laugardagur, 3. apríl 2010

Frábærar Músíktilraunir

Það verður aldrei ofmetið hið menningarlega gildi sem Músíktilraunir hafa. Í hart nær þrjá áratugi hefur þessi hátíð verið vettvangur fyrir unga tónlistarmenn. Margt af okkar besta tónlistarfólki hefur þarna stigið sín fyrstu spor og margir vart af barnsaldri er þeir koma fyrst fram. Hitt húsið og ÍTR hafa sem framkvæmdaaðilar staðið sig afar vel.  Tæknimál sem og önnur umgjörð er ávallt til fyrirmyndar. Unga fólkið flytur sína tónlist við bestu hugsanlegu skilyrði sem sýnir virðingu og hug ÍTR og Hins Hússins gagnvart listsköpun allra þeirra ungmenna sem taka þátt í hátíðinni sem og gangvart æskufólki almennt.

Undanfarin ár hefur úrslitakvöldinu verið útvarpað um land allt, auk þess sem að sjónvarpið hefur tekið hátíðina upp og sýnt síðar. En helstu styrktaraðilar eru Icelandair FÍH og RÚV (Rás2).

Það er gleðilegt að RÚV útvarpi Músíktilraunum enda er þetta úrvalsútvarpsefni sem nýtur vinsælda yngstu kynslóðarinnar. Hins vegar skýtur nokkuð skökku við að þessi beina útsending sé af hálfu RÚV kostuð af þriðja aðila með endalausum áfengisauglýsingum eins og raun var s.l. laugardag 27/3. Áfengisauglýsingar eru boðflennur í tilveru barna og unglinga og sorglegt að þær séu í boði eða á ábyrgð RÚV á annars eins góðum viðburði og Músíktilraunir eru.   Því miður hefur RÚV sýnt dæmalaust smekkleysi með sífeldum brotum á lögum um bann við áfengisauglýsingum og ekki síst í kringum dagskrá sem höfðar sérstaklega til barna og unglinga. Slíkt getur ekki verið markmið Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur eða Hins hússins með samstarfi við RÚV enda stefna ÍTR til fyrirmyndar eins og fram kemur í  samhljóða bókun stjórnar ÍTR frá 11/12 2009 :
„Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur hvetur framleiðendur og innflytjendur bjórdrykkja og fjölmiðla til að hætta birtingu auglýsinga á slíkum drykkjum, því ljóst má vera að tilgangurinn er að auglýsa áfenga drykki jafnvel þótt í einhverjum tilvikum sé gerð tilraun til að koma lögmætum stimpli á auglýsingar með lágum áfengisprósentutölum. Auglýsingum þessum virðast mörgum hverjum ætlað að ná til ungs fólks og þær vinna gegn forvörnum í áfengismálum.“;

Því miður virðist yfirstjórn RÚV og markaðsdeild þessa opinbera fyrirtækis allra landsmanna ekki gera sér nokkra grein fyrir samfélagslegri ábyrgð sinni. Með virðingarleysi sínu gagnvart lögvörðum réttindum barna og unglinga en í nánum og innilegum samskiptum við áfengisframleiðendur og hagsmuni þeirra hefur RÚV í raun fyrirgert rétti sínum til að taka þátt í eins merkilegu fyrirbæri og Músíktilraunir eru. Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum hvetja þá ágætu stofnum ÍTR sem og Hitt húsið til þess að efna til samstarfs við aðila sem bera hag æskunnar fyrir brjósti fremur en  þá aðila sem  láta ýtrustu  viðskiptahagmuni ráða för, „hagsmuni“ sem auk þess eru hvorki löglega né siðlega boðlegir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli