þriðjudagur, 30. desember 2003

Anno horrabillis?

Anno horrabillis ?
Nei en annasamt engu að síður. Skipulagsbreytingar reyndu á og vissulega margt í því ferli sem mun betur hefði mátt fara. Það sem hins vegar veldur undirrituðum nokkrum áhyggjum eru hin miklu, tíðu og kostnaðarsömu samskipti við lögfræðinga varðandi úrlausnir ágreiningsefna milli félagsins og bæjaryfirvalda.

Mál fyrrverandi félagsmálastjóra er búið að velkjast í kerfinu árum saman, ágreiningur um fæðingarorlofsgreiðslur er komið inn í dómskerfið, fyrirspurnum varðandi lífeyrismál og uppgjör réttinda við starfslok ekki svarað, svo dæmi séu nefnd. Allt eru þetta mál sem kosta mikla fjármuni og í raun umhugsunarefni hvers vegna þarf að fara með þessi mál svona langt.

Fyrir það fyrsta þá eru mál af þessu tagi dýr og í öðru lagi afar sérstætt ef bæjarfélag streitist á móti og sýnir mikla óbilgirni í málum sem fyrirfram verður að telja gjörtöpuð. Dæmi um slíkt er hinn afar skýri Hæstaréttardómur um á hvern veg fara á með greiðslur í fæðingarorlofi. Skilaboðin úr því máli eru óþægileg fyrir félagið. Til dæmis einfaldlega sú áleitna spurning ef félagið hefði setið með hendur í skauti, hefðu þá réttindi viðkomandi verið fótum troðin og er það þá stefna bæjarins að standa að slíku. Er það stefna bæjarins að greiða ekki fyrr en öll sund eru lokuð og þegar að búið er að eyða ómældu fé í lögfræðikostnað? Er ekki illa farið með takmarkað fé bæjarsjóðs og ekki síst, eru skilaboðin sem í þessu brölti felast samboðin virðulegu sveitarfélagi eins og Hafnarfjarðarbæ?

Launastefna
Hver er hin raunverulega launastefna bæjarins? Er hún að vísa öllu til launanefndar sveitarfélaga (LN). Væri ekki nær fyrir Hafnarfjarðarbæ að líta til bæjarfélaga eins og Reykjanesbæjar og Garðabæjar sem láta hina grjóthörðu láglaunastefnu LN sem vind um eyru þjóta og greiða sínu fólki að öllu jöfnu hærri laun en hin afar umdeilanlega stefna LN gerir ráð fyrir.
Væri það ekki nær heldur en að leggja sig í líma við og eyða ómældri orku í það að halda öllum launum í neðstu viðmiðum með tilheyrandi óánægju starfsmanna. Það er hægt að vinna þetta mun léttara eins og dæmin sanna.

Mín skoðun er einfaldlega sú að Hafnarfjarðarbær á að brjóta sig undan ofurvaldi LN og hreinlega hætta þátttöku í þessu bandalagi lægstu viðmiða. Ég tel reyndar lögfræðilegan vafa á því að bæjarstjórnir geti afsalað sér ákvörðunarrétti af þessu tagi til þriðja og óskylds aðila. Gæti Hafarfjarðabær með sama hætti afsalað forræði í skipulagsmálum?? Augljóslega ekki.. Mitt ráð er því - Út úr LN og því fyrr því betra. Vera bæjarins í LN og með forystuhlutverki þar á bæ, gerir það að verkum að Hafnfirsk launapólitík verður eins og skapalón fyrir grjótharða láglaunastefnu LN. Klókt ? - varla, og sennilega mjög óhollt pólitískt.

Rússneskt viðskiptasiðferði
Andsk... eru menn í vafasömum erindum í efnahagslífinu. Að formaður í Efnahags og viðskiptanefnd Alþingis, Pétur Blöndal sé aðalforsprakkinn í yfirtöku á Sparisjóði Reykjavíkur er ekki bara óviðeigandi heldur einnig algerlega siðlaust. "Rússneskt viðskiptasiðferði" að verða hin almenna regla hér á landi ?

Gleðilegt ár með þökkum fyrir samskiptin á árinu sem nú er að líða og með bestu óskum um far- hagsæld á nýju ári

þriðjudagur, 23. desember 2003

Gleðileg jól
Alvöru skata á Hansen í hádeginu , fanta sterk og fínt fyrir bragðlaukanna í aðdraganda hátíðarhaldanna. Óska lesendum öllum gleðilegra jóla

mánudagur, 22. desember 2003

Leiðindar Matador

Leiðindar Matador
er þetta íslenska efnahagslíf orðið. Bankarnir nánast komnir á tvær klíkur og öll mestu verðmæti leiksins komnar á fárra hendur. Taparar sem fyrr íslensk alþýða. Veit ekki hvert stefnir og hve mikið meira er hægt að kreista út úr spilinu áður en illa fer.

Frelsi hverra - veit það ekki - alla vega ekki launafólks sem hefur þvert á móti fjármagnað ný frjálshyggjuna ótæpilega í formi okurvaxta, þjónustugjalda, ofurverðlags, verðsamráðs og einokunar af margvíslegu tagi, svo ekki sé minnst á þær eigur samfélagsins sem nánast hafa verið gefnar burt í nafni einkavæðingar.

fimmtudagur, 18. desember 2003

Ábyrgðarlaust drasl

Ábyrgðarlaust drasl
Fjárfesti í bleksprautuprentara hjá BT í byrjun desember á síðasta ári (2002). Taldi mig gera góð kaupi,12.000 kall og tveggja ára ábyrgð. Rétt fyrir ársafmæli prentarans kveða við mikil óhljóð í honum þar sem ég er að prenta og ljóst að ekki er allt með felldu.

Fer með ábyrgðaskírteinið í annarri hendinni og prentarann í hinni á BT "verkstæðið" og segi farir mínar ekki sléttar, en viti menn tjónið ekki bætt þar sem það var ekki talið galli! Drasl segi ég á móti og held því fram að prentari sem ekki þolir tæplega ársnotkun sé auðvitað meingallaður. Það er ekki mat BT en mín niðurstaða þessi: Dýrt drasl sem ekkert endist og léleg þjónusta.

mánudagur, 15. desember 2003

Starfskjaranefnd fundaði í dag

Starfskjaranefnd fundaði í dag
og að vanda mörg mál á dagskrá. m.a. eftirlaunamál , óskir um endurmat á störfum , lífeyrismál, mat á iðnréttindum, umræður um starfsmat, vinnufyrirkomulag og launagreiðslur, breytt störf vegna stjórnsýslubreytinga m.m.

Stjórn skiptir með sér verkum
Á aðalfundi STH er kosinn formaður hverju sinni en öðrum verkum skiptir stjórn með sér og verkefni fyrsta stjórnafundar nýrrar stjórnar fólst m.a. í því. Sigríður Bjarnadóttir var kjörinn varaformaður, Haraldur Eggertsson gjaldkeri, Hallgrímur Kúld ritari og Geirlaug Guðmundsdóttir meðstjórnandi. Jafnframt var ákveðið að varamenn kæmu meira inn á fundi en verið hefur.

sunnudagur, 14. desember 2003

Bæjarstarfsmenn gera sér glaðan dag
Blessuð jólaglöggin eru í hámarki þessa daganna bæjarstarfsmenn á Strandgötu áttu góða kvöldstund saman á föstudag og starfsfólk skólanna hefur verið að hittast undir svipuðum formerkjum undanfarið. Fór að velta því fyrir mér hve andsk.... mikið er til að skemmtilegu fólki meðal bæjarstarfsmanna. Hinn hefðbundni ( en afar mikilvægi ) launablús víkur um stund. Dagsins amstur lagt til hliðar og fólk skemmtir sér nokkuð ærlega.

S.l. ár skrifaði sá sem þetta ritar grein á heimasíðu STH undir heitinu Húsbændur og hjú. Greinin vakti afar sterk viðbrögð má segja að höfundur hafi aldrei fengið jafn mikið hrós og jafn miklar skammir fyrir einn pistil ( Og kallar maður ekki allt ömmu sína í þeim efnum.) Greinin fjallaði um einhverskonar stéttarskiptingu varðandi framkvæmd á jólahlaðborði í ónefndri stofnun hér í bæ.

Hafnfirskir bæjarstarfsmenn eru bæði fáir og illa launaðir en eru jafnframt afar dugmiklir ef marka má statiskik Verslunarráðsins sem hér var gerð skil um daginn. Það er því afar mikilvægt að bæjarstjórnir á hverju tíma sýni hug sinn verki til starfsfólks. Að bjóða starfsmönnum sínum til málsverðar 2 -3 á ári er ein leið til þess, önnur afar góð væri að borga hærri laun og sú þriðja að fara ekki út í einhverskonar skipulagsævintýri og stjórnsýslubreytingar nema að afar vel athuguð máli og í fullu samráð við þá sem það snertir.

En sem sagt gott framtak varðað þeim vegvísi að starfmenn óháð starfi , menntun, kynferði ,þjóðerni , háralit og öllu því sem kann að draga fólk í dilka nú til dags, er látið lönd og leið og markmiðið það eitt að eiga góða kvöldstund saman. Fannst það hafa tekist og vona að svo hafi verið almennt á starfsstöðum bæjarins fyrir þessi jól.

fimmtudagur, 11. desember 2003

Leggja 400.000 kallinn snarlega inn aftu

Leggja 400.000 kallinn snarlega inn aftur
hjá Kaupþingi er mín ráðlegging til forsætisráðherra. Hann er algerlega einn af genginu og á auðvitað að hafa peningana sína á vísum stað eins og hitt sjálftökuliðið. Það er auðvitað með eindæmum að ríkistjórn sem lagst hefur í kerfisbundin slagsmál við sárafátæka öryrkja, ríkistjórn sem státar af láglaunapólitík sem á sé vart hliðstæðu þó svo að víða væri leitað, skuli gera sérlega veglegan starfslokasamning við forsætisráðherra og fjármagna ýmsar pólitískar hrókeringar í leiðinni.

Undir 100 þús
Á sama tíma og þessi sjálftökubísness á sér stað í þinginu þá eru félagar okkar í ASÍ að hefja kjarasamningaviðræður. Í þeirra röðum er fólk sem hefur vel innan við 100 þús laun á mánuði. Samningaviðræðum við þessar aðstæður er að sjálfsögðu sjálfhætt og öllum kröfugerðum pakkað niður enda úr öllum takti við fyrirliggjandi frumvarp. Kjarasamningar eru því í uppnámi og vandséð á hvernig stöðugleika verður viðhaldið þegar að s.k. landsfeður ganga fram með slíku fordæmi sem höfum orðið vitni af.

Reykingar i sprengjugeymslu!
Sá sem þetta ritar er ekki í nokkrum vafa að þessi gjörð þingsins var svipaðs eðlis og þess sem kveikir sér í sígarettu í sprengigeymslu. Menn ná nokkrum smókum en síðan fer allt í háaloft. Almenningi er misboðið í hverju málinu á fætur öðru undanfarið og ástandið í íslensku þjóðfélagi er eldfimt og lítið má út af bera svo ekki fari allt í bál og brand.

Bara tveir möguleikar
Það er því bara tvennt í stöðunni og það er að landsfeður gangi fram fyrir skjöldu með góðu fordæmi og taki af einhverju viti á þeim brýnu málum er varða hag almennings í þessu landi.
Ef ekki þá er hinn flöturinn sá að staðan splundrast og það litla sem eftir er að þjóðarsáttinni verður lagt til hliðar og að vinnandi fólk í þessu landi takist á við þau öfl í þjóðfélaginu sem hafa sópað til sín auðæfum langt umfram það sem þeim ber. Kostir verkalýðshreyfingarinnar engir aðrir en átök, ekki af vilja heldur hreinni nauðsyn.

miðvikudagur, 10. desember 2003

Fanny og Alexander

Fanny og Alexander
Þessi stórmynd Bergmanns var sýnd í Bæjarbíói í gærkvöldi. Tær snilld og Kvikmyndasafninu enn og aftur þakkað frábært starf í vetur. Er búin að sjá hvert meistaraverkið af öðru.

Kærkomin hvílt frá þessum amerísku slagsmála- og ofbeldismyndum sem eru helst til fyrirséðar hvað varðar söguþráð og annað. Það er auk þess borðliggjandi að til þessa að ná sem mestum aurum í kassann þá má aðalsöguhetjan ekki verða fyrir teljandi hnjaski og hvað þá hverfa yfir móðuna miklu því þá er ekki hægt að gera "Lemjandann 2 ,3,4, og jafnvel 5"

Óðurinn til hins tilgangslausa ofbeldis í hávegum hafður eins og það sé akkurat það sem ungviðið hafi mest þörf fyrir á hinum síðustu og verstu...

mánudagur, 8. desember 2003

...og þá eru það lífeyrismálin

...og þá eru það lífeyrismálin
hjá Rafveitunni sálugu , fundur á Sólvangi um vinnustaðasamninga, starfslok á þjónustuborði, mál fyrrverandi félagsmálstjóra, lífeyrisgreiðslur til tveggja fyrrverandi starfsmanna, samtöl við ýmsa starfsmenn varðandi skipulagsbreytingar, væntanlegur stjórnarfundur með nýkjörinni stjórn, fundur á heilsugæslu, umræður um vaktafyrirkomulag, starfskjarnefndarfundur, símtöl vegna starfsmats, fundur um framhald dómsmáls STH vegna vangoldinna fæðingarorlofslauna til nokkurra STH félaga, samtöl við skrifstofu BSRB varðandi túlkun kjarasamnings, öryggisreglur skólaliða, fundur með tilteknum starfshóp, samtal við lögfræðing félagsins og ýmislegt fleira eru dæmi um það sem drífur á daga formanns.

Sýnlegt almennum félagsmönnum? Veit það ekki, kannski svipað eins og að vera sjónvarpsfréttamaður - mikil vinna á óhefðbundnum tímum og ekki allt unnið fyrir framan skjáinn og ekki síst oft vanþakklátt starf í meira lagi.

þriðjudagur, 2. desember 2003

Vinnustaðafundir

Vinnustaðafundir
Í janúar mun stjórn STH standa fyrir vinnustaðafundum. Þeir vinnustaðir sem óska eftir slíku eru beðnir að hafa sambandi við skrifstofu STH varðandi nánari framkvæmd. Síminn er 555 36 36 og rafpóstur sthafn@simnet.is