þriðjudagur, 5. október 2004

Áttu góða hugmynd um sparnað?

Segir á innra neti Hafnarfjarðarbæjar, en þar er starfsfólk hvatt til þess að leggja inn sparnaðartillögur í tengslum við fjárhagsáætlun. Það er allt saman gott og gilt ef ekki væri einn stórkostlegur ljóður á ráðagerð þessari sem er sá að allt er þetta nafnlaust. Fær fyrir vikið allt aðra áferð en ef fólk gerði grein fyrir tillögum sínum undir nafni.

Billegt þykir mér og það í meira lagi . Hef sjálfur vanið mig á það að skrifa alltaf undir nafni. Færi að vísu stundum í letur hugrenningar vinar míns L. Norðfjörð sem skrifar af ábyrgðarleysi og reynir að herma eftir vini sínum Flosa Ólafssyni.

Nafnleynd gefur tillögum ekkert gildi eða vigt enda ekkert vitað hvaðan þær koma og í hvað tilgangi þær eru settar fram. Verður auðvitað slúðurkennt og opnar á þann möguleika að menn setji fram tillögur af fullkomnu ábyrgðarleysi.
Skil satt að segja ekki þessa hugmynd og ekki heldur hvað pæling er á bak við. Er verið að etja deildum og eða fólki saman eða hver er eiginlega tilgangurinn?

Ég get alveg haft þær hugmyndir að skipulagsbreytingar hafi ekki haft sparnað í för með sér nema síður sé og að allt of margir og dýrir embættismenn skipi hið s.k. rekstrarteymi. Fyrirkomulag beiðnakerfis bæjarins sé handónýtt og margt annað. Ef ég geri það þá geri ég það undir nafni en fel mig ekki bak við stól eða bauna úr launsátri.

Skora á bæjaryfirvöld að breyta fyrirkomulagi á síðunni þannig að þær tillögur sem framkoma séu settar fram undir nafni- annað sæmir ekki bæjarfélaginu og er í raun algerlega óviðeigandi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli