fimmtudagur, 23. febrúar 2017

Það eru ekki allir með tvö eistu!


Það eru ekki allir með tvö eistu! Hlustaði á umræður um áfengisfrumvarpið á Alþingi í dag (23.feb.2017)  Var athyglisvert í meira lagi.  Framsaga fyrsta flutningsmanns frumvarpsins, sem hóf þessa sjöundu eða áttundu tilraun Sjálfstæðismanna til að koma brennivíni í búðir, var einstök. Þingmaðurinn fór um víðan völl en skautaði afar létt yfir allt sem laut að lýðheilsu og velferðarsjónarmiðum en hafði í hávegum hin ítrustu viðskiptasjónarmið. Og af því að engin (lesist áfengisbransinn) tæki mark á lögum um bann  á áfengisauglýsingum þá ætti bara að leyfa þær samhliða því að koma brennivíni í búðir.

Einhverstaðar þarna innan um í framsögunni var umfjöllun um rannsóknir almennt á þessu sviði sem viðkomandi kvað  nánast almennt eiginlega ekkert mark á takandi, þá væntanlega rannsóknum frá Alþjóðheilbrigðisstofnuninni WHO, Landlækni og fleirum. Frummælandi taldi flestar rannsóknir vera mest megnis einhver andstæð meðaltöl út og suður, miðgildi m.m. , tók nokkur dæmi, lagði saman, deildi og lokaði þeim þætti ræðunnar með umfjöllun um að  þetta væri ekki svona flókið.  Kom að lokum, máli sínu til útskýringa, með dæmi um þá  fullyrðingu að mannkynið hefði að meðaltali bara eitt eista? sem væri auðvitað „rétt“ en væri þekking sem hefði engan tilgang?   Afhjúpaði með þeirri staðhæfingu sinni allnokkra vanþekkingu á sviði vísinda og aðferðafræða. Sem gefur auk þess fyllsta tilefni til þess að setja málið í svolítið „Halla & Ladderí“

Því þó svo að þingmaðurinn kunni af hafa tvö eistu þá er slíkt ekki algilt, margar manneskjur hafi misst eistu eitt eða tvö af margvíslegum ástæðum og þvi rétta svarið að mannfólkið hefur minna en eitt ( < 1 ) eista að meðaltali. Og ef við höldum okkur áfram við þessa líkingu og segjum, sem dæmi, að fram komi í rannsókn hérlendis að  meðaltalsfjöldi eistna á Vestfjörðum væri mun lægri en landsmeðaltal eistna, t.d. 0,6 per manneskju í stað 0,95,  þá þyrfti að rannsaka málið enn frekar og grípa til viðeigandi aðgerða því ekki væri slíkum eistnaskorti viðbætandi á aðra búsifjan Vestfirðinga síðustu árin.  Með öðrum orðum ekki vanmeta meðaltölin, miðgildin o.fl. 

En að öllu gríni slepptu þá get ég ekki sem einarður andstæðingur þessa frumvarps verið annað en ánægður með framsöguræðuna, ekki það að ég hafi verið sammála því sem þar kom fram, þvert á móti, ég er ósamála ræðumanni og flytjendum þessa frumvarps í öllum meginatriðum, ræðan sýndi í hnotskurn og með skýrum hætti, og í því liggur mikilvægi hennar, hvað þetta frumvarp er tilgangslaust, illa ígrundað og algerlega úr takt við öll lýðheilsu- og velferðarsjónarmið í okkar samfélagi – Hvet alla til þess að kynna sér umræðu dagsins á Alþingi því þrátt fyrir þessa einstöku ræðu kom margt afar athyglisvert fram í ræðum margra þingmanna

Engin ummæli:

Skrifa ummæli