Loðmundur Norðfjörð sendi þennan pistil sem birtur er algerlega án ábyrgðar
Davíð er að hætta , Jón Júl er hættur og sjálfur er ég orðin hálfslappur
Þau merku
tíðindi hafa spurt út og jafnvel hingað til Svíaríkis, þar sem ég er nú staddur, að Jón vinur minn Júlíusson sé hættur sem formaður Starfsmannafélags Kópavogs. Og það sem er en merkara er að hann hafi kosið það sjálfviljugur. Hvorki maðurinn með ljáinn eða hið harðsvíraða lýðræðisbrölt og kosningar ná ekki að granda honum, eins og alsiða er í þessum bransa . Enda skilst mér að viðkomandi spóki sig nú í friði og spekt, á aðalfundi Samflots bæjarastarfsmanna, á friðarstóli og ræði málin eins og sá sem reynsluna telur sig hafa og gefur ráð, óumbeðin, til hægri og vinstri ?
Mér er jafnvel tjáð
að ræða hans sem fráfarandi formanns SfK hefði verið (svo ég noti nú annarra orð ) allt að því verulega væmin og að einhverjum félagsmönnum SfK hafi ekki tekist að hemja tilfinningar sínar, sérstaklega er ræðan var í hámarki, þeim hafi vöknað um augun eins og ungabörnum, með tilheyrandi ekkasogum og án hliðstæðu ef frá er talið er viðkomandi brugðu sér á stórmyndina Titanic hér um árið.
Samningar
ganga, eins og fólk veit, út á það að drekka kaffi og borða vínarbrauð. Og það verð ég að segja að annan eins dugnað og Jón hefur sýnt í samskiptum sínum við vínarbrauðin í gegnum árin er án alls efa með því besta sem gerist í bransanum. Og ekki bara það, Bridgespilari er hann góður, bæði með eða án svindlkerfa. Jón hefur t.d. aldrei látið þetta "bögg" (ónæði) sem samningafundirnir vissulega eru, slá sig út af laginu varðandi næstu sagnir.
Aðeins einu sinni
hef ég haft verulegar athugasemdir við hátterni hins afgengna formanns en það var þegar ég og gjaldkeri STH lékum Monopóly (með miklum og góðum arði að við töldum) við formanninn og gjaldkera SfK. Hneykslið varð algert enda tilefnið ærið. Formaðurinn þáverandi og gjaldkerinn voru staðnir að víðtækum fjárdrætti, stakri fjármálóreiðu og undanskoti eigna (sem "féhirðir" SfK hafði einnig stolið)
Nú taka við annasamir tímar
hjá formanninum fyrrverandi í embættismennskunni, að sögn eru heilu stæðurnar af ónöguðum blýöntum sem bíða örlaga sinna. Og nú koma vel þjálfaðir kjálkarnir, eftir allt vínabrauðsátið, vel að notum.
Skarð formannsins (fyrrverandi)
verður vandfyllt. Hver á að drekka allt þetta kaffi og hver að borða öll þessi vínarbrauð? Verður veröldin söm ? - veit það ekki ? Verða ekki alltaf einhverjir að naga blýanta - gakktu hæg inn um gleðinnar dyr í þeim efnum! En að lokum þetta hafðu þakkir fyrir framlagið ( í eintölu) þitt til verklýðsmála og gangi þér sem best í reglugerðar-riddara-mennskunni
L. Norðrfjörð
Engin ummæli:
Skrifa ummæli