Um leið og ég óska lesendum síðunnar gleðilegra páska þá læt ég fylgja með þessa hugleiðingu:
Er bjart framundan
í kjaramálum ? Jafnvel segja einhverjir , en mörg ljón verða í veginum, segja aðrir . Öruggt er því orð sem sennilega á ekki við á komandi misserum. Röksemdir vinnuveitenda og málflutningur allur sem endranær hinn neikvæðasti í garð launafólks. Komandi kjarasamningar verða því erfiðir og sennilega þeir átakamestu um langa hríð. Ég veit það eitt af reynslunni að hlutdeild launafólks í góðærinu er aldrei auðsótt.
Góðærið
er því fyrst og fremst átök um skiptingu þjóðartekna og auðs og í þeim efnum gefa hin efri lög samfélagsins sem og vinnuveitendur ekkert eftir.
Efalítið mun þetta ástand verða viðvarandi ef ekkert verður að gert. Líklega munu stéttarskil og stéttaskipting aukast og þeir efnameiri auðgast enn frekar en orðið er á kostnað þeirra sem þegar hafa úr litlu að spila.
Samtakamáttur
verklýðshreyfingarinnar er og verður lykilatriði. Kjarabætur munu ekki fást með öðrum hætti og því nauðsynlegt að þétta liðsheildina og vera betur í stakk búinn að takast á við þetta óréttlæti sem ein heild launþega. Að öðrum kosti nást ekki fram markmið um réttláta skiptingu þjóðartekna og um aukin og sanngjarnan hlut launafólks.
Þetta er því miður hinn harði veruleiki og um þessa óréttlátu skiptingum liggja allar helstu átaklínur í íslensku samfélagi. Innan skamms hefst undirbúningsvinna varðandi kjarasamningana. Grundvallaratriði í þeim efnum verður að vera góð samstaða launafólks og sterk málafylgja fyrir bættum kjörum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli