þriðjudagur, 22. maí 2012

Stundum verður mönnum á en..


...viðbrögð ýmissa fyrirtækja í samfélaginu eru merkileg í þessu samhengi t.d. vega úrskurða í samkeppnismálum, skattamálum, vörufölsun o.fl. þar sem viðkomandi biðjast nær undantekningalaust aldrei afsökunar á framferði sínu – það er ekkert viðurkennt, ráðnir fleiri lögfræðingar og málefnum þvælt í dómskerfinu árum saman þó kjarni mála sé öllum full ljós, rýrð kastað í allar áttir og sérstaklega á þá aðila og það fólk sem eru að vinna störf sín í þágu almennings. Dómar eru því að einhverju leiti orðnir spurning um stéttarstöðu sakbornings fremur en um siðferðileg rangindi og lögbrot viðkomandi. Fjölda dæma um slíkt er hægt að taka þó það verði ekki gert hér að sinni. Lokað sérréttindasamfélag síðustu áratuga gerir það að verkum að menn hafa glatað öllu jarðasambandi og telja sig yfir lög hafna, sjá ekkert rangt í gjörðum sínum og skeyta lítt um s.k. viðskiptasiðferði.

fimmtudagur, 17. maí 2012

Samfélag samráðs og sérhagsmuna


Því miður er íslenskt samfélag orðið markerað af átökum, bersýnilega nú um stundir og sennilega hefur svo verið um langa hríð þó svo að það hafi ekki verið eins sýnlegt eins og eftir hrunið. Maður þarf ekki annað en að lesa nokkrar ævisögur til þess að sjá hve grímulaus sérhagsmunabarátta átti sér stað og á sér stað. Mér dettur í hug ágæt ævisaga Guðna í Sunnu (ferðaskrifstofa) sem fór inn á lendur þar sem aðrir voru fyrir á fleti í pólitísku skjóli sérhagmunna, eða endurminningabækur Tryggva Emilssonar verkamanns. Hrunið og ekki síst upplýsingabyltingin hafa gert það að verkum að almenningur sér inn á svið sem áður var honum hulið. Ódýrir farsímar , frelsissímkort og Netið hrundu af stað þjóðfélagsbreytingum fyrir botni Miðjarðarhafs sem ekki sér fyrir endann á. Sama á við um í okkar heimshluta þó með öðrum hætti sé.

Sérhagsmunaöfl á Íslandi eins og LÍÚ eru föst í gömlum lobbýisma sem virkar ekki sem skyldi nú um stundir en fara þó sínu fram hverju sem á gengur. Verða sér að athlægi með því að líkja grjótharðri sérhagsmunavörslu sinni við hlutskipi gyðinga í seinni heimstyrjöldinni eða með grímulausum hótunum um að leggja heilu og hálfu byggðarlögin í eyði, sitji eða standi framkvæmda-, löggjafa- og dómsvaldið ekki eins og viðkomandi krefjast. „Vandamál“ sérhagsmunahópa eru einnig þau að náin og innileg tengsl sérhagsmuna, stjórnmálaafla og stjórnmálamanna eru orðin afar sýnileg og trúverðugleiki viðkomandi aðila því í sögulegu lágmarki. Stikkorð á Alþingi eins og hvalveiðar, kvótakerfi, stóriðja, orkumál o. fl. gera það að verkum að tilteknir þingmenn spretta upp, bruna í pontu og verja tiltekna sérhagsmuni með kjafti og klóm. Það er auk þess algerlega með eindæmum að hægt sé að halda þinginu í gíslingu vikum saman með einhverjum fundatæknilegum útúrsnúningum sem hafa ekkert að gera með raunveruleg efnisatriði mála, sem öll eru löngu fram komin og öllum ljós. Það getur ekki verið tilgangur þingskapa að slíkt sé mögulegt, svo ekki sé minnst á virðingarleysi af hálfu þeirra sem þetta stunda gagnvart lýðræðinu og síðast en ekki síst hve augljós og grímulaus sénhagsmunavarsla ræður för!
Hvernig sérhagsmunakerfi eins og ýmsir bankar, fjármálastofnanir og tilteknar endurskoðunarskrifstofur dansa með, verja og berjast fyrir áframhaldandi mismunun og misrétti í samfélaginu, er flestum ljóst.Vandi sérhagmunahópa dagsins í dag og versti óvinur er sýnileikinn, upplýsingarnar, upplýsingatæknin. Vídd, margbreytileiki og umfang fjórða valdsins, fjölmiðlunar og það gangvirkrar, er orðið slíkt að hagmunahópar ná ekki að ráðskast með fjórða valdið að vild eins og áður var. Þetta sést vel m.a. í skjótum og sterkum viðbrögðum almennings við algerlega misheppnuðum PR aðgerðum LÍÚ. Þetta sést á einnig á fyrrum flaggskipi fjórða valdsins Morgunblaðinu sem engin nennir lengur að lesa og þeir fáu sem það gera er all flestum ljóst að ritstjórnarstefnan lýtur algeru valdi sérhagsmunahópa. Málgagnið er orðið svo örvæntingarfullt að það dreifir ókeypis Ipad spjaldtölvum í allar áttir gegn því að fólk gerist áskrifendur.

Upplýsingatæknin hefur lýst upp sviðið og svipt tjöldunum frá að töluverðu leyti. Hið lokaða rými sérhagmuna minnkar sífellt og gamla klíku og samráðs möndlið sem fólst í því að skara eld að eigin köku með hvað meðulum sem var er gærdagurinn – Núna eru aðrir tímar og vonandi að upplýsingabyltingin og öll sú tækni reynist gott verkfæri í þágu almannahagsmuna. Sú er raunin fyrir botni Miðjarðarhafs og vonandi að svo verði einnig raunin hvað varðar íslenskt samfélag. Á því er mikil nauðsyn því langvarandi og áframhaldandi ójöfnur lífsgæða veit ekki á gott. Mikilvægasta verkefni samtímans er að jafna lífskjörin með réttlátri skiptingu þjóðarverðmæta og sameigna – það verður ekki gert með því að eitt fyrirtæki „eigi“ 12 hvern fisk í sjónum sem syndir í kringum landið.