þriðjudagur, 30. desember 2003

Anno horrabillis?

Anno horrabillis ?
Nei en annasamt engu að síður. Skipulagsbreytingar reyndu á og vissulega margt í því ferli sem mun betur hefði mátt fara. Það sem hins vegar veldur undirrituðum nokkrum áhyggjum eru hin miklu, tíðu og kostnaðarsömu samskipti við lögfræðinga varðandi úrlausnir ágreiningsefna milli félagsins og bæjaryfirvalda.

Mál fyrrverandi félagsmálastjóra er búið að velkjast í kerfinu árum saman, ágreiningur um fæðingarorlofsgreiðslur er komið inn í dómskerfið, fyrirspurnum varðandi lífeyrismál og uppgjör réttinda við starfslok ekki svarað, svo dæmi séu nefnd. Allt eru þetta mál sem kosta mikla fjármuni og í raun umhugsunarefni hvers vegna þarf að fara með þessi mál svona langt.

Fyrir það fyrsta þá eru mál af þessu tagi dýr og í öðru lagi afar sérstætt ef bæjarfélag streitist á móti og sýnir mikla óbilgirni í málum sem fyrirfram verður að telja gjörtöpuð. Dæmi um slíkt er hinn afar skýri Hæstaréttardómur um á hvern veg fara á með greiðslur í fæðingarorlofi. Skilaboðin úr því máli eru óþægileg fyrir félagið. Til dæmis einfaldlega sú áleitna spurning ef félagið hefði setið með hendur í skauti, hefðu þá réttindi viðkomandi verið fótum troðin og er það þá stefna bæjarins að standa að slíku. Er það stefna bæjarins að greiða ekki fyrr en öll sund eru lokuð og þegar að búið er að eyða ómældu fé í lögfræðikostnað? Er ekki illa farið með takmarkað fé bæjarsjóðs og ekki síst, eru skilaboðin sem í þessu brölti felast samboðin virðulegu sveitarfélagi eins og Hafnarfjarðarbæ?

Launastefna
Hver er hin raunverulega launastefna bæjarins? Er hún að vísa öllu til launanefndar sveitarfélaga (LN). Væri ekki nær fyrir Hafnarfjarðarbæ að líta til bæjarfélaga eins og Reykjanesbæjar og Garðabæjar sem láta hina grjóthörðu láglaunastefnu LN sem vind um eyru þjóta og greiða sínu fólki að öllu jöfnu hærri laun en hin afar umdeilanlega stefna LN gerir ráð fyrir.
Væri það ekki nær heldur en að leggja sig í líma við og eyða ómældri orku í það að halda öllum launum í neðstu viðmiðum með tilheyrandi óánægju starfsmanna. Það er hægt að vinna þetta mun léttara eins og dæmin sanna.

Mín skoðun er einfaldlega sú að Hafnarfjarðarbær á að brjóta sig undan ofurvaldi LN og hreinlega hætta þátttöku í þessu bandalagi lægstu viðmiða. Ég tel reyndar lögfræðilegan vafa á því að bæjarstjórnir geti afsalað sér ákvörðunarrétti af þessu tagi til þriðja og óskylds aðila. Gæti Hafarfjarðabær með sama hætti afsalað forræði í skipulagsmálum?? Augljóslega ekki.. Mitt ráð er því - Út úr LN og því fyrr því betra. Vera bæjarins í LN og með forystuhlutverki þar á bæ, gerir það að verkum að Hafnfirsk launapólitík verður eins og skapalón fyrir grjótharða láglaunastefnu LN. Klókt ? - varla, og sennilega mjög óhollt pólitískt.

Rússneskt viðskiptasiðferði
Andsk... eru menn í vafasömum erindum í efnahagslífinu. Að formaður í Efnahags og viðskiptanefnd Alþingis, Pétur Blöndal sé aðalforsprakkinn í yfirtöku á Sparisjóði Reykjavíkur er ekki bara óviðeigandi heldur einnig algerlega siðlaust. "Rússneskt viðskiptasiðferði" að verða hin almenna regla hér á landi ?

Gleðilegt ár með þökkum fyrir samskiptin á árinu sem nú er að líða og með bestu óskum um far- hagsæld á nýju ári

Engin ummæli:

Skrifa ummæli