föstudagur, 23. nóvember 2012

Núna drekkur James Bond bara kók zero


Undanfarið hefur njósnari hennar hátignar James Bond, eða 007 eins og hann er auðkenndur í starfsmannaskrá MI6, birst okkur í tíma og ótíma, meðal annars í sjónvarpi allra landsmanna RÚV. Fyrir utan það að vera í miklum önnum þá er aðal mission-in í auglýsingu um nýjustu mynd kappans „Skyfall“ að ná sér í áfengi, bjórtegund eina sem ku vera „léttöl“ eins og alsiða er að auglýsa af hálfu framleiðenda og innflytjenda áfengis. Kvöld eftir kvöld sýnir, eða réttara sagt sýndi, RÚV þessa áfengisauglýsingu á prime time.

Siv Friðleifsdóttir, okkar ágæta þingkona, er ein þeirra fjölmörgu sem ekki var sátt við þessa illa dulbúnu áfengisauglýsingu. Hún gerir sér lítið fyrir, hringir í helstu verslanir landsins og spyr um „léttölið“ og fær þau svör úr öllum áttum að það sé ekki til, hafi aldrei fengist og sé sennilega ekki einu sinni framleitt?

Núna drekkur Bond bara kók og það zero í tíma og ótíma. "léttölið" ófáanlega með öllu horfið úr auglýsingunni og þess í stað  sýnir 007 nú afar einbeitta ásókn í kók zero.  Það reynist honum örugglega betur í mikilvægum störfum sínum en áfengið. Hvort þetta sé þingmanninum ágæta að þakka eða „kenna“ skal ósagt látið. Þetta einstaka kapp áfengisinnflytandans við að auglýsa vöru sem ekki er til, er utan þeirrar almennu greindarfarskröfu sem að öllu jöfnu er gerð til forsvarsmanna fyrirtækja og sem slíkt umhugsunarvert í meira lagi.

Eftir situr spurningin hvers vega er ekki gefin út ákæra á þá fjölmiðla sem brjóta lög er varða sjálfsögð réttindi barna og ungmenna til að vera laus við áfengisáróður sbr. þessi áfengisauglýsing? Er nóg fyrir RÚV og aðra fjölmiðla að segja sorry og halda síðan áfram eins og ekkert hafi í skorist. Er lögregluyfirvöldum lífsins ómögulegt að standa vörð um augljós réttindi ungmenna – Maður spyr sig ...aftur og aftur?

föstudagur, 26. október 2012

Hin grjótharða hafnfirska láglaunapólitík


Var fundarstjóri á almennum félagsfundi STH (Starfsmannafélagi Hafnarfjarðar) í gær 25/11 . Rennur blóðið til skyldunnar og er bæði ljúft og skylt að taka að mér eitt og annað viðvikið fyrir STH ef því er að skipta. Var lengi formaður þessa ágæta félags sem státar af langri og merkilegri sögu. Efni fundarins var tvíþætt annars vegar kynntu fulltrúar frá Capacent kjarakönnun BSRB og sérstaklega hlut STH í samhengi við önnur BSRB félög og svo hitt að ræða s.k. launleiðréttingar bæjaryfirvalda sem miklar efasemdir eru um að hafi verið framkvæmdar með skilmerkilegum hætti.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um að niðurstöður launkönnunar BSRB er stórfelldur áfellisdómur um starfsmannastefnu bæjarins, nánast hvar sem litið er. Laun STH félaga eru rúmlega 10% lægri en meðaltalslaun BSRB félaga hvort sem litið er til dagvinnu- eða heildarlauna. Samkvæmt könnun Capacent þá hafa 33,2 % prósent BSRB félaga fengið launaleiðréttingu en einungis 7,2% félagsmanna STH. 40% félagsmanna STH eru mjög ósáttir við laun sín á sama tíma og 27% BSRB félaga eru það. (Heimild Capcent)

Það voru fjörugur umræður og fyrirspurnir að loknum framsöguerindum. Margt bar á góma m.a. launafyrirkomulag.

Í einu orðinu er sagt að óunnin föst yfirvinna sé aðferð til þess að jafna bil milli ólíkrar launakerfa (BSRB /BHM) og þar með viðurkennt að starfsmatið virki ekki ( sem eru engin ný sannindi ). Í öðru orðinu er svo sagt að ekki sé til neitt sem heiti óunnin yfirvinna og þar með staðfest að t.d. háskólamenn innan STH njóti verulega lakari kjara en kollegar þeirra í öðrum stéttarfélögum, sem er brot á öllu sem heitir jafnræði og ákvæðum um sömu laun fyrir sömu vinnu. Þegar að við þetta bætist að Hafnarfjörður eitt bæjarfélaga átti í stórfeldum erfiðleikum við að uppfylla bókun 7 í kjarasamningum (um að dagvinnulaun taki mið af launakjörum viðkomandi stéttarfélags þ.e. lág grunnlaun + yfirvinna STH verður sama og grunnlaun og engin yfirvinna BHM ) var mörgum hópum ekki vært innan félagsins, þó svo að viðkomandi myndu helst óska þess að vera þar. Með þessu hafa bæjaryfirvöld og eða fulltrúar þess tekið að sér að skipa launafólki í félög og sennilega í þeim tilgangi að veikja eitt sterkast aflið í kjarabaráttu starfsmanna bæjarfélagsins STH

Hin grjótharða láglaunapólitík Hafnarfjarðarbæjar kemur fullkomlega í ljós í þessari Capacent könnun sem og starfsmannastefnan í svörum þeirra er sinna starfmannamálum. Augljóst er að átakasækni og óbilgirni þeirra sem með þessi mál fara fyrir hönd bæjarfélagsins síðustu ár ef ekki áratugi , sem og pólitískt GO, hefur komið starfsmannastefnu Hafnarfjarðarbæjar í óefni, í stefnu hinna lægstu viðmiða. Þetta er algerlega afleitt ekki í síst í ljósi þess að meirihluti bæjarstjórnar kennir sig að öllu jöfnu við félagshyggju.

Ég get ekki annað en sem fyrrverandi formaður STH skorað á bæjaryfirvöld að endurskoða starfsmannstefnu sína frá A –Ö. Hafnarfjarðarbær státar af góðu starfsfólki og okkar ágæta bæjarfélag hefur ekki efni að öðru en að breyta algerlega um kúrs í þessum efnum. Niðurstöður Capacent er áfellisdómur, niðurstöður sem er algerlega nauðsynlegt að bregðast við og gefa tilefni til gagngerra endurbóta – það er sannarlega rými til framfara á þessu sviði.

laugardagur, 6. október 2012

Palme


Var í Stokkhólmi um daginn og brá mér eitt kvöldið  í Grand bíóið. Erindið að sjá nýja heimildarmynd um Olof Palme. Var dulítið einkennilegt að sitja í bíóinu sem er jafnframt partur af myndinni sjálfri. Það örlagaríka kvöld 28. febrúar 1986 sótti Palme og frú kvikmyndasýningu í bíóinu. Skammt frá bíóinu er Hötorg jarðlestastöðin við Sveavägen en þar var Palme myrtur er þau hjón gengu áleiðis heim til sín að lokinni kvikmyndasýningu . Við Sveavägen stendur einnig Adolf Fredriks kirkjan þar sem Palme er jarðsettur. Myndin um Palme er afar góð og lýsir vel ferli afar merkilegs stjórnamálamanns nánast frá vöggu til grafar. Það er kaldhæðni örlagana að ung kona, efnilegur leiðtogi ungra jafnaðarmanna, Anna Lindh skulu flytja kveðjuorð í jarðaför Palme,  Lindh varð farsæll stjórnmálamaður, utanríkisráðherra og leiðtogaefni jafnaðarmanna er hún féll fyrir hendi morðingja tæpum tveimur áratugum síðar. Maður upplifir ekki of að fólk klappi í bíó en sú var raunin í fullum sal í Grandbíó við Sveavägegn þetta kvöldið og ljóst að myndin snart áhorfendur afar djúpt.

Olof Palme - Därför är jag demokratisk socialist

Olof Palme - Latin kings

miðvikudagur, 5. september 2012

Frjáls eins og fuglinn

Ég átti þess kost fyrir nokkru að fara í flug á mótorfisi. Það verður að segjast eins og er að það var afar ánægjuleg upplifun. Vona að ég eigi eftir að skreppa í fleiri flugtúra af þessu tagi. Þetta er algerlega einstök tilfinning, hverning maður skynjar hraðann í gegnum vindinn, hverning fisið  klýfur loftið mjúklega og hve þetta er átakalaust allt saman. Greip með mér myndavélina, sem ég átti í nokkru basli með það sem að glerhlíf á hjálmi mínum kom í veg fyrir að ég gætu mundað vélina eins og venjulega, skaut  því út í loftið ( í bókstaflegri merkingu) lon og don  upp á von og óvon. Birti nokkrar myndir hér en geri undirbúningsráðstafannir áður en ég fer í loftið næst. En hvað með það sjón er sögu ríkari.

miðvikudagur, 25. júlí 2012

Aldeyjarfoss

Aldeyjarfoss í Bárðardal  er einn fegursti foss Íslands og þó víðar væri leitað. Stórfengilegt samspil stuðlabergs og fossins mynda í andstæðum sínum  einstaka náttúrufegurð. Tók þessa mynd er ég var á ferðinni um daginn. Hvet alla sem eiga leið um, hvort sem fólk er að koma af eða er að fara Sprengisandsleið, til að staldra við efst í Bárðardalnum og njóta þessarar einstöku náttúruperlu. Svo er það auðvitað einnig fyllilega þessi virði að gera sér ferð á svæðið. Bárðardalurinn og nánasta umhverfi hans hefur upp á margt að bjóða.

miðvikudagur, 27. júní 2012

Ólafur tapar hvernig sem fer - Pyrrosarsigur í besta falli

Það liggur fyrir að sitjandi forseti fær aldrei yfir 50 % atkvæða í komandi forsetakosningum. Úrslitin sem slík skipta engu máli í raun.  Fjöldi meðframbjóðenda og dreifing atkvæða er helsti liðsmaður sitjandi forseta fremur en einhver málefni eða málefnastaða.  Forsetinn hefur á langri vegferð mæðst í mörgu og margt orkað tvímælis, sumt afar tvímælis s.s innileg samskipti og sendiferðir hans í þágu margra þeirra sem settu landið á hausinn. Málefnin eru engin og í raun flest sem rekst á annars horn í þeim efnum, „í einni eða annarri  mynd“.  Vatnalög fyrri ríkistjórnar sem nánast einka(vina)væddu rigninguna stoppuð stutt á borði forseta á sínum tíma sem signeraði þau umyrðalaust.   Lögin voru sem betur fer afnumin af núverandi ríkistjórn áður en þau komu til framkvæmda. Mörg dæmi má taka um  mál sem höfðu allar forsendur til þess fara með á svipaðan hátt og (seinni) Icesave  en var ekki gert?  Það er því einhverskonar populismi sem ræður för  forsetans í þessum efnum fremur en eitthvað fastmótað kerfi.  Mál eins og Icesave hverfa ekki þrátt fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Að sigra kosningar með minnihluta þjóðarinnar að baki sér gerir forseta af „þessari tegund“ umboðslausan með öllu, hvað þá að viðkomandi verði talin  „sameiningartákn“ þjóðarinnar. Umboðið verður veikara en allt  sem veikt er. Forseti með ríflega fjórðung þjóðarinnar að baki sér er ekki með neina lýðræðislega innistæðu eða raunverulegt umboð til að grípa framfyrir hendurnar á þjóðkjörum þingmeirihluta hverju sinni.

Upphaf kosningabaráttu sitjandi forseta er umhugsunarverð og ekki síst tímasetningin  13. maí sem byggir á klækjabrögðum atvinnustjórnmálanna af tiltekinni tegund.   Aðstæður helsta mótframbjóðanda hans voru öllum ljósar og að taka ekki tillit til þeirra segir meira en mörg orð. Það hefði hæglega mátt gera í stað þess að blása til stórsóknar gegn höfuðandstæðing sínum, nánast í þann mund er hún leggst á sæng og vitað er að hún yrði ekki til svara fyrst um sinn.

Ólafur Ragnar Grímsson  mun ekki vinna nokkurn sigur algerlega óháð úrslitum komandi kosninga -  Hafi hann í upphafi ferlisins og ekki síst hans ágæta eiginkona Guðrún Katrín verð sameiningartákn þá fer því víðs fjarri að svo sé í dag.  Þvert á móti  forsetinn er orðin virkur gerandi í pólitískum álitamálum –  gamladags pólitíkus og afar umdeildur sem slíkur líkt og fyrrum. Þetta er ekki sá forseti sem ég studdi 1996.   Vettvangur og leið Ólafs sem einhverskonar bjargvættis þjóðarinnar væri best í gegnum hefðbundna klæjapólitík og þangað ætti hann að snúa sér. Til þess hefur hann alla burði og ríflega það eins og kosningarbarátta hans og "herkænska" sýnir glögglega.

þriðjudagur, 12. júní 2012

Mesta PR flopp seinni tíma

Það verður ekki annað sagt en að hinar s.k. mótmælaaðgerðir (Samstöðufundur) LÍÚ á Austurvelli um daginn hafi verðir þær allra misheppnuðustu í manna minnum. Þátttaka sjómanna hluti af veiðiferð, viðkomandi mótmælendur á fullum launum og sennilega margir með óbragð í munninum enda í miðri kjaradeilu við LÍÚ. Til þess að kóróna alla vitleysuna var „mótmælendum“ í einhverjum tilfellum boðið upp á áfengi í aðdraganda mótmælanna ( http://www.dv.is/frettir/2012/6/7/fengu-afengi-fyrir-ad-motmaela/ )

Ekki veit ég hvaða auglýsingastofa á vegum LÍÚ það var sem missti sig svo rosalega í hugflæðihrynunni að úr varð hreinn kjánaskapur. Austurvöllur er vettvangur „Jóns Jónssonar“, grasrótarinnar, búsáhaldabyltingarinnar. Á miðjum vellinum er vegleg stytta af Jóni Sigurðssyni þjóðfrelsishetju sem stóð fyrir allt öðrum gildum en afar fámenn sérhagsmunasamtök LÍÚ gera. Umgjörðin, formið, staðurinn og nafnið „Samstöðufundur“ leggst allt á eitt við það að gera þessi undarlegu mótmæli að einu mesta (og sennilega dýrasta) PR floppi seinni tíma. Gríðarlegur fjáraustur í ómerkilegar áróðursauglýsingar í sjónvarpi og dagblöðum vikum og mánuðum saman sem enda með algerlega misheppnuðum fundi hljóta að vera þessum háværa minnihluta umhugsunarefni - og ekki síst hvort að „málstaðurinn“ sé ekki senn bæði hallærislegur og „illseljanlegur“ .

mánudagur, 4. júní 2012

Lena er að skilja – Hans ekki allur þar sem hann er séður.

Var fyrir margt löngu í „röð“ í miðasölu á Fornebu flugvelli í Osló, ef röð skyldi kalla. Vorum bara þrjú en afgreiðslan gekk treglega í meira lagi. Í biðinni þá byrjar maðurinn fyrir aftan mig skyndilega að heilsa háum rómi og með virktum. Í fyrstu taldi ég að hann væri að hefja samræður við mig út úr tómum leiðindum en sá (og heyrði) sem var að hann vildi ekkert við mig ræða en hélt áfram eins og einhver væri viðmælandinn? Mér varð um og ó enda maðurinn ekki með sjálfum sér í bókstaflegir merkingu þess orðs. Sá mér til nokkurar furðu að hann var með mjóa leiðslu útúr öðru eyranu sem leiddi í einhverskonar kúlu eða sívalning sem hann bar að vitum sér og talaði í?

Gerði mér greini fyrir því á þessum tímapunkti að ég var vitni að algeru tækniundri, eiginlega byltingu. Var snöggur að koma mér upp slíkum búnaði sem kostaði að vísu ansi mikið. En á móti gríðarlegt hagræði og farsíminn þetta helsta samskiptatæki samtímans orðið öflugt í meira lagi, þótti manni.

Nú mörgum árum seinna er ég staddur í Stokkhólmi á námskeiði og ráðstefnu. Notfæri mér óspart hið afar góða samgöngukerfi borgarinnar . Á tímum snjallsímans hefur margt breyst. Í stað blaða og bókalesturs í strætisvagna- og lestakerfinu er snjallsíminn ( sem verður orðin tæknilega úreltur og hallærislegur innan nokkurra ára og eitthvað annað og betra tekið við ) komin og domínerar með öllu miðlun og miðla af öllum hugsanlegum og ó hugsanlegum tegundum. Er ekki sérsænskt einungis tæknileg formbreyting.

Eitt hefur þó breyst sem er að vinur minn í röðinni forðum hefur öðlast gríðarlegt margfeldi sitt á þessum árum sem liðin eru. Ástandinu má við fyrstu sýn líkja við ógrynni kollektívra mónológa. Svona svipað og maður upplifir í leikskólum þegar og börnin í hóp en þó hvert í sínum heimi leika sér og oft án samhengis við neitt annað en þau sjálf og þeirra hugarheim. Svona er ástandið í lestunum, fullt af fólki sem talar hátt og snjallt í símann og með engum örðum hætti en ef væri það í algeru einkarými. Sennilega er það svo að margur skilgreinir sig fremur sem hluta af rafrænum heimi en hinum hefðbundna sem varðar viðkomandi afar lítið og skiptir litlu máli a.m.k. hvað samskipti og annað varðar. Skyldurnar því fremst við hina rafrænu veröld og þar fara öll megin samskipti fram. Hin fysiska umgjörð, nánasta umhverfi, skiptir litlu sem engu máli, viðkomandi einstaklingar eru einungis líkamlega nærverandi.

Á þessari viku sem ég hef verið hérna hef ég orðið margs vísari um hagi margra og ekki allt gott. Lena er að skilja við Hans sem hún hefur verið gift til nokkurra ára. Hann var ekki allur þar sem hann var séður tjáði hún viðmælanda sínum. Hjónabandið hefði verið mistök sennilega frá upphafi en hinn innri Hans hefði reyndar ekki komið í ljós strax. Hann hafi eytt peningum í hreina vitleysu og verið eitt risa stórt egó. Jonas var æstur einn eftirmiðdaginn, sennilega búinn að fá sér í tánna . Hann sagði viðmælenda sínum, sennilega fyrrverandi eða a.m.k. tilvonandi fyrrverandi kærustu, að hún gæti hirt þessa andskotas íbúð upp i Falun hann kærði sig ekkert um íbúðina og svo kvaðst hann ekki nenna að tala lengur við hana. Eldri maður var svakalega ánægður með pípara sem hann hafði ráðið til að lagfæra lagnir í íbúð sinni. Kvað hann bæði vandvirkan og ódýrann, hvatti viðmælanda sinn eindregið til þess að hafa sambandi við hann og hefja viðskipti enda myndi sturklefinn hjá honum eyðileggjast ef hann drægi viðgerð lengur .

Ung stúlka sagð að mamma hennar væri rosalega leiðinleg og ungur maður taldi fótboltaþjálfarann ekki skilja hvað hann væri góður á kantinum og aðrir þjálfara myndu fyrir löngu verða búnir að sjá þetta og setja hann í liðið, hann taldi sig gegna veigamiklu hlutverki en það væri ferlegt að þjálfarinn skyldi það ekki, það væru margir sem teldu að þjálfarinn ætti að hætta. Ung kona var að fara í sumarfrí í næstu viku, mjög ánægð, ferðin hafi verið á góðu verði, að vísu hefði maðurinn hennar kríað út verulegan auka afslátt af því hann var í Rotary eða einhverju slíku. Það væri bara fínt en það væri eitthvert Rotary fólk með í ferðinni sem væri allt í lagi þó svo að þetta Rotary stand væri hálf leiðinlegt. Sara hafði drukkið rosalega mikið í partínu um helgina og það sem verra var að hún hafði daðrað við Gustav sem hún veit að er kærasti Anniku. Þetta gerði hún alltaf þegar hún var full og það var svona hegðun sem gerði það að verkum að síðasti kærastinn hennar dömpaði henni. Hún ætti að hætta að drekka var mat ungu stúlkunnar sem var að ræða þetta við vinkonu sína

Já þetta og margt annað fékk maður að vita algerlega ó umbeðið. Lífið er fullt af smásögum og þær eru út um allt. Sápuóperuáhorf er með öllu óþarft þegar að Stockholms Tunnelbana er annars vegar – allt löðrandi í „sápum“ þar . Leiðarljós , Aðþrengdar eiginkonur, Dallas og allt hvað þetta heitir nú er hjómið eitt miða við raunveruleikaþáttinn Lífið í lestunum (Tunnelbanan) . Lífið er leikhús segir Goffman með réttu sem og það að félagsfræði lærir maður í stórmörkuðum ( og í Stockholms Tunnelbana)

Hitt er svo annað mál hvort hvað heimur er hvaða heimur og í hvorum við lifum. Það er í mörgum tilfellum mörgum óljóst – ekki satt og ekki síst það  hvort annar er öðrum merkilegri ?

þriðjudagur, 22. maí 2012

Stundum verður mönnum á en..


...viðbrögð ýmissa fyrirtækja í samfélaginu eru merkileg í þessu samhengi t.d. vega úrskurða í samkeppnismálum, skattamálum, vörufölsun o.fl. þar sem viðkomandi biðjast nær undantekningalaust aldrei afsökunar á framferði sínu – það er ekkert viðurkennt, ráðnir fleiri lögfræðingar og málefnum þvælt í dómskerfinu árum saman þó kjarni mála sé öllum full ljós, rýrð kastað í allar áttir og sérstaklega á þá aðila og það fólk sem eru að vinna störf sín í þágu almennings. Dómar eru því að einhverju leiti orðnir spurning um stéttarstöðu sakbornings fremur en um siðferðileg rangindi og lögbrot viðkomandi. Fjölda dæma um slíkt er hægt að taka þó það verði ekki gert hér að sinni. Lokað sérréttindasamfélag síðustu áratuga gerir það að verkum að menn hafa glatað öllu jarðasambandi og telja sig yfir lög hafna, sjá ekkert rangt í gjörðum sínum og skeyta lítt um s.k. viðskiptasiðferði.

fimmtudagur, 17. maí 2012

Samfélag samráðs og sérhagsmuna


Því miður er íslenskt samfélag orðið markerað af átökum, bersýnilega nú um stundir og sennilega hefur svo verið um langa hríð þó svo að það hafi ekki verið eins sýnlegt eins og eftir hrunið. Maður þarf ekki annað en að lesa nokkrar ævisögur til þess að sjá hve grímulaus sérhagsmunabarátta átti sér stað og á sér stað. Mér dettur í hug ágæt ævisaga Guðna í Sunnu (ferðaskrifstofa) sem fór inn á lendur þar sem aðrir voru fyrir á fleti í pólitísku skjóli sérhagmunna, eða endurminningabækur Tryggva Emilssonar verkamanns. Hrunið og ekki síst upplýsingabyltingin hafa gert það að verkum að almenningur sér inn á svið sem áður var honum hulið. Ódýrir farsímar , frelsissímkort og Netið hrundu af stað þjóðfélagsbreytingum fyrir botni Miðjarðarhafs sem ekki sér fyrir endann á. Sama á við um í okkar heimshluta þó með öðrum hætti sé.

Sérhagsmunaöfl á Íslandi eins og LÍÚ eru föst í gömlum lobbýisma sem virkar ekki sem skyldi nú um stundir en fara þó sínu fram hverju sem á gengur. Verða sér að athlægi með því að líkja grjótharðri sérhagsmunavörslu sinni við hlutskipi gyðinga í seinni heimstyrjöldinni eða með grímulausum hótunum um að leggja heilu og hálfu byggðarlögin í eyði, sitji eða standi framkvæmda-, löggjafa- og dómsvaldið ekki eins og viðkomandi krefjast. „Vandamál“ sérhagsmunahópa eru einnig þau að náin og innileg tengsl sérhagsmuna, stjórnmálaafla og stjórnmálamanna eru orðin afar sýnileg og trúverðugleiki viðkomandi aðila því í sögulegu lágmarki. Stikkorð á Alþingi eins og hvalveiðar, kvótakerfi, stóriðja, orkumál o. fl. gera það að verkum að tilteknir þingmenn spretta upp, bruna í pontu og verja tiltekna sérhagsmuni með kjafti og klóm. Það er auk þess algerlega með eindæmum að hægt sé að halda þinginu í gíslingu vikum saman með einhverjum fundatæknilegum útúrsnúningum sem hafa ekkert að gera með raunveruleg efnisatriði mála, sem öll eru löngu fram komin og öllum ljós. Það getur ekki verið tilgangur þingskapa að slíkt sé mögulegt, svo ekki sé minnst á virðingarleysi af hálfu þeirra sem þetta stunda gagnvart lýðræðinu og síðast en ekki síst hve augljós og grímulaus sénhagsmunavarsla ræður för!
Hvernig sérhagsmunakerfi eins og ýmsir bankar, fjármálastofnanir og tilteknar endurskoðunarskrifstofur dansa með, verja og berjast fyrir áframhaldandi mismunun og misrétti í samfélaginu, er flestum ljóst.Vandi sérhagmunahópa dagsins í dag og versti óvinur er sýnileikinn, upplýsingarnar, upplýsingatæknin. Vídd, margbreytileiki og umfang fjórða valdsins, fjölmiðlunar og það gangvirkrar, er orðið slíkt að hagmunahópar ná ekki að ráðskast með fjórða valdið að vild eins og áður var. Þetta sést vel m.a. í skjótum og sterkum viðbrögðum almennings við algerlega misheppnuðum PR aðgerðum LÍÚ. Þetta sést á einnig á fyrrum flaggskipi fjórða valdsins Morgunblaðinu sem engin nennir lengur að lesa og þeir fáu sem það gera er all flestum ljóst að ritstjórnarstefnan lýtur algeru valdi sérhagsmunahópa. Málgagnið er orðið svo örvæntingarfullt að það dreifir ókeypis Ipad spjaldtölvum í allar áttir gegn því að fólk gerist áskrifendur.

Upplýsingatæknin hefur lýst upp sviðið og svipt tjöldunum frá að töluverðu leyti. Hið lokaða rými sérhagmuna minnkar sífellt og gamla klíku og samráðs möndlið sem fólst í því að skara eld að eigin köku með hvað meðulum sem var er gærdagurinn – Núna eru aðrir tímar og vonandi að upplýsingabyltingin og öll sú tækni reynist gott verkfæri í þágu almannahagsmuna. Sú er raunin fyrir botni Miðjarðarhafs og vonandi að svo verði einnig raunin hvað varðar íslenskt samfélag. Á því er mikil nauðsyn því langvarandi og áframhaldandi ójöfnur lífsgæða veit ekki á gott. Mikilvægasta verkefni samtímans er að jafna lífskjörin með réttlátri skiptingu þjóðarverðmæta og sameigna – það verður ekki gert með því að eitt fyrirtæki „eigi“ 12 hvern fisk í sjónum sem syndir í kringum landið.

miðvikudagur, 25. apríl 2012

Hafa áfengisauglýsingar áhrif?

Brá mér í hádeginu (24. apríl) á málstofu Viðskiptafræðideildar HÍ - kl 12:00 í stofu  Ht 101 eins og sagði í auglýsingunni ! Efnið athyglisvert "Hafa áfengisauglýsingar áhrif" Friðrik Eysteinsson fv markaðstjóri Vífilfells  og aðjúnkt við Viðskiptafræðideildina ku hafa átt að vera með framsögu ef marka má auglýsingu um málstofuna?

Áfengisauglýsingar hafa þá einstöku og "phenomal"sérstöðu umfram aðrar auglýsingar að virka alls ekki og ef nokkuð þá bara einungis á þá sem þegar drekka? Þess vegna ber að leyfa þær segja hagsmunaaðilar, sem hlaðnir eru vísindalegum rökum tiltekinna fræðimanna. Sem sérstakur áhugamaður um velferð barna og ungmenna og um lögvarin rétt þeirra til þess að vera laus við áfengisáróður þá hafði  ég uppi áform um að ræða þessi einstöku vísindi að lokinni framsögu. Veit ekki hvort fundurinn var málefnalegur ? sennilega,  a.m.k. var engin vitleysa sögð, engin var framsagan, engar fyrirspurnir en tveir gestir sem spjölluðu um þetta brýna málefni í nokkra stund sammála um að Alþingi ætti að samþykkja fyrirliggjandi frumvarp sem kemur í veg fyrir ómerklega útúrsnúninga úr siðferðilega skýrum núgildandi lögum um bann við áfengisauglýsingum. (sjá ennfremur www.foreldrasamtok.is )

sunnudagur, 1. apríl 2012

Þá er það ákveðið

Fékk samtal um daginn frá Björn Andersson forstöðumanni Instutition för socialt arbete við Gautaborgarháskóla. Erindið svo sem ekki óvænt, spurning um hvort ég væri búin að hugsa málið varðandi starf við skólann. Tilgangurinn að gera tillögur að og setja saman námsbraut í fritidsvetenskap ( samhällspedagogik ) sem við nefnum tómstunda- og félagsmálafræði á íslensku en ég kýs að nefna félagsuppeldisfræði og vísa þá til fræðilegs bakgrunns námsins. Björn hefur oft viðrað þessa hugmynd við mig á síðustu árum. Síðustu misserin hefur Háskólinn í Gautaborg og stofnun Björns unnið að framgangi málsins með þeim árangri að málið er komið af hugmyndastiginu.

Námsárum mínum hinum fyrri eyddi ég í þessari yndislegu borg.  Það er í raun forréttindi að fá tækifæri til  þess að sækja nám erlendis. Maður öðlast ekki bara tiltekna fræðilega þekkingu. Það að kynnast öðru samfélagi og verða hluti af því er ekki síðri lærdómur og mótar mann enn frekar og verður mikilvæg viðbót við gott nám. Fyrir slíkt verður maður ávallt þakklátur  Á ennþá marga vini  í borginni og hef komið þarna nokkuð reglulega í gegnum árin m.a. varðandi fyrirlestrarhald o.fl.

Ef fram fer sem horfir þá sé ég fram á að kíkja á mína menn í sænska boltanum  Blå vitt (IFK Göteborg) á Ullevi leikvanginum síðsumars. Svo ekki sé minnst Förlunda indjánana (þó engir séu indjánarinir í Frölunda borgarhlutanum) í íshokkíunu,  20 þús manns í Skandinavium og allt á suðupunkti er einstök upplifun. Eða það að spáséra um  Kungports avenyn eina alvöru breiðstrætið í Skandinaviu, nú eða það að skella sér út í eyjarnar í skerjagarðinu á heitum sumardögum.


laugardagur, 3. mars 2012

Samfestingurinn - Samfés

Það er eins og gerst hafi í gær sú stund er við nokkur stofnuðum SAMFÉS. Staðurinn var hið virðulega hús Fríkirkjuvegur 11 og dagurinn 9. desember.  Kalt, kyrrlátt og fallegt vetrarkvöld árið 1985. Ekki  grunaði okkur sem að þessu stóðu á þeirri stundu  hve farsæl vegferð samtakanna yrði .
Datt þetta allt í einu í hug þegar að ég stóð fyrstu vaktina á  Samfésballinu ,eða Samfestingnum eins og það er nefnt núna,  í gærkveldi. Hef af því mikla ánægju og sjálfsagt að leggja hönd á plóginn. Fyrirkomulag er þannig að það er  þörf á auka gæslu í upphafi dansleiksins því starfsmenn félagsmiðstöðvanna sem jafnframt sinna gæslu koma með unglingunum.  

Í miðju stússinu í dyragæslunni  innan um æskufólk sem geislaði  gleði, spenningi  og ánægju fór ég að velta fyrir mér hvort einhverstaðar í heiminum sé samkoma þar sem um 30% af tilteknum aldurshópi einnar þjóðar komi saman á einum stað. Og það sem meira er  stórsamkomu sem er nánast hnökralaus í framkvæmd og teljandi á fingrum annarra handar þau atvik sem koma upp, sem eru sem betur fer auk þess öll minniháttar. 4.500 unglingar sem eru sjálfum sér og öðrum til sóma saman komin á tveggja daga stórhátíð, sem saman stendur af dansleik og söngvakeppni, eru góð og þægileg skilaboð frá efnilegri æsku þessa lands.

Og sem betur fer eykst skilningur okkar sem eldri eru á mikilvægi þess að æskan njóti verðskuldaðrar umfjöllunar. Forsíða Fréttablaðisins í dag er til fyrirmyndar sem og bein útsending RÚV frá söngvakeppninni  bæði í útvarpi og sjónvarpi.

Já sennilega mikið vatn runnið til sjávar frá kvöldinu góða að Fríkirkjuveginum og svo sannarlega ánægjulegt að sjá  og upplifa hve mikilvægur vettvangur SAMFÉS er íslensku æskufólki. Slíkt er ekki sjálfgefið og til þess að svo hafi orðið þarf fullt af góðu fólki með stór hjörtu sem vinnur af fagmennsku og eldmóð. Sú er raunin og í þessu kristallast velgengni SAMFÉS.

mánudagur, 27. febrúar 2012

Meirihlutinn í Hafnarfirði falinn

Hef undanfarið verið með könnun á dagskinnunni um fylgi flokka í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Sennilega ekki ómerkari könnun en margt það sem maður sér presenterað í ýmsum fjölmiðlum. En hvað með það þetta er nú meira til gamans gert fremur en það að hér séu mikil vísindi á ferð ... og þó?
Spurt var: "Ef kosið væri til bæjarstjórnar í Hafnarfirði í dag hvernig myndir þú kjósa?" Tæplega 100 manns svöruðu og niðurstöður voru í % eftirfarandi:


Þetta þýðir með öðrum orðum það að meirhlutinn í Hafnarfriði er gjörfallin, fær einungis 22% atkvæða. Ótvíræðir sigurvegarar kosninganna yrðu "Annað framboð" og svo þeir sem "skila auðu" sem samtals fá hreinan meirihluta 54% sem gæfi sennilega  7 af 11 bæjarfulltrúum ef atkvæðin söfnuðust á einn stað. 44% "Annars framboðs" myndi hugsanlega ná  hreinum meirihluta  6/11vegna skiptingu atkvæða milli annara flokka en ég hef þó ekki reiknað það. Fjórflokkurinn sameinaður nær einungis 44 % samtals og vandséð hverning "hann" nái  meirihluta án utanaðkomandi afls. Hvort þessi 44%  sem "annað framboð" fær fari öll á eitt , tvö eða þrjú framboð er ekkert hægt að fullyrða um. En ljóst er að ótrúlega dræm kosningaþáttaka og fjöldi auðra og ógildra  atkvæða sem var mjög hár í síðustu kosningum er sterk vísbending um óánægju með þá kosti sem í boði voru. Af þeim sökum einum verður að telja það nánast öruggt að fram komi afl/öfl sem muni blanda sér í slaginn.

Kópavogsheilkennið í bæjarstjórnarmálum getur því hugsanlega orðið pólitísk staða hér í Hafnarfirði eftir næstu bæjarstjórnarkosningar ef tekið er mið af þessum niðurstöðum - 6-8 framboð í kjöri þar sem  3- 5  framboð mynda meirihluta ? - Veit það ekki  - en veit þó það,  að staðan fyrir næstu bæjarstjórnarkosningar í Hafnarfirði verður flókin og margslungin sem endranær - Það sem hugsanlega verður nýlunda er formgerð flækjunnar, sem gæti orðið einstök jafnvel á hafnfirska vísu. Hitt er svo allt annað mál hvort nokkuð sé að marka þessar niðurstöður og ljósi þess munu menn og konur fara með þetta eftir þeim hagsmunum sem henta viðkomandi hverju sinni eins og ávallt er.