan meðferðarúrræði fyrir unglinga
Bryngeir Arnar Bryngeirsson - Skotveiði
Helena Sif Zophoníasdóttir- Gönguleiðir.is
Heba Shahin– Mitt annað heimili: Tveir menningarheimar
Linda Birna Sigurðardóttir - Vinartengsl heyrnaskertra
Helga Þórunn Sigurðardóttir –Lög um áfengisauglýsingar - hugsanleg áhrif áfengisauglýsinga á börn og unglinga
Laufey Inga Guðmundsdóttir– Tómstundir í Árborg fyrir og í kreppu
Jóhanna Björt Guðbrandsdóttir- Hópastarf í Fjölsmiðjunni

Málþing lýkur 16:10

Allir velkomnir

Söngvakeppni framhaldsskólanna - Sigurlagið

laugardagur, 3. apríl 2010

Frábærar Músíktilraunir

Það verður aldrei ofmetið hið menningarlega gildi sem Músíktilraunir hafa. Í hart nær þrjá áratugi hefur þessi hátíð verið vettvangur fyrir unga tónlistarmenn. Margt af okkar besta tónlistarfólki hefur þarna stigið sín fyrstu spor og margir vart af barnsaldri er þeir koma fyrst fram. Hitt húsið og ÍTR hafa sem framkvæmdaaðilar staðið sig afar vel.  Tæknimál sem og önnur umgjörð er ávallt til fyrirmyndar. Unga fólkið flytur sína tónlist við bestu hugsanlegu skilyrði sem sýnir virðingu og hug ÍTR og Hins Hússins gagnvart listsköpun allra þeirra ungmenna sem taka þátt í hátíðinni sem og gangvart æskufólki almennt.

Undanfarin ár hefur úrslitakvöldinu verið útvarpað um land allt, auk þess sem að sjónvarpið hefur tekið hátíðina upp og sýnt síðar. En helstu styrktaraðilar eru Icelandair FÍH og RÚV (Rás2).

Það er gleðilegt að RÚV útvarpi Músíktilraunum enda er þetta úrvalsútvarpsefni sem nýtur vinsælda yngstu kynslóðarinnar. Hins vegar skýtur nokkuð skökku við að þessi beina útsending sé af hálfu RÚV kostuð af þriðja aðila með endalausum áfengisauglýsingum eins og raun var s.l. laugardag 27/3. Áfengisauglýsingar eru boðflennur í tilveru barna og unglinga og sorglegt að þær séu í boði eða á ábyrgð RÚV á annars eins góðum viðburði og Músíktilraunir eru.   Því miður hefur RÚV sýnt dæmalaust smekkleysi með sífeldum brotum á lögum um bann við áfengisauglýsingum og ekki síst í kringum dagskrá sem höfðar sérstaklega til barna og unglinga. Slíkt getur ekki verið markmið Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur eða Hins hússins með samstarfi við RÚV enda stefna ÍTR til fyrirmyndar eins og fram kemur í  samhljóða bókun stjórnar ÍTR frá 11/12 2009 :
„Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur hvetur framleiðendur og innflytjendur bjórdrykkja og fjölmiðla til að hætta birtingu auglýsinga á slíkum drykkjum, því ljóst má vera að tilgangurinn er að auglýsa áfenga drykki jafnvel þótt í einhverjum tilvikum sé gerð tilraun til að koma lögmætum stimpli á auglýsingar með lágum áfengisprósentutölum. Auglýsingum þessum virðast mörgum hverjum ætlað að ná til ungs fólks og þær vinna gegn forvörnum í áfengismálum.“;

Því miður virðist yfirstjórn RÚV og markaðsdeild þessa opinbera fyrirtækis allra landsmanna ekki gera sér nokkra grein fyrir samfélagslegri ábyrgð sinni. Með virðingarleysi sínu gagnvart lögvörðum réttindum barna og unglinga en í nánum og innilegum samskiptum við áfengisframleiðendur og hagsmuni þeirra hefur RÚV í raun fyrirgert rétti sínum til að taka þátt í eins merkilegu fyrirbæri og Músíktilraunir eru. Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum hvetja þá ágætu stofnum ÍTR sem og Hitt húsið til þess að efna til samstarfs við aðila sem bera hag æskunnar fyrir brjósti fremur en  þá aðila sem  láta ýtrustu  viðskiptahagmuni ráða för, „hagsmuni“ sem auk þess eru hvorki löglega né siðlega boðlegir.

fimmtudagur, 1. apríl 2010

Forstöðumaður samfélagsmála

Fékk þær ánægjulegu fréttir að Geir Bjarnason vinur minn forvarnarfulltrúi í Hafnarfirði  muni þiggja nýtt embætti hjá Hafnarfjarðarbæ núna um mánaðarmótin, starf forstöðumanns samfélagsmála. Miklivægt embætti sem mun að öllu óbreyttu þjóna víðtæku hlutverki hvað varðar samstillt átak til þess að samræma þjónustu ýmissa deilda og stofanna bæjarins og ekki síst með sameiningu þeirra í huga. Menningar- íþrótta- ferða- félags- forvarnar- og æskulýðsmál og jafnvel skólamál ku vera þeir málaflokkar sem rætt er um að sameina. Hljómar vel og í samræmi við ráðgjöf Capasent Gallup sem sagan segir að hafi verið með í ráðum. Verður athyglisvert að fylgjast með þessum breytingum sérstakleglega í ljósi þess að skipulagsbreytingar hjá Hafnarfjarðarbæ hafa oft á tíðum verið umdeildar.

sunnudagur, 28. mars 2010

Skrifstofuvæðing æskulýðsmála í Hafnarfirði?


Í haust (2009) skunduð um 700 hafnfirsk ungmenni niður á Ráðhúsplan og mótmæltu einum rómi verulegum niðurskurði á fjárveitingum til starfsemi félagsmiðstöðva hér í bæ. Þetta var í senn gleðilegt og dapurlegt. Gleðilegt í þeim skilning að unglingar komi skoðunum sínum á framfæri og nýti sér lýðræðislegan rétt sinn til að tjá sig sem og réttinn til að mótmæla þegar að þeim fannst á hlut þeirra gengið. Dapurlegt að bæjaryfirvöld hafi gefið hagsmunum unga fólksins lítinn gaum með sífelldum niðurskurði fjárveitinga til félagsmiðstöðva í bænum.

Á krepputímum breytist margt. Eitt af því eru tómstundir og ekki síst tómstundir barna og unglinga. Lykilbreytur eru kostnaður . Þátttaka í dýrari tómstundatilboðum snar minnkar og þátttaka í ódýrari eða ókeypis þjónustu eykst sé slíkt í boði. Þó svo að æfingagjöld hjá íþróttafélögum séu niðurgreidd af bæjaryfirvöldum, sem er afar gott, þá er erfitt fyrir marga foreldra að fjármagna það sem til fellur aukalega s.s. búnaður, búningar, ferðakostnaður, mótsgjöld o.fl í þessum dúr allt eftir eðli starfsemi. Breytingar verða því þær, ef ekki er við brugðist, að þá finni ungviðið orku sinni annan farveg en í uppbyggilegri starfsemi. Viðkvæmasti hópurinn í þessum efnum er hin s.k ófélagsbundna æska. Því miður kennir reynslan okkur, bæði hvað varðar reynslu Finna og ekki síst ýmislegt sem átti sér stað í efnahagsdýfunni miklu hérlendis um miðjan tíunda áratug síðust aldar. Má þar nefna aukna unglingadrykkju , landasölu o.fl.

Til þess að mæta þessu ástandi þá þarf m.a. að efla starfsemi félagsmiðstöðva, styrkja fagmennsku, auka opnunartíma og auka möguleika unglinga til uppbygglegra tómstundastarfa í bæjarfélaginu. Þess vegna stingur í stúf að en á ný skulu koma fram tillögur sem fela í sér skerðingu á þjónustu við börn og unglinga í bæjarfélaginu hvort sem litið er til starfsemi eða fagmennsku. Í haust voru lagðar fram tillögur verkefnisstjóra æskulýðsmála um skipulagsbreytingar að frumkvæði íþrótta- og tómstundanefndar. Þær tillögur féllu sem kunnugt er í grýttan jarðaveg. Í kjölfarið var skipaður starfshópur sem fékk að það afmarkaða verkefni að endurvinna þegar fram komnar og afleiddar hugmyndir að virðist?

Eins og fram kemur í „nýju“ tillögunum þá segir þar berum orðum að segja eigi upp öllum forstöðumönnum félagsmiðstöðva og einungis endurráða þrjá sem yrðu þá forstöðumenn sem eftirleiðis kallast „svæðisstjórar“ yfir 2-3 félagsmiðstöðum? Í félagsmiðstöðvum sjálfum starfi eftirleiðis „verkefnastjórar“ sem ekki verði gerðar kröfur um að uppfylli nein sérstök skilyrði um menntun? Með þessu tapast a.m.k. tvennt. Í fyrsta lagi er fagfólk, menntun þeirra og dýrmæt reynsla fjarlægð af vettvangi og starfsmönnum á gólfi fækkar. Í öðru lagi er farið með menntunarkröfur til starfsmanna í félagsmiðstöðvum áratugi aftur í tímann. Í raun er því hér um verulegan niðurskurð að tefla hvort sem litið er til fjármuna eða faglegar sjónarmiða. Sem fyrr er gengið út frá því að tilraun í þessa veru í Áslandshverfi (sem engin hefur tekið út formlega) hafi gengið vel ? Með þessum tillögum er verið að flytja þrjá starfsmenn í stjórnsýslustörf á skrifstofu æskulýðsmála sem þarf ekki á slíku að halda enda þegar þrír starfsmenn þar fyrir? Félagsmiðstöðvar í Hafnarfirði verða með þessum breytingum ekki tækar til þess að taka að sér vettvangsnema í tómstunda- og félagsmálafræðum frá Háskóla Íslands. Starfsemin uppfyllir ekki lágmarkskilyrði um menntun starfsmanna til að taka að sér leiðsögn nema. Maður furðar sig á þessum tillögum og veltir jafnframt fyrir sér hvort búast megi við sambærilegum tillögum varðandi aðrar stofnanir bæjarins s.s. leik- og grunnskóla? Eiga tveir þrír leikskólar að fara undir forsjá eins leiksskólastjóra. Hvar er fagmennskan -eru börn og unglingar afgangsstæð?

Einhver skrifstofuvæðing æskulýðsmála er ekki verkefni dagsins, þau eru einfaldlega þau að auka eins og frekast er kostur starfsemi með börnum og unglingum í nærumhverfi þeirra. Hjá ITH starfa margir frábærir starfsmenn og stefna bæjaryfirvalda ætti fyrst og fremst snúast um að skapa forsendur fyrir ennþá betra starfi á vettvangi . Fyrirliggjandi skipulagstillögur hafa lítið með það að gera. Eftir stendur að rúmlega 700 ungmenni tjáðu hug sinn í verki á haustmánuðum. Í Hafnarfirði, bæ hins virka íbúalýðræðis verða menn að bregðast við slíku. "Hinn rétti mælikvarði á stöðu þjóðar er hversu vel hún sinnir börnunum." (UNICEF, 2007).

Grein þessi birtist í Fjarðarpóstinum 25.mars 2010 - www.fjardarposturinn.is

þriðjudagur, 23. mars 2010

Pravdisk fyrirsögn RÚV

RÚV útvarp og sjónvarp "allra landsmanna" hefur margsinnis þverbrotið lög um bann við áfengisauglýsingum sem eru í fullu gildi.

Þegar að fram kemur frumvarp Ögmundar Jónassonar og Þuríðar Backman sem skerpir lögin sem þegar hafa annars mjög skýran siðferðilega boðskap og anda, þá er fyrirsögn á heimasíðu RÚV um málið "Vill banna áfengisauglýsingar" ?

Hugsa um jólakveðju RÚV til barna og unglinga í landinu síðastliðin jól í formi síendurtekinar teiknimyndar um drykkfellda jólasveininn á sleða sínum sem gat ekki sinnt mikilvægum störfum sínum í aðdraganda jólanna þar sem hann fór að eltast við áfengisflutningabíl sem var fullur af "léttöli" sem er ekki til!

Sorglegt að yfirstjórn RÚV og þessi s.k. markaðdeild þess skynji ekki og eða skilji ábyrgð sína gangvart lögvörðum réttindum barna og unglinga í landinu.