Í Fréttablaðinu í dag er harmsaga, framkvæmdastjóri Ölgerðarinnar ber sig illa vegna ómerkilegra og villandi auglýsinga samkeppnisaðilans Vífilfells. Fréttin er svona:
"Appelsín við fyrstu sýn
Vífilfell setti nýlega á markað nýjan gosdrykk sem ber heitið Hátíðar appelsín.Umbúðirnar eru með svipuðu sniði og Appelsínið frá Ölgerð Egils Skallagrímssonar, Egils appelsín. Yfir hátíðarnar tíðkast sá siður hér á landi að blanda saman appelsín og Malt Extract, drykkir sem voru fyrst um sinn einungis framleiddir af Ölgerðinni. Ein af auglýsingum fyrirtækisins yfir hátíðarnar ber yfirskriftina: „Ást við fyrstu sýn, Egils malt og appelsín.“ Vífilfell hefur nú tekið vörumerki hins nýja Hátíðar appelsíns skrefinu lengra, þar sem slagorð drykkjarins er: „Þú sérð það strax, við fyrstu sýn, að þetta er Hátíðar appelsín.“ Gunnar B. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Ölgerðarinnar, segist vona að neytendur sjái hversu augljóslegt það sé að verið sé að reyna að plata þá með svo keimlíkri markaðssetningu.
„Samkeppni er vissulega af hinu góða, en neytendur verða að átta sig á því hvað þeir eru að kaupa,“ segir Gunnar. Ölgerðin hefur sett málið í hendur Neytendastofu og eru lögfræðingar þeirra einnig að skoða málið.
„Aðalmálið fyrir okkur er að upplýsa neytendur,“ segir Gunnar."
Allt eru þetta góð og gild rök og óskandi að ákafi og sterk réttlætiskennd forstjórans gildi einnig í markaðsátaki Ölgerðarinnar (og reyndar Vífilfells einnig) á áfengi t.d. varðandi hinar sk. "léttöls" auglýsingar. Öll rök forstjórans virka ágætlega gagnvart því og væri því ekki ráð fyrir forstjórann að ganga fram með góðu fordæmi og fara eftir því sem hann segir sjálfur. Nema kannski að viðkomandi "taki Ragnar Reykás á þetta". Hitt gæti þó orðið öllu verra ef Vífilfell auglýsti "létt" Hátíðarappelsín. Dómkerfið er svakalega svag fyrir slíku og hefur nýtt þetta misnotaða viðskeyti sem lögfræðilegt skálkaskjól til að vísa frá augljósum lögbrotum sbr. "létt"öl sem er ekki til í annari mynd en áfengi og hvað þá sem íslenskt hugtak yfir áfengislausa drykki.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli