Þórir Jónsson 1952 - 2004
"Það gengur ekki lengur að vera bíllaus , stoppum á bílasölu", sagði formaðurinn skyndilega. Var að skutla honum í vinnuna að afloknum hádegisfundi í Æskulýðs- og tómstundaráði Hafnarfjarðar. Nýttum tímann í þessum fjölmörgu ökuferðum til þess að fara í gegnum helstu mál í bransanum og ráða ráðum okkar.
"Fínn bíll, býð 200 þúsund á borðið, " sagði formaðurinn
"Gengur aldrei" segir bílasalinn umsvifalaust og heldur áfram "það eru sett 450 þúsund á þessa glæsikerru"
"Ekki þitt mál að skera úr um það, þitt hlutverk er að hringja í eigandann",segir formaðurinn og skömmu seinna "sagði ég ekki, hann tók tilboðinu. Ég kem með auranna eftir augnablik."
"Ég hef ekki hugmynd hvernig ég á að redda aurunum" sagði hann við mig, þegar að við erum komnir út af bílasölunni. Hringdi nokkur símtöl í kjölfarið , aurarnir fljótlega í höfn og kaupin gerð upp snarlega. Seljandinn, sem reyndist vera gamall nemandi formannsins, sagði brosandi " Gat ekki verið annar en þú"
Innan við klukkustund frá ákvörðun þar til að málinu var lokið. Engin aukaatriði, kjarni málsins klár og hin notadrjúga bifreið komin í drift - málið leyst, þurfti ekki að hugsa meira um það og strax farið í næstu verkefni sem voru að vanda fjölmörg.
Svona var Þórir Jónsson vinur minn og margar góðar minningar um hann koma upp í huga manns á þessari sorgarstundu þegar að hann er allur eftir hörmulegt bílslys.
Er maður lítur yfir farin veg þá þakkar maður fyrir þau forréttindi að hafa fengið að vera honum samferða í ýmsum verkum og ekki síst fyrir að hafa átt hann fyrir vin.
Börnum hans, fjölskyldu allri og unnustu votta ég mína dýpstu samúð, missir þeirra og sorg er mikil. Blessuð sé minning hins góða drengs Þóris Jónssonar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli