Það vakti athygli fyrir nokkru þegar að ógæfumaður var dæmdur til
fangelsisvistar eftir að hann varð uppvís að því að stela nokkrum bjórum
í ríkinu. Að vísu átti hann einhver önnur afbrot af svipuðum toga
óuppgerð en var eðli málsins settur í steininn. Lögbrot er lögbrot og
umfangið sem slíkt skiptir ekki máli – eða hvað? Lögbrot sem slíkt er
nákvæmlega sama hvort það er stórt eða lítið. Í siðuðu samfélagi skiptir
ekki máli hvort menn stela einu súkkulaðistykki eða 100 allt eru þetta
glæpir.
Þetta vekur mig til umhugsunar um ákveðið misræmi hvað
varðar önnur lögbrot t..d. eins og brot á 20. gr áfengislaga um bann við
áfengisauglýsingum. Í þeim efnum hafa “vettlingatök” verið viðhöfð.
Þó að dómum fjölgi þá er það umhugsunarvert í
Hæstaréttardómi þar sem ritstjóri Mannlífs var dæmdur til sektar þá
skilar einn dómari séráliti þess efnis að þar sem brot séu svo mörg að
hinn seki ætti ekki gjalda þess að vera einn kærður. Jafnræði fælist í
því að þessi eini ætti að sleppa? í stað þess þá væntanlega að vinda sér
í kæra þá sem lögbrot hafa framið. Þess má geta að ritstjórinn
sakfelldi lagði fram sér til “málsbóta” fjórar möppur er innihéldu 999
áfengisauglýsingar sem ekki hefðu verið kærðar?
Þetta vekur mig
til umhugsunar um hve gríðarlegt virðingarleysi viðkomandi aðilar sýna
lögum landsins. Áfengisframleiðendum og innflytjendum áfengis flestum
hverjum virðist vera algerlega sama um lög landsins sniðganga þau,
brjóta og sýna af sér markvissan og einlægan brotavilja. Dómar þ.e.a.s.
fyrir utan það að einn og annar forstjórinn eða ritstjóri lendir á
sakaskrá, eru svo vægir að greiðsla sektar er aðeins brotabrot af
auglýsingakostnaði og dómar miðað við fjölda brota eru allt of fáir.
Þetta
vekur mig til umhugsunar um 20. grein áfengislaga sem fyrst og fremst
er sett fram sem liður í vernd barna og ungmenna. Það er skynsamlegt
enda áfengi engin venjuleg “matavara” . Íslendingar drekka ekki rauðvín
með kjötbollunum á miðvikudögum eins og er óskhyggja einhverra þingmanna
sem vilja leyfa sölu á áfengi í stórmörkuðum, en eins og kunnugt er þá
er verulegur fjöldi starfsmanna unglingar og í einhverjum tilfellum allt
niður í 12 ára börn! Áfengi er viðkvæm vara eins og t.d. lyf og tóbak
og lýtur því að sjálfsögðu öðrum lögmálum en vörur almennt. Börn og
unglingar eiga því lagalega og ótvíræðan rétt á því að vera laus við
þennan einhliða áróður sem áfengisauglýsingar eru. Bann við
áfengisauglýsingum er ekki skerðing á tjáningarfrelsi eins einhverjir
brennivínsbransans menn hafa haldið fram. Samkvæmt skýrum niðurstöðum
Hæstaréttar um það atriði þá er um keyptan einhliða áróður að ræða sem
ekkert á skylt við tjáningarfrelsi. Hitt er svo annað mál að það er
teljandi á fingrum annarar handar þau tilefni sem fulltrúar
áfengisbransans hafa tekið þátt í almennum tjáskiptum – t.d. í
fjölmiðlum eða öðum opinberum vettvangi. Því þora menn ekki og kjósa að
höndla í samræmi við eigin skoðanir um “tjáningarfrelsi” þ.e. með
fleiri áfengisauglýsingum.
Þetta vekur mig til umhugsunar um hve
lágt menn leggjast í þessum málum. Ég sagði eitt sinn á fræðslufundi í
ónefndu foreldrafélagi að það væru engin mörk og nefndi það að sennilega
myndu menn auglýsa bjór á fæðingardeildinni ef menn kæmust upp með
það. Var þá að ýja að því hvernig áfengisbransinn beinir auglýsingum
markvisst að börnum og unglingum. Fékk skömm í hattinn fyrir þessi
ummæli en viti menn ekki löngu síðar barst mér myndband þar sem hinir
dönsku “Gunni og Felix” léku í bjórauglýsingu. Nær fæðingardeildinni
verður vart komist.
Þetta vekur mig til umhugsunar um þá lágkúru
þegar að settar voru áfengisauglýsingar inn á bloggsíður barna; eða
þegar að Ölgerð Egils Skallagrímssonar lét koma fyrir áfengisauglýsingum
í strætóskýlum á stór Reykjavíkursvæðinu í aðdraganda grunnskólaprófa
og að stjórn Strætó b.s. skyldi sýna sínum helstu kúnnum, börnum og
unglingum slíka vanvirðu; eða þegar að íþróttafélag gerir fullann Lunda
með bjór í hönd að einkennismerki útihátíðar; eða þegar RÚV birti
áfengisauglýsingum í kjölfar þess að forseti Íslands veitti íslensku
forvarnarverðlaunin og eins í kjölfar þess þegar að liðsmönnum íslenska
handknattleikslandsliðsins voru veittar orður; eða þegar börn eru notuð í
áfengisauglýsingar eins og fyrirtækið Vífilfell gerir; eða þegar að
útvarpstöðvar sem ætlaðar eru börnum og unglingum útvarpa
áfengisauglýsingum; eða þegar að auglýst að ekki sé hægt að horfa á
enska boltann nema verða ölvaður; eða þegar að áfengisbransinn segist
vera hluti af íþróttaleikum; eða þegar ungt fólk eignast ekki vini fyrr
en það hefur drukkið 12 bjóra.? Svona mætti lengi telja og ljóst að
virðing fyrir réttindum barna og unglinga er engin.
Þetta vekur
mig til umhugsunar um það að áfengisauglýsingar virka. Hagsmunaaðilar
hafa haldið hinu gagnstæða fram og nefnt í því samhengi að ekki sé hægt
að finna fylgni milli auglýsinga og aukinnar drykkju t.d. ungmenna.
Þetta er útúrsnúningur og ætla sér að nýta rannsóknaraðferð sem einungis
er nýtt á tilraunstofum í lokuðu eða tilbúnu umhverfi eins t.d. við
lyfjarannsóknir virka einfaldlega ekki sem mælitæki hvorki hvað varðar
áfengisauglýsingar eða annað í þeim dúr. Slíkt er ekki hægt að mæla í
margþættu samfélagi þar sem að óteljandi atriði hafa áhrif sem ekki er
hægt að einangra sem gera það að verkum að ekki fæst marktæk fylgni.
Þetta vita allir sem fást við rannsóknir. Grundvallar spurningin er því
sú ef auglýsingar virka ekki hvers vegna er þá verið að auglýsa?
Auglýsingar virka og því til sönnunar má nefna að Bandaríkjamenn gerðu
könnun sem fólst í því að rannsaka ungmenni sem lent höfðu í áfengis- og
vímuefnaneyslu og þar kom greinilega í ljós að gagnvart þessum hópi
höfðu áfengisauglýsingar haft veruleg áhrif. ( Journal of Public Health Policy (2005) 26, 296-311)
Þetta
vekur mig til umhugsunar um alla þá vinnu sem foreldrasamfélagið og
allir þeir aðilar sem vinna með börnum og unglingum hafa lagt á sig í
forvarnaskyni. Á sjöunda og áttunda áratug síðust aldar voru
skólaskemmtanir í unglingadeildum fjarri því að vera áfengislausar og í
einhverjum tilfellum þurfti afskipti lögreglu vegna ölvunar. Sem betur
fer heyrir þetta fortíðinni til og með sífellt betri samstarfi foreldra
með tilkomu foreldrafélagana og síðar víðtæku samstarfi þeirra aðila
sem vinna með börnum og unglingum breytist ástandið hægt og sígandi til
hins betra. Markmið foreldrasamfélagsins um vímuefnalausan grunnskóla
er raunhæft og með samstilltu átaki allrar þeirra sem bera velferð
æskunnar fyrir brjósti það hefur margt áunnist þrátt fyrir gegndarlausan
áfengisáróður sem beint hefur verið sérstaklega að börnum og unglingum.
Sá sem þetta ritar veit að árangur hefði án alls efna verið betri ef
áfengisbransinn léti börn og unglinga einfaldlega í friði. Áfengisauglýsingar eru
boðflennur í tilveru barna og unglinga sem þau eiga lögvarðann rétt til
þess að vera laus við og ganga þvert á öll uppeldismarkmið
foreldrasamfélagsins .
Þetta vekur mig til umhugsunar um siðferði
eða viðskiptasiðferði. Þegar að grjótharðir viðskiptahagsmunir einir
ráða algerlega för án nokkurs tillits til laga eða almenns siðferðis
vaknar sú áleitna spurning hvort slíkt eigi ekki við alla aðra
starfsþætti viðkomandi fyrirtækis? Getur verið að sá hroki sem
viðkomandi fyritæki sýnir réttindum barna og unglinga sé fyrirtækið í
hnotskurn?
Þetta vekur mig til umhugsunar um hvort ekki sé
óviðeigandi að eiga viðskipti við slík fyrirtæki. Er forsvaranlegt að
eiga í viðskiptum við fyrirtæki sem ota áfengi á börnum manns? Að mati
þess sem þetta ritar er engin spurning um að sniðganga auglýstar
áfengistegundir. Myndir þú versla við kaupamann sem ýtti tóbaki að
börnunum þínum. Held ekki – og því auðvitað sjálfgefið að slíkt gildi
einnig við þá aðila sem ota áfengi að börnum og unglingum.
Þetta
vekur mig til umhugsunar um hvers vegna við all margir foreldrar og fólk
sem ber velferð æskunnar fyrir brjósti stofnuðum Foreldrasamtök gegn
áfengisauglýsingum (www.foreldrasamtok.is
). Í meira lagi undarlegt að stofna hafi þurft sérstök samtök í þeim
eina tilgangi að freista þess til að farið sé að lögum? Er sennilega
einstætt i hinum vestræna heimi og í raun sorglegt dæmi um lágt
viðskiptasiðferði og virðingarleysi gagnvart börnum og unglingum . Bendi
fólki á síðu samtakanna (www.foreldrasamtok.is )þar sem koma má á framfæri með rafrænum hætti ábendingum um brot á lögum um bann við áfengisauglýsingum.
Sýnum hug okkar í verki sniðgöngum auglýstar áfengistegundir – sýnum ábyrgð og tilkynnum um brot.
miðvikudagur, 30. nóvember 2011
mánudagur, 21. nóvember 2011
Hermann Fannar Valgarðsson
Dagsins amstur verður afar fáfengilegt þegar að þær fréttir
berast að ungur vinur manns hafi í blóma lífsins orðið bráðkvaddur. Á slíkum stundum setur mann hljóðan og maður
skilur lítt hin æðstu rök tilverunnar.
Það fór ekki fram hjá neinum þegar að unglingurinn
Hemmi mætti á svæðið ásamt góðum hópi, fremstur meðal jafningja. Vettvangurinn
var félagmiðstöðin Vitinn í Hafnarfirði
um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Eins og hans var von og vísa var
ekkert verið að tvínóna við hlutina og fyrr en varði var komin mikil aksjón í starfið. Uppátæki ungmennanna margvísleg og ávallt vörðuð óbilandi
bjartsýni æskunnar sem lætur ekki einhver praktísk atriði trufla góða hugmynd. Það var því margt brallað og stundum fannst
starfmönnum nóg um. En allt gekk þetta
vel og frábært að fylgjast með þessum
ungmennum þroskast og dafna sem sjálfstæðir og virkir einstaklingar.
Það lá beint við að Hemmi kæmi til starfa hjá ÍTH (Íþrótta-
og tómstundaráði Hafnarfjarðar) þegar að
hann hefði aldur til. Það voru í hans tilfelli óljós skil því erfitt var að
greina hvenær hann hætti að vera unglingur og varð starfsmaður. Kannski að hann hafi ekki heldur gert nein skil
sjálfur á því. Þegar við hugsum til Hemma koma upp ótrúlegustu myndir í hugann
eins og hæfileikakeppnin Höfrungur og Risapáskaeggjaunginn, aldrei lognmolla
eða óleyst vandamál. Hemmi hafði alla þá
eiginleika sem að góður starfsmaður í æskulýðsstarfi
þarf að búa yfir, hann var ungu fólki góð fyrirmynd, starfaði í anda sköpunar og frumkvæðis og ávallt
jákvæður. Hann vissi að mikilvægi
starfsins liggur í því að leiða saman fólk, byggja upp virk samskipti og gefa ungu fólki kost á að vinna saman undir merkjum lýðræðis að
margvíslegum verkefnum. Að gefa ungu
fólki kost á því að öðlast félagslegan þroska og félagslega hæfni í gegnum hin
ýmsu viðfangsefni . Með öðrum orðum að gefa ungu fólk kost á að menntast í
víðtækasta skilning þess orðs.
Þessar góðu eigindir nýtust Hemma örugglega vel á öðrum
vettvangi og í hans margvíslegu
verkefnum síðustu ára. Það er afar sárt að kveðja góðan vin sem
yfirgefur okkur allt og fljótt. Mest er þó sorg Söru, sonar þeirra og nánustu
skyldmenna. Um leið og við vottum þeim okkar dýpstu samúð þá þökkum við fyrir
að hafa átt vináttu Hemma í gegnum árin
og góðar minningar um góðan dreng – blessuð sé minning hans.
Árni Guðmundsson fv. æskulýðs- og tómstundafulltrúi
Hafnarfjaðrar
Geir Bjarnason
forvarnafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar
miðvikudagur, 16. nóvember 2011
Íslenskar æskulýðsrannsóknir 2011
Íslenskar æskulýðsrannsóknir 2011
Menntavísindasvið Háskóla Íslands v/Stakkahlíð - Bratti 19. nóvember 2011 - Kl. 10:00 – 17:00
Undirbúningshóp skipa; Óskar Dýrmundur Ólafsson formaður Æskulýðsráðs, Árni Guðmundsson MVS HÍ, Andrea Hjálmsdóttir Félagsvísindadeild HA, Jón Sigfússon R&G og Stefán Hrafn Jónsson formaður Ráðgjafarnefndar um æskulýðsrannsóknir. Aðrir samstarfsaðilar eru: Félag fagfólks í frítímaþjónustu FFF og Rannsóknarstofa í Bernsku- og æskulýðsfræðum BÆR.
Þátttökugjald er 500 kr og frítt fyrir nema - Vinsamlegast skráið ykkur í póstfangið arni@hi.is
Laugardagur 19. nóvember 2011
- Dagskrá-
Ráðstefnustjóri: Stefán Hrafn Jónsson.
10:10 Ávörp
Jón Torfi Jónasson forseti Menntavísindasviðs HÍ og
Óskar Dýrmundur Ólafsson formaður Æskulýðsráðs.
10:20 Skýrsla ráðgjafanefndar um æskulýðsrannsóknir – Dr. Stefán Hrafn Jónsson HÍ.
10:50 Hugmynda- og aðferðafræði skátahreyfingarinnar -Dr. Ólafur Proppé.
11:20 Forvarnir gegn átröskunum meðal unglingsstúlkna, Elva Björk Ágústsdóttir M.A ( Höf Sigrún Daníelsdóttir sálfræðingur, Elva Björk Ágústsdóttir M.A. í sálfræði, Friðrik H. Jónsson, prófessor í sálfræði við HÍ og Fanney Þórsdóttir, lektor í sálfræði við HÍ.).
11:50 Umfang og áhrif reykinga í kvikmyndum - Sólveig Karlsdóttir Embætti landlæknis.
12:10 Félagsmiðstöðvar í Reykjavík – Gísli Árni Eggertsson M.ph Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur.
12:40 Börn og sjónvarp á Íslandi – Dr Þorbjörn Broddason HÍ og Dr Kjartan Ólafsson HA.
13:10–14:00 Hádegishlé
14:00 Málstofur
Stofa K 205 / Stofa K 206
14:00
Áhrif tveggja ára skólaíhlutunar á holdafar, hreyfingu og þrek 7 ára barna. - Dr. Kristján Þór Magnússon.
Tómstundamennt á Íslandi – Vanda Sigurgeirsdóttir Lektor HÍ.
14:25
Líðan, félagsleg tengsl og þátttaka í skipulögðu frístundastarfi, Ungmenni í 8.-10. bekk sem alast upp á heimili þar sem annað móðurmál en íslenska er töluð: - Guðrún Inga Baldursdóttir, nemi í sálfræði í HR (Leiðbeinendur: Bryndís Björk Ásgeirsdóttir Háskólinn í Reykjavík og Hrefna Guðmundsdóttir Frístundamiðstöðinni Kampur.
Þróun fagumhverfis – sjónarhorn félagsuppeldisfræðinnar – Árni Guðmundsson M.Ed – HÍ.
14:50
Tengsl bjagaðrar líkamsmyndar við þyngdarstjórnun unglingsstúlkna í eða undir kjörþyngd -Ársæll Arnarsson og Nanna Ingibjörg Viðarsdóttir.
„Þetta er svo miklu dýpra en bara að sitja með þeim og hanga“ – Starfsfólk í félagsmiðstöðvum ÍTR - Hulda Valdís Valdimarsdóttir M.A.
15:15
Síðdegiskaffi
15:35
Afdrif ungmenna sem tóku þátt í Hálendishópnum 2001-2005 - Hervör Alma Árnadóttir lektor HÍ.
Fagmennska í frístundaheimilum: Hver er sýn starfsmanna?
Kolbrún Þ. Pálsdóttir Doktorsnemi við Menntavísindasvið HÍ
16:00
Er siðferðilega rétt að berjast gegn offitu? Sigrún Daníelsdóttir sálfræðingur
Tómstundafræði og rannsóknir? Jakob F Þorsteinsson M. A – HÍ.
16:25
Maður lærir líka að vera góður - Sýn unglinga á félagsmiðstöðvar og eigin þátttöku í starfi þeirra. - Eygló Rúnarsdóttir M.A. Skóla og frístundasviði Reykjavíkurborgar.
Atgervi ungra Íslendinga- Hreyfing og holdafar. Sandra Jónasdóttir M.S. doktorsnemi við MVS
17:00
Kynningar á veggspjöldum -
Ráðstefnuslit
föstudagur, 11. nóvember 2011
Ert þú búin að skrifa undir ?
Einelti er er alvarlegt mál - ert þú búin að sýna hug þinn í verki gagnvart þessari vá sem einelti er? Þú getur gert það með því að undirrita meðfylgjandi sáttmála:
"Við undirrituð skuldbindum okkur til þess að vinna af alefli og einurð gegn einelti í samfélagi okkar. Við munum standa vörð um rétt fólks til þess að lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt. Við munum sérstaklega gæta réttar barna og ungmenna sem og einnig allra hópa sem ekki eiga sér málsvara eða sterka rödd. Við munum öll hvert á okkar sviði, skuldbinda okkur til þess að hafa áhrif til góðs á nánasta umhverfi okkar. Við ætlum að vera góð fyrirmynd og leggja okkar af mörkum til þess að vinna bug á því samfélagslega böli sem einelti er"
Undirritun hér
"Við undirrituð skuldbindum okkur til þess að vinna af alefli og einurð gegn einelti í samfélagi okkar. Við munum standa vörð um rétt fólks til þess að lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt. Við munum sérstaklega gæta réttar barna og ungmenna sem og einnig allra hópa sem ekki eiga sér málsvara eða sterka rödd. Við munum öll hvert á okkar sviði, skuldbinda okkur til þess að hafa áhrif til góðs á nánasta umhverfi okkar. Við ætlum að vera góð fyrirmynd og leggja okkar af mörkum til þess að vinna bug á því samfélagslega böli sem einelti er"
Undirritun hér
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)