fimmtudagur, 29. júlí 2004

Tóbakssalar og Davíð Oddsson

Orð í tíma töluð, þó langt sé um liðið.  Á sér hliðstæðu í "markaðsátaki" bjórbransans í dag.

Fundur Æskulýðsráðs Reykjavíkur, dagurinn er þriðjudagurinn 22. febrúar á því herrans ári 1977. Dagskráliður 7.

"Rætt um auglýsingaherferð tóbaksseljenda sem stendur yfir. Formaður ráðsins, Davíð Oddsson, lagði fram eftirfarandi tillögu:

"Æskulýðsráð Reykjavíkur fordæmir þá herferð, sem hafin er í þeim tilgangi að hvetja m.a. ungt fólk til tóbaksnotkunar. Hvetur ráðið sérhvern borgara að gera sitt til þess að slík herferð renni út í sandinn, svo hún nái ekki að vinna það tjón, sema henni er ætlað.”

Tillagan var samþykkt samhljóða. Jafnframt var framkvæmdastjóra falið að beina þeim eindregnu tilmælum til kaupmanns þess, er verslun rekur í Skaftahlíð 24 ( við Tónabæ) , að hann fjarlægi tóbaksauglýsingar úr gluggum verslunarinnar".

Tek sérstaklega ofan fyrir formanninum fyrir þessa skeleggu bókun. Þurfum nokkrar svona bókanir og viðbrögð í dag gegn auglýsingaherferðum í áfengisbransanum, auglýsingar sem að langstærstum hluta er beint gengdarlaust á börn og ungmenni. Fara því miður yfir strikið átölulaust um þessar mundir, bæði siðferðilega og ekki síst lagalega. Vona hins vegar að það fari fyrir þeim eins og fór fyrir tóbaksauglýsingunum, hverfi, og þangað til að svo verður þá hvet ég fólk til þess að sýna hug sinn í verki og sniðganga auglýstar áfengistegundir

mánudagur, 26. júlí 2004

Sígarettu & "léttöls"auglýsingar

Sígarettuauglýsingar voru hér áður fyrr alsiða í íslenskum blöðum. Rakst reyndar á nokkrar  er ég var að grúska í gömlum dagblöðum á Þjóðskjalasafninu í dag. Svei mér þá það mátti hreinlega halda að retturnar öllum nöfnum sem þær hétu nú væru bara hreinlega meinhollar, þær voru með “bezta ilminn” og ég veit ekki hvað og hvað. Er það nema furða að blessaðir unglingarnir í þá tíð hæfu reykingar fyrr en ella undir þessum dæmalausa boðskap auglýsinganna.

Datt þetta svona í hug þegar að ég sá Kastljós sjónvarpsins í kvöld og varð vitni að því þegar að forsvarsmaður auglýsingabransans gerði m.a. lítið úr merkri BA ritgerð í sálarfræði frá Háskóla Íslands um áhrif hinna s.k. “léttbjórs” auglýsinga á ungt fólk þar sem fram kemur að 95 % þeirra sem sjá viðkomandi “auglýsingar” taka þær (með réttu ) sem bjórauglýsingar.
Forsvarsmaðurinn hélt því fram að það væri lítið að marka þessa merku rannsókn þar sem  ekki væru um “orsakasamband” að ræða?  Við hvað veit ég ekki. Dettur helst í hug að það sé við það að 100 % af unglingum sem sjá þessar auglýsingar fara ekki í meðferð. Í því samhengi mælir forsvarsmaðurinn af “dýpt” og sannfæringu, þó svo að það eigi ekkert skylt við hefðbundna aðferðafræði.

Mér fannst sami ilmur af þessum málflutningi og mér finnst af hinu illa þefjandi reykjarkófi frá sígarettum, sem þó auglýsingabransinn fyrir gnægð fjár reyndi á árum áður að sannfæra ungt fólk um að væri góður.

Hvet alla sem þetta lesa til að sýna hug sinn í verki og sniðganga auglýstar áfengistegundir. Lög um bann við áfengisauglýsingum eru fyrst og fremst komin til vegna velferðarsjónamiða og eru lög um vernd barna og ungmenna, alveg á sama hátt og sígarettuauglýsingar. Dapurlegt að sjá auglýsingabransann taka þátt í að misvirða rétt barna og ungs fólks til að fá að vera í friði fyrir áreyti af þessu tagi.
Hvort vegur þyngra velferð barna og unglinga eða “frelsi” áfengisframleiðenda?


þriðjudagur, 20. júlí 2004

Tóm leiðindi

hafa þetta verið undanfarin misseri í þjóðmálunum og fjarskalega vont fyrir þjóðarsálina. Finnst lítið til koma til þeirra sem gera lítið úr okkar ágæta forseta og finnst sorglegra en tárum taki að lesa og heyra gegndarlausan óhróður "valinkunnra menntamanna".  Í mínum fræðum, uppeldis- og menntunarfræðum, mun hegðun af þessu tagi ótvírætt flokkast undir einelti. Mér finnst lítið til koma til þeirra sem  tala niður til almennings í landinu af hroka og dónaskap.
 
Finnst óviðeigandi að ríkistjórn landsins gangi fram fyrir skjöldu í því að misvirða stjórnarskrá landsins. Og mér þykir miður hve ódrengilega menn taka niðurlagi og með þvílíkum hótunum í garð okkar ágæta forseta Íslands.
 
Ísland er ekki hlutfélag þar sem barist er um áhrif eftir ráðandi eignarhlut. Ráðandi "hluthafar" geta hvorki deilt og drottnað né vaðið áfram eins og þeim sýnist.
Ísland er samfélag og sem betur fer sannar þetta  fjölmiðlafrumvarpsbrölt að þrátt fyrir allt virkar lýðræðið, sem betur fer.
 
Það sem eftir stendur er að ríkisstjórn landsins er rúin trausti. Ef markmið forsætisráðherra hefur einhvern tímann verið að gerast "landsföður" þá er hann sennilega eins langt frá því markmiðið og frekast komist verður.  
 
Vona samt að blessuð þjóðarsálin fari að hressast, ekki veitir af og hver veit nema  "strákarnir"  okkar í handboltanum reddi þessu, geri góða hluti á Ólympíuleikunum og allir verða ein þjóð - handboltaþjóð ?     

mánudagur, 19. júlí 2004

Sumarhús STH við Stykkishólm

Brá mér á Snæfellsnesið um helgina í góðra vina hóp, sem er nú vart í frásögu færandi, nema af því einu að á heimleiðinni kom ég við Stykkishólmi til þess að kíkja á hvernig framkvæmdum við nýtt sumarhús okkar STH félaga líður. 

Því er skemmst frá að segja að húsið verður tilbúið síðsumars. Búið er að koma húsum Starfsmannafélags Kópavogs og Garðabæjar fyrir á sínum stöðum. Við létum endurbæta teikningar með dyggri aðstoð STH félaga í tæknigeiranum. Seinkar aðeins málum en fyrir vikið fáum við frábært hús. Þetta er mjög veglegt hús, stórt, rúmgott og vel búið og ekki spillir glæsilegt  umhverfi og fallegt útsýni fyrir.

miðvikudagur, 14. júlí 2004

Saltvík 71

Er í miklu grúski þessa daganna og dvel á Borgarskjalasafninu í góðu yfirlæti. Þetta er fínt safn sem státar af afbragðs starfsfólki sem er boðið og búið við að sinna gestum safnsins. Var svo heppnin að taka þá greindarlegu ákvörðun að hefja nám við framhaldsdeildina í Kennaraháskóla Íslands fyrir tveimur árum. Er sem sagt að grúska í sögu íslenskra félagsmiðstöðva og freista þess að koma henni í vísindalegt horf. Eins og verða vill þá rekur á fjörur manns ýmis fróðleg gögn.

Eitt af því sem vakið hefur athygli mína eru gögn sem fjalla um hina frægu hátíð Saltvík 71. Einhvern vegin finnst mér sem að sagan hafi farið ómaklega með þessa miklu rigningarhátíð, sérstaklega í ljós þess að Þórsmerkurhátíðir um hvítasunnuhelgar um miðjan sjöunda ártuginn þóttu ekki par fínar og ljóst að Saltvíkurhátíðin var eins og sunnudagaskóli miðið við það sem á undan hafði gegnið. Það sama er upp á teningnum ef jafnað er við Uxa hátíðina sem fram fór fyrir nokkrum árum og varð fræg af endemum.

Saltvík 71 friður, spekt, flott músík, nokkurt kenndirí, en vandamál númer eitt, tvö og þrjú var afar leiðinlegt veður og vosbúð gesta af þeim sökum. Hef því trú á  og vona að sagan eigi eftir að setja hátíðina á verðugri stall en verið hefur er fram líða stundir.


mánudagur, 12. júlí 2004

Hafnfirska spilasveitin Runólfur

Hafnfirska spilasveitin Runólfur setti heimsmet í að spila Kamelljónið eftir Herbie Hancock. Bandið lék lagið samfellt í sex tíma á tennisvellinum á Víðistaðatúni s.l. laugardag. Fínt band sem bauð gestum og gangandi að spila með. Ekki slæmt að bjóða tónleikagestum að mæta á sviðið og spila með um stund. Flott band sem ber hafnfirskri tónlistaræsku gott vitni.

Í þeim efnum er einnig vert að minnast á Bararellurnar, frábært stelpuband sem fram komu í Gamla bókasafninu um daginn. Hörku rokkband með fjölbreytta hljóðfæraskipan , m.a fiðlu og blásara.

Góður tónlistarskóli + vettvangur til að æfa og spila á = gott tónlistarfólk, flott og fjölbreytt tónlistarlíf. Flóknara er það nú ekki.

miðvikudagur, 7. júlí 2004

"Eftir einn ei leiki neinn"

"Eftir einn ei leiki neinn" segir Andri vinur minn Ómarsson. Orð að sönnu og spurning hvort þessi vísu orð þurfi ekki að hafa í huga þegar að boltinn er annars vegar. Ef marka má boðskap Vífilfells þá er "fyllsta" ástæða til þess að vera á varðbergi gangvart drukknum leikmönnum. Þetta er jú hluti leiksins, ekki satt?

föstudagur, 2. júlí 2004

Einkavæddar járnbrautir

Einkavæddar Jarnbrautir her a nordur Jotlandi virka ekki vel. Fargjøld dyr og thjonusta litil sem engin, ferdir mjøg strjalar. By um 6 km fra motstad Ung i Norden og hef um ad ræda 10 ferdir a milli Bested og Hurup fra 06:30 - 23:30. Hef ekki hitt nokkra lifandi salu, en lesid tilkynningar um ad ekki se hægt ad kaupa mida um bord og ef madur er tekin midalaus um bord tha er sektin 500 d.kr. Upplysingar fast hvergi og midar eru keyptir i sjalfsala og bæir a hinu einkavædda svædi heita ekki lengur Hurup eda ødrum almennum bæjarnøfnum heldur 005 eda eitthvad annad tøluglidi. Vagnar gamlir og illa hirtir. Hinar vinalegu lestarstødvar med huggulegheitum a danska visu fyrir bi og standa yfirgefin eins og draugahus.

Af hverju ad kaupa eitthvad a 100 kr sem er ekki einu sinni 50 kr virdi. Af hverju ekki lata 100 kr vera 100 kronur. DSB jarnbrautirnar hinar rikisreknu hafa stadid sig med prydi i gegnum arin, trui ekki ødru en ad thetta lelega og omanneskjulega kerfi a nordur Jotlandi verdi til thess ad menn fari ser hægt i einkavædingunni. Betri thjonusta fyrir sama verd segja menn !!! , thvilik vitleysa og øfugmæli segi eg.