miðvikudagur, 14. janúar 2004

Krónísku nei-inn

Heyrði sögu af manni einum í innsta hring hjá vinnuveitendasamtökum hins opinbera er kenndi sér krankleika í hálsi, sel hana ekki dýrari en ég keypti hana og nefni engin nöfn og læt þess ekki getið að hún geti átt við um Hafnfirðing einn ágætan.

Sagan er sú að þar sem að viðkomandi hafi árum og jafnvel áratugum saman mælt mót hinum eðlilegu og hógværu óskum launþega þá séu hálsliðir allir er mynda hina táknrænu hreyfingu "Nei" gjöreyddir orðnir. Viðkomandi búin að vinda höfðinu af miklu óhófi til beggja hliða með skelfilegum afleiðingum bæði fyrir launþega sem og eigin heilsu.

Hitt, sem er ekki betra, er að viðkomandi er orðinn með öllu óhæfur til þess að kinka kolli til samþykkis í þeim göfuga tilgangi að gefa táknbundið "já svar" og í þau fáu skipti sem það gerist þá kveða við brestir miklir samfara miklum sársauka. Allt fast og hreyfigeta þessara vannýttu liðamóta verulega takmörkuð orðin, jafnvel samgróin að hluta til og allt vegna langvarandi iðjuleysis.

Því er spurt: Er láglaunastefna sjúkdómur í stoðkerfi eða leiðir hún bara til þess hjá einstaka mönnum?

Vonandi tekst þó hæfustu sjúkraþjálfurum þessa lands að kippa þessu í liðinn - sérstaklega hvað "ja´-inn" varðar. Verkefnið sennilega afar erfitt - þó ekki óleysanlegt - og vonandi lokið fyrir næstu kjarasamninga.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli