laugardagur, 31. janúar 2004

Dagskinnan 1. árs

Dagskinnan 1. árs
Málgagnið 1. árs í dag 31/1 2004. Byrjaði sem verkefni í kúrsinum Nám og kennsla a Netinu í framhaldsdeild KHÍ þar sem dr. Salvör Gissurardóttir opnað sýn mína inn í þessa skemmtilegu veröld - Netheima. Verð henni ávallt þakklátur fyrir þessi kynni. Umferð um vefinn ávallt verið góð og komið mér á óvart og því vaknaði sú hugmynd hvort ekki væri rétt að breyta vefnum í dagskinnu formanns Starfsmannafélags Hafnarfjarðar.
Dagskinna formanns varð því raunin og hugmyndin sú að hafa möguleika á því að vera ögn persónulegri í skrifum en maður getur verið á formlegri heimsíðu stéttarfélags. Hugmyndin virkar, aðsókn er með ágætum fólk sendir mér tölvuskeyti með öllum hugsanlegum og óhugsanlegum viðbrögð við skrifum á síðunni - sérstaklega hvað varðar kjaramálin. Hef hins vegar farið víða í umfjöllun um landsins gagn og nauðsynjar og mun gera áfram . En sem sagt í stuttu máli 2.797 línur , 25,117 orð og 126.113 stafir og 7.355 gestir þegar að þetta er skrifað.

föstudagur, 30. janúar 2004

Hvað á að gera við síbrotamenn með einlægan brotavilja ?

Hvað á að gera við síbrotamenn með einlægan brotavilja ?
Langar að velta upp einni hlið umræðunnar um áfengisauglýsingar af gefnu tilefni þar sem að akkurat þessa dagana birtast kolólöglegar og grímulausar áfengisauglýsingar í Fréttablaðinu, m.a. 28,29 & 30 janúar

Einlægur brotavilji í verki og á þá ekki að taka á því í samræmi við það? Þjást lögregluyfirvöld af einhverri verkfælni?
Ef fyrirtæki eins og þessi sýna í verki einlæga síbrotahegðun má þá ekki einnig gera ráð fyrir að öll menning fyrirtækisins sé sama marki brennd?

Og eru menn þá nokkuð hissa að fólk sniðgangi fyrirtæki sem ganga fram með þessum hætti. Vill einhver eiga samskipti við síbrotamenn? Ekki ég, og því hvet ég auðvitað alla til að sýna hug sinn i verki.

fimmtudagur, 29. janúar 2004

Ágæti Ríkislögreglustjóri og aðrir viðtakendur

"Ágæti Ríkislögreglustjóri og aðrir viðtakendur
Bendi Ríkislögreglustjóraembættinu á heilsíðuauglýsingu á blaðsíðu 3 í Fréttablaðinu miðvikudaginn 28 janúar. Auglýsingin er án nokkurs vafa gróft brot á lögum um bann við áfengisauglýsingum. Af því tilefni óskar undirritaður eftir því að embættið taki málið til formlegrar rannsóknar og meðferðar.

Áfengisframleiðendur ganga sífellt lengra í ólöglegum auglýsingum. Samkvæmt íslenskum lögum eiga börn og unglingar rétt á því að vera lausir við áreiti af þessu tagi. Sá réttur er algerlega virtur að vettugi og áfengisframleiðendur fara sínu fram , að virðist átölulaust af hálfu hins opinbera. Ég skora því á þar til bær yfirvöld að taka höndum saman og koma málum í það horf sem hagsmunir barna og unglinga eiga skilið.

Virðingarfyllst,
Árni Guðmundsson
Æskulýðs- og tómstundafulltrúi í Hafnarfirði"

Skrifaði sem sagt bréf til Ríkislögreglustjóra í dag og vona að menn fara nú að taka á þessum "einlæga brotvilja" áfengisframleiðenda.

miðvikudagur, 28. janúar 2004

Áfengisauglýsingar - boðflenna í tilveru barna og unglinga.

Áfengisauglýsingar - boðflenna í tilveru barna og unglinga.
"Ef maður segir frelsi þá verður maður líka að segja ábyrgð. Ef maður lifir í samfélagi þá verður maður að taka tillit til ýmissa annarra hagsmuna en sinna ýtrustu.

Frelsi barna og unglinga til þess að vera laus við þessa samfélagslegu boðflennu, áfengisauglýsingar, er mun mikilvægara í mínum huga heldur en frelsi til þess að brjóta lög og freista þess að ota áfengi að börnum og unglingum.

Hvar liggja hin siðferðilegu mörk - eða eru þau yfirleitt til staðar hvað varðar áfengisauglýsingar???"

mánudagur, 26. janúar 2004

Sniðgöngum auglýstar áfengistegundir

Sniðgöngum auglýstar áfengistegundir
Er óvænt lentur í ritdeilum á hinum ágæta vef www.skodun.is. Tilefnið áfengisauglýsingar, en sem kunnugt er þá eru lög um bann við þeim þverbrotnar og það sem verra er að hið opinbera virðist láta það algerlega óáreytt?

Veit það í gegnum starf mitt sem æskulýðsfulltrúi að mörgum forráðamönnum blöskrar hve langt menn ganga í brotunum og undrast auðvitað hvers vega ekkert sé gert til þess að spornar við þeim.

Eru viðskiptahagsmunir mikilvægari en velferð barna og unglinga? Um þetta deila menn, frjálshyggjan er ekki í vandkvæðum með valið - auðvitað viðskiptahagsmunir - Gef ekki mikið fyrir slíka lífsýn og velti fyrir hugtökum eins og "samábyrgð" og hvort"samfélagið" eigi að vera hrúga af einstaklingum sem ekkert varðar um annað en eigin nafla?

föstudagur, 23. janúar 2004

Til hamingju Hafnarfjarðarbær
Mál Mörtu Bergmann fv félagsmálastjóra. Þyrnum stráð sex ára þrautargöngu loksins lokið. Til hamingju með það en best hefði auðvitað verið að niðurstaða bæjarráðs hefði verið samhljóða niðurstaða allra bæjarráðsmanna. Því verður vart trúað, í ljósi forsögu þessa máls, að einhverjir bæjarfulltrúar hefðu viljað láta dæma Hafnarfjarðarbæ til greiðslu skaðabóta vegna kol ólöglegrar uppsagnar ?

Sjá úr fundargerð bæjarráðs:
"13. Starfslokasamningur Mál nr. BR040036
Lögð fram tillaga að sátt í tilefni af starfslokum fyrrverandi félagsmálastjóra.
Tillagan var samþykkt með 3 atkvæðum. Bæjarráðsmenn Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.
Bæjarráðsmenn Samfylkingarinnar óska bókað: "Lögmenn á vegum bæjarins telja að það sé skynsamlegt og rökrétt að ná sátt í málinu vegna starfsloka fyrrv. félagsmálastjóra frekar en að málið fái lyktir í dómskerfinu." "

þriðjudagur, 20. janúar 2004

Stjórnarfundur í dag

Stjórnarfundur í dag
og margt á dagskrá sem endranær. Rætt var um komandi samninga og á hvern veg best er að standa að þeim. Ljóst er að það stefnir í víðtækt samstarf bæjarstarfsmannafélaga og sennilegt að í Samfloti með okkur verði öll félög frá Húsvík og upp í Borgarnes. Norðurlandi vestra án Ólafsfjarðar, Vestfirðir og Vesturland mynda Kjarna félagið.

Ef þetta verður að veruleika þá standa 4.000 manns á bak við þetta starfstarf sem er öllu fleiri en mynduðu gamla Samflotið.

Þungt í ASÍ
Hljóðið í ASÍ fólki er þungt um þessar mundir og einhverjir sem ræða um verkföll þar á bæ þ.e.a.s ef ekki fari einhver hreyfing að komast á mál.

Hefðbundin grátur vinnuveitenda bætir ekki úr skák og "nýjar fréttir" úr þeim ranni um óvenju hátt launahlutfall hér landi er einungis til þess falinn að auka hörkuna.
Bullandi gróði fyrirtækja í landinu blasir hvarvetna við og það er akkurat í góðæri sem þessum sem ráðrúm til verulegra kaupmáttaraukningar er fyrir hendi.

Nýr sumarbústaður.
Jafnframt hefur verið ákveðið að festa kaup á nýjum sumarbústað í nágrenni við Stykkishólm. Með okkur í samstarfi um þessi mál er SfK (Starfsmannfélag Kópavogs) og félagið í Garðabæ.

Hér er um afar vandaða og glæsilega bústaði að ræða sem staðsettir eru á sjávarlóðum við vík skammt frá bænum. Bústaðir þessir eru búnir öllum helstu þægindum eins og heitum pottum.

Okkar helstu spésilistar í byggingartæknifræðum Svanlaugur og Kristján á Umhverfis og tæknisviði búnir að fara yfir lýsingar og fleira og koma með góðar ábendingar um það sem betur má fara varðandi smíðina ,efni og. fl. Sannkallaðir Haukar í horni. Breiðafjarðareyjar og Nesið því nýr vettvangur sumarleyfa fyrir STH félaga á sumri komanda.

mánudagur, 19. janúar 2004

L. Norðfjörð

L. Norðfjörð
góðkunningi minn og skáld sendi mér frumsamið ljóð sem mér er bæði ljúft og skylt að birta:

Hver á sér smartara föðurland

Hver á sér smartara föðurland
Með fjöll og dal og svartan sand
með suðurljósa bjarmaband
og björk og lind í brekku?
Með friðsæl híbýli, ljós og kvæði
svo langt frá heimsins vígaslóð
varðveiti, drottinn, okkar dýru grund
er duna jarðarstríð

L. Norðfjörð 2004

föstudagur, 16. janúar 2004

Hagsmunagæsla per excellence

Annan mann
kannast ég við sem stóð í hagsmunagæslu fyrir sjávarútveginn árum saman . Gerði það með eindæmum vel. Svo vel að blessaður fiskurinn í kringum landið og jafnvel víðar átti sér ekki undankomu auðið, einstefna í veiðafæri vina hans hinn blákaldi veruleiki hins íslenska fiskistofns.

Taktíkin var einföld , því að í hvert skipti sem blessuð stjórnamálmönnunum datt í huga að smábátasjómenn og jafnvel hinar dreifðu byggðir landsins ættu að fá nokkra fiska í sinn hlut, svona rétt til þess að menn gætu gert sér eitthvað til dundurs í fásinninu, þá birtist hann í öllum hugsanlegu og óhugsanlegum fjölmiðlum og vann málið á tárakirtlunum einum saman.

Lá á stundum við að tárabunan stæði beint út í loftið, úr báðum augunum samtímis, um leið og hagsmunagæsluaðilinn tilkynnti að landið leggist í auðn ef sægreifarnir misstu 1-2 þorska til alþýðunnar, sem auk þess kynni ekkert með auðlindina að fara.
Táraflóðið ómælt í áranna rás og í raun aðdáunarvert hve vel tárakirtlarnir hafa staðist hið mikla og sífellda álag.

Mitt ráð til hagmunagæslumanna, í ljósi síðasta pistils um krankleika í hálsi, er því það að ef hin táknræna "nei" hreyfigeta er í lamasessi - nýtið þá tárakirtlana í staðin, þeir eru nokkuð vannýtt auðlind í baráttunni gegn betri launum almennings.
"Ef láglaunafólkið fær meira kaup þá fer allt í.... vitleysu ...verðbólgu ... ekkasog , ekkasog .... gengisfelling .... meiri tár ..... ekkasog ....o.sv.fr" Sem sagt endurtekið í sífellu sömu rulluna og eftir þörfum hverju sinni.

Það mun því væntanlega í fyllingu tímans fara fyrir öllum peningunum í landinu eins og fyrir fiskunum , allir aurarnir rata í örfáa vasa og þar sem allir hinir peningarnir eru þegar niður komnir - Og þá er auðvitað tilganginum náð - ekki satt ?

miðvikudagur, 14. janúar 2004

Krónísku nei-inn

Heyrði sögu af manni einum í innsta hring hjá vinnuveitendasamtökum hins opinbera er kenndi sér krankleika í hálsi, sel hana ekki dýrari en ég keypti hana og nefni engin nöfn og læt þess ekki getið að hún geti átt við um Hafnfirðing einn ágætan.

Sagan er sú að þar sem að viðkomandi hafi árum og jafnvel áratugum saman mælt mót hinum eðlilegu og hógværu óskum launþega þá séu hálsliðir allir er mynda hina táknrænu hreyfingu "Nei" gjöreyddir orðnir. Viðkomandi búin að vinda höfðinu af miklu óhófi til beggja hliða með skelfilegum afleiðingum bæði fyrir launþega sem og eigin heilsu.

Hitt, sem er ekki betra, er að viðkomandi er orðinn með öllu óhæfur til þess að kinka kolli til samþykkis í þeim göfuga tilgangi að gefa táknbundið "já svar" og í þau fáu skipti sem það gerist þá kveða við brestir miklir samfara miklum sársauka. Allt fast og hreyfigeta þessara vannýttu liðamóta verulega takmörkuð orðin, jafnvel samgróin að hluta til og allt vegna langvarandi iðjuleysis.

Því er spurt: Er láglaunastefna sjúkdómur í stoðkerfi eða leiðir hún bara til þess hjá einstaka mönnum?

Vonandi tekst þó hæfustu sjúkraþjálfurum þessa lands að kippa þessu í liðinn - sérstaklega hvað "ja´-inn" varðar. Verkefnið sennilega afar erfitt - þó ekki óleysanlegt - og vonandi lokið fyrir næstu kjarasamninga.

sunnudagur, 11. janúar 2004

Dagskinnan

Dagskinnan
Hlutverkið er einfalt, að segja hlutina hverju sinni eins og þeir blasa við undirrituðum og út frá þeim hagsmunum er við í verkalýðshreyfingunni stöndum vörð um. Vera trúr sannfæringu sinni og benda á það sem betur má fara. Augljóslega margt í þeim efnum eins og fram kemur í pistlum á dagskinnunni.

Sem betur fer er einnig margt sem endar vel ( svo ég hughreysti lesanda einn sem finnst Dagskinnan nokkuð óvilhöll vinnuveitendum og tóninn fullhvass á stundum ?)

Minnist í þeim efnum nokkurra verulega erfiðra úrlausnarefna er tengdust áföllum eða veikindum félagsmanna þar sem að bæjaryfirvöld stóðu sig með mikilli prýði og hafa oft teygt sig langt út fyrir þær skyldur sem þau hafa í slíkum málum. Mannlegt kerfi, á stundum, þrátt fyrir allt og ekkert nema gott eitt um það að segja og mér bæði ljúft og skylt að koma því á framfæri.

fimmtudagur, 8. janúar 2004

Af jakkafata-krimmum og öðrum krimmum

Af jakkafata-krimmum og öðrum krimmum
Rak í rogastans er ég heyrði fréttir um að upp úr "samningaviðræðum" olíufélaganna og Samkeppnisstofnunar hefði slitnað þar sem menn næðu ekki "samkomulagi" um sektir? Eins og það væri eitthvað til að díla um?

Sögu heyrði ég af ógæfumanni einum uppi í Borgarnesi sem hafði verið ölvaður um nokkra hríð, gerst svangur og stolið kjötlæri í kaupfélaginu. Hef ekki heyrt annað en að hann hafi verið færður í böndum í steininn í stað þess að efna tafarlaust til fundar við lögguna, ganga síðan af velli þungur á brún, tönglast á því að hann og löggan hefðu ekki náð samkomulagi um sektir í málinu.

Það eitthvað sem er ekki að gera sig - eiga fyllbyttur sem stela að vera í jakkafötum? Eða er bara verið að gera grín að almenningi?

miðvikudagur, 7. janúar 2004

Boðflennu hent út

Boðflennu hent út.
Nú á dagskinnan að vera orðin söm eftir leiðindasamskipti við hið óvandaða vefkompaní nepstern.com sem sýnir viðskptasiðferði sitt í verki með því að planta auglýsingaforit um eigið ágæti, tekur vefslóðir fólks traustataki og freistar þess að gera sig að upphafssíðu hjá vammlausu fólki um víða veröld. Viðskiptasiðferði mörgum stigum fyrir neðan farandsölumenn sem stinga fæti inn fyrir dyrnar þegar á að loka á þá.

Aðlögunarsamning við Heilsugæsluna á Sólvangi
var lokið skömmu fyrir jól. Samningurinn gildir fyrir félagsmenn STH og SFR. Samningurinn er á svipuðum nótum og samningur SFR og Reykjavíkurborgar vegna heilsugæslunnar.
Sá sem þetta ritar hvetur félagsmenn sérstaklega til þess að nýta sér kafla um endurmenntunarmál enda liggur nokkur launaleg umbun í því samkomulagi.
Þátttaka í námskeiðum er ekki bara góð fyrir einstaklinga og stofnanir, hún er einnig ágæt fyrir budduna og því óráðlegt að láta slíka mögleika ónýtta. Ef menn nýta alla möguleika námskeiða þá getur hækkun numið allt að 12- 15 þús á mánuði þ.e. mun á þeim sem engin námskeið hefur tekið og þess sem hefur tekið allt sem hægt er. 144.000 - 190.000 krónur á ári er ekki lítið og hver hefur efni á að hafna slíku? Frumkvæðið liggur hjá ykkur í þessum efnum ágætu félagsmenn.

laugardagur, 3. janúar 2004

Kraftaverk

Kraftaverk
Nýja árið 2004 heilsar með kraftaverkum. Varð vitni að tveimur slíkum í dag. Viti menn tveir ungir menn, sennilega að eigin mati fatlaðir, gengu eins og ekkert væri. Lögðu bílunum sínum í sitt hvort bílastæðið merkt fötluðum við inngang Samkaupa og gengu algerlega óstuddir inn í verslunina. Kraftaverk nema ef vera skyldi að fötlunin sé á hinu andlega sviði? Eða drengirnir bara einfaldlega illa upp aldir og tillitslausir - ætli séu verkir með þessu? Alltaf leiðinlegt að sjá Super egóista að störfum eins í þessu tilfelli. Er þetta ekki sama liðið og kann ekki á raðir?