mánudagur, 26. júlí 2004

Sígarettu & "léttöls"auglýsingar

Sígarettuauglýsingar voru hér áður fyrr alsiða í íslenskum blöðum. Rakst reyndar á nokkrar  er ég var að grúska í gömlum dagblöðum á Þjóðskjalasafninu í dag. Svei mér þá það mátti hreinlega halda að retturnar öllum nöfnum sem þær hétu nú væru bara hreinlega meinhollar, þær voru með “bezta ilminn” og ég veit ekki hvað og hvað. Er það nema furða að blessaðir unglingarnir í þá tíð hæfu reykingar fyrr en ella undir þessum dæmalausa boðskap auglýsinganna.

Datt þetta svona í hug þegar að ég sá Kastljós sjónvarpsins í kvöld og varð vitni að því þegar að forsvarsmaður auglýsingabransans gerði m.a. lítið úr merkri BA ritgerð í sálarfræði frá Háskóla Íslands um áhrif hinna s.k. “léttbjórs” auglýsinga á ungt fólk þar sem fram kemur að 95 % þeirra sem sjá viðkomandi “auglýsingar” taka þær (með réttu ) sem bjórauglýsingar.
Forsvarsmaðurinn hélt því fram að það væri lítið að marka þessa merku rannsókn þar sem  ekki væru um “orsakasamband” að ræða?  Við hvað veit ég ekki. Dettur helst í hug að það sé við það að 100 % af unglingum sem sjá þessar auglýsingar fara ekki í meðferð. Í því samhengi mælir forsvarsmaðurinn af “dýpt” og sannfæringu, þó svo að það eigi ekkert skylt við hefðbundna aðferðafræði.

Mér fannst sami ilmur af þessum málflutningi og mér finnst af hinu illa þefjandi reykjarkófi frá sígarettum, sem þó auglýsingabransinn fyrir gnægð fjár reyndi á árum áður að sannfæra ungt fólk um að væri góður.

Hvet alla sem þetta lesa til að sýna hug sinn í verki og sniðganga auglýstar áfengistegundir. Lög um bann við áfengisauglýsingum eru fyrst og fremst komin til vegna velferðarsjónamiða og eru lög um vernd barna og ungmenna, alveg á sama hátt og sígarettuauglýsingar. Dapurlegt að sjá auglýsingabransann taka þátt í að misvirða rétt barna og ungs fólks til að fá að vera í friði fyrir áreyti af þessu tagi.
Hvort vegur þyngra velferð barna og unglinga eða “frelsi” áfengisframleiðenda?


Engin ummæli:

Skrifa ummæli