miðvikudagur, 31. desember 2008

Frábært framtak hjá talsmanni neytenda

Birti hér orðrétt tilmæli talsmanns neytenda ( http://talsmadur.is/ ) vegna nafnleysingja í vefheimum.

"Raunhæf æruvernd sé tryggð á bloggsíðum
Þess hefur verið farið á leit við mbl.is að tryggt sé að rétthafi bloggs sé rétt skráður og að unnt sé að fá upp gefið nafn þess sem bloggar undir nafnleynd ef sýnt er fram á lögvarða hagsmuni af því. Með þessu vill talsmaður neytenda tryggja raunhæfa æruvernd og auka neytendavernd.

Morgunblaðið
Ingvar Hjálmarsson
Árvakur hf. Hádegismóum 2 110 Reykjavík
Reykjavík, 30.12.2008
Tilv. 2008/0015 - 2.1 g
GT

Tilmæli frá talsmanni neytenda (TN 08-3)


Efni: Raunhæf æruvernd sé tryggð á bloggsíðum
Að gefnu tilefni, að teknu tilliti til sjónarmiða sem talsmaður neytenda hefur leitað eftir hjá mbl.is, í samræmi við 1. mgr. 71. gr. og 1. málslið 2. mgr. 73. gr.
stjórnarskrárinnar og meginreglur laga nr. 57/1956 um prentrétt varðandi ábyrgðarröð, og í ljósi dómsúrlausna varðandi ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um æruvernd, beinir talsmaður neytenda eftirfarandi tilmælum vinsamlegast til mbl.is sem rekstraraðila bloggþjónustu gagnvart neytendum í því skyni að stuðla að aukinni neytendavernd:
Framvegis verði tryggt að rétthafi bloggs sé rétt skráður hjá mbl.is - t.d. með bréfi í kjölfar skráningar á lögheimili tilkynnts rétthafa bloggs.
Sé boðið upp á nafnleynd rétthafa bloggs verði þeim, sem sýna mbl.is fram á lögvarða hagsmuni af því, veittar upplýsingar um fullt nafn og kennitölu rétthafa bloggs eða - í tilviki lögaðila - ábyrgðarmanns þess. Einnig er farið fram á að í skilmálum um blogg á mbl.is verði eftirleiðis upplýst um að rétthafi eða ábyrgðarmaður bloggs kunni að bera lagalega ábyrgð á ummælum nafnlausra notenda í athugasemdakerfi þess.
Virðingarfyllst,

talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason. "


Frábært framtak hjá talsmanni og ættu allir þeir aðilar sem halda úti vefkerfum að tileinka sér þessar reglur, a.m.k. allir þeir sem vilja láta taka mark á sér.

Óska lesendum síðunar farsældar á komandi ári

mánudagur, 22. desember 2008

Hver á hvað? – eignatengsl þingmanna

Olof Palme hinn sænski náði sér í mörg prik sem þingmaður og leiðtogi jafnaðarmanna í Svíþjóð þegar að hann fól starfsmannafélagi stórverslunarinnar PUB fullt og ótakmarkað umboð á eignarhlut sínum í fyritækinu svo lengi sem hann væri í stjórnmálum. Palme fór þarna skerfi lengra en hann þurfti en það hefði nægt honum að gefa upp eignarhlut sinn.

Þetta leiðir hugann að hinum napurlega íslenskra raunveruleika sem er sá að íslenskir þingmenn virðast ekki þurfa, frekar en þeir vilja, að gefa upp eignartengsl sín m.t.t. hagsmunaárekstra eða vanhæfis í umfjöllun á þingi. Sumt er opinbert eins og formennska og eða stjórnarseta einhverra þingmann í eignarsjóðum sem og í stjórnum einhverra fyrirtækja, aðrir eru í einhverjum rekstri, einhverjir eiga hluti í fyrirtækjum beint eða óbeint, en margt annað er þoku hulið.

Og þó maður gefi sér auðvitað að þingmenn sinni skyldum sínum af fyllstu trúmennsku þá vantar nokkuð upp á að svo sé a.m.k. þar til að þessar sjálfsögðu upplýsingar um þingmenn okkar liggja fyrir með formlegum hætti á opinberum vettvangi – hefur sennilega aldrei verið nauðsynlegri en akkurat núna á þessum miklu ólgutímun þar sem gerðir þingsins í stóru og smáu þurfa að vera hafnar yfir allan vafa um annað en ítrustu hagsmuni almennings.

Skora á þingmenn að birta slíkt af eigin frumkvæði t.d. á heimasíðu Alþingis - ef ekki þá er alger nauðsyn að Alþingi Íslands setji lög um um upplýsingaskyldu af þessum toga.

sunnudagur, 14. desember 2008

Nafnleysingjar í bloggheimum...

... vega lítið í umræðunni. Finnst það sérstakt að virðulegir vefmiðlar eins og Eyjan, Mbl, Visir og fleiri slíkir geri ekki kröfu um að fólk skrifi undir nafni? Mér finnst algerlega óviðeigandi að fólk getir ausið alskyns fúkyrðum og óhróðri um menn og málefni í skjóli nafnleyndar. Meðan að slíkt er látið viðgangast þá hlýtur viðkomandi miðill að vera ábyrgur fyrir nafnlausum ummælum ? Margir einstaklingar og vonandi sífellt fleiri gera kröfu um að fólki kommenti með fullu nafni - Það ættu stærri vefmiðlar undantekningarlaust einnig að gera. Umræða yrði bæði yfirvegaðri og vandaðri svo ekki sé minnst á það að vera laus við fólk sem þorir ekki að gangast við sjálfu sér – Skora á alla vefmiðla sem vilja láta taka mark á sér að breyta fyrirkomulagi hvað þetta varðar – Raunveruleg umræða krefst raunverulegs fólks - ekki satt?

miðvikudagur, 10. desember 2008

Í landi hinna tæknilegu mistaka...

... væri ekki úr vegi að opna heimasíðu í svipuðum dúr og hin ágæta okursíða Dr Gunna . Tæknileg mistök væri fínt nafn. Það mætti tölusetja hin tækilegu mistök sem upp munu koma og með því móti halda utan um það rugl sem er sífellt að koma upp og sem á eftir að koma í ljós á næstu misserum.

Tæknileg Mistök 1 : Bankastjóri Glitnis sleppur við að borga hlutabréfkaup sem tilkynnt höfðu verði til Kauphallarinnar.

Tæknileg Mistök 2: Eigendur Next og Nova Nova skipta um kennitölur á fyritækjum og fá fyritækið á tombóluprís “af því að hið erlenda fyrirtæki vildi ekki að neinn annar starfi fyrir þá?” Eins og öllum sé ekki nákvæmlega sama um það.

... og svona mætti lengi telja. Kasta þessari hugmynd á loft hér í bloggheimum og vona að einhver hafi tíma og nennu til þess að stofna svona síðu. Myndi glaður taka slíkt að mér ef ég hefði aðstöðu til.

laugardagur, 6. desember 2008

Blaðamennska - nei varla

Ásmundur Helgason “blaðamaður “ fer mikinn í síðasta tölublaði Mannlífs sem og hinum ýmsu blöðum útgáfufélagsins Birtings. Heldur eru “fréttirnar“ einhæfar og leiðinlegar eða í sem styðstu máli myndir af brennivínsflöskum frá hinum ýmsu framleiðendum sem og texti sem hann tekur sennilega i fóstur frá hinum sömu framleiðundum. Einkennandi er að allt er þetta hágæða vara sem er borin er “verð”skulduðu lofi sem um munar ef marka má skrif Ásmundar. Í umfjöllun “blaðamannsins” ber ekki á nokkru um vankanta vörunnar eða annarri gagnrýni? Síðan eru þetta sömu fréttirnar í blaði eftir blaði?

Blaðamennska nei  “blaðamaðurinn” Ásmundur Helgason er einnig er titlaður auglýsigarstjóri Mannlífs, og ritstjóri þess sama blaðs Sigurjón M Egilsson dubbar þess í stað auglýsingastjórann upp í “blaðamann” sem birtir grímulausar áfengisauglýsingar. Hlutverkið einfalt, að taka á sig glæpinn - ekki bara í Mannlífi heldur mörgum öðrum blöðum útgáfufélagsins Birtings.

Ekki dettur mér í hug að halda því fram að Ásmundur hafi af þessu efnahagslegan ábata og því mun ég alls ekki halda því fram að blaðamaðurinn eða blaðið fái 1.000.000 – 1.500.000 krónur eða önnur jafnvirð hlunnindi fyrir hverja “frétt”. Því fer fjarri, hér er það einskær áhugi á þessari tegund “blaðamennsku” sem knýr auglýsingastjórann með blaðamannaáhugann áfram.

Ritstjóri Mannlífs var fyrir nokkru dæmdur (11.júní 20008 / sjá umfjöllun Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum http://www.foreldrasamtok.is/ Dómar) til sektar vegna brota á lögum um banni við áfengisauglýsingum og því er það með eindæmum að tímaritið skuli í engu taka mið af nýföllnum dómi sbr. desember tölublað tímaritsins og misvirða Héraðsdóm Reykjavíkur og sniðganga niðurstöður dómsins með öllu? Viðskiptasiðferði og virðing fyrir lögum landsins er minni en engin – sýnir þvert á móti einbeittan og einlægan brotavilja. Er tímaritið Mannlíf og útgáfufélagið Birtingur hafið yfir lög, ber tímaritið Mannlíf og útgáfufélagið Birtingur enga virðingu fyrir lögvörðum rétti barna og unglinga?

þriðjudagur, 2. desember 2008

Heilsuverndarstöðin ehf í gjaldþrot ...

...en var tilraun sem tókst afar vel að mati heilbrigðisráðherra ? m.a vegna þess að s.k. ganga innlögnum fækkaði á meðan hinnar vellukkuðu einkavæðingar naut við? Sennilega ekki á færi annara en ofsatrúaðra einkavæðingarsinna að skilja þessi rök ráðherrans – við hin teldum affarsæalst að auka fjárframlög til sjúkrahúsa svo þau geti sinnt starfi sínu eins og best verður á kosið og boðið sjúklingum upp á sómasamlega vist. Ritaði eftirfarandi hugleiðingar um einkavæðingu á Dagskinnuna fyrr tveimur árum (2006):

Er íslensk einkavæðing eitthvað öðruvísi ?

Einkavæðing í Evrópu. Var sem sagt fyrir tveimur árum staddur í Luxemburg á tveggja daga fundi hjá EPSU. Á okkar ágæta máli myndi það útleggjast sem Fulltrúaráð Evrópskra bæjarstarfsmannafélaga. En í því sat ég (sem þ.v. formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar) fyrir hönd BSRB um nokkurra ára skeið. Dr. David Hall frá háskólanum í Greenwich var að fara yfir þróun þessara mála í Evrópu síðustu árin og niðurstöður um margt merkilegar, m.a.:

Að samningum um einkavæðingu fylgir leynd sem gerir að verkum að almenningur hefur ekki sama aðgang að upplýsingum um t.d. hvernig staðið er að viðkomandi þjónustu. Þ.e.a.s. að almenn upplýsingaskylda gildir ekki þegar að búið er að bjóða út þjónustuna? sérkennilegt í meira lagi.

Að kostnaður og gæði fara saman og að gæði eftir einkavæðingu séu betri en verið hefur er fjarri því að vera rétt. Mýmörg dæmi eru um hið gagnstæða, hins vegar eru stjórnmálamenn áfram um að lækka framlög og “spara”. Einkavæðing sé því oftast í raun leið til þessa að minnka raunverulegt þjónustustig og oft á tíðum verulega og spara með því einhverjar örfáar krónur sem þó séu ekki í nokkru samræmi hinn raunverulega niðurskurð þjónustunnar sem auk þess sé mun dýrari fyrir neytendurna en áður var.

Fleiri og fleiri dæmi koma upp þar sem samfélagið þarf að endurfjármagna og koma í gang einkavæddri samfélagsþjónustu sem farið hefur á hausinn. Sparnaður því til lengri tíma ákaflega lítill og oft rándýrt fyrir samfélagið, eins og dæmið um risagjaldþrot hinnar einkavæddu Vatnsveitu í Grenoble sýndi glögglega.

Hall rannsakaði Farum málið í Danmörku, og eftir nokkrar tilraunir til þess að setja einkavæðingar starfsemi þess bæjarfélags í vísindalegt samhengi og án nokkurs árangurs... eða hvað... þá komst hann að þeirri niðurstöðu; sem var samt sem áður hávísindaleg; að allt sem laut að einkavæðingu í Farum byggði að (ofsa)trúarlegum forsendum fremur en útreikningum um gildi þess að einkavæða og þess vegna hafi nú farið eins og fór.

Þannig var það nú - spurningin því, er einkavæðing almennt í þágu almennings eða almannahagsmuna? - Nei held að það sé af og frá - snýst um allt aðra hluti sem ekkert hafa með velferð almennings að gera?

... og svo á að breyta Orkuveitunni - að vísu bara formbreyting, nákvæmlega eins og menn sögðu um Símann hér um árið... og það vita allir hvernig það endaði.