miðvikudagur, 12. maí 2004

Kjarni

Kjarni
málsins ekki alltaf ljós og ekki liggja allar leiðir um Kjöl. Hvað með það kemst ekki á framhaldsaðalfund fimm bæjarstarfsmannafélag í Munaðarnesi n.k. laugardag, fékk boðið allt of seint ( eða í dag þann 12 . maí sé reyndar á dagsetningu að bréfið er ritað í Hrútafirði þann 25. apríl s.l.) og verð í öðrum málum en FÍÆT Félag íþrótta- æskulýðs- og tómstundafulltrúa er með ráðstefnu og aðlafund um helgina á Selfossi. Gott fólk og sterkur faghópur.

Hvað með það
veit ekki hvort ég hefði mætt, og þó? Hefði kosið aðra þróun meðal bæjarstarfmannafélaga í kjölfar síðustu kjarasamninga og á þá ósk eina að bæjarstarfsmenn geti fyrr en seinna skipað sér í eina sveit og öðlast sinn fyrri styrk og sess.
Kjölur var í fyrstu samstarf 13 félaga og hét þá Kjarni. Á vegferðinni hefur kvarnast nokkuð úr hópnum og ljóst að hugurinn stóð til mun víðtækara og stærra félags en nú er verið að stofna. Hitt er annað mál að skynsamlegt er að sameina nokkur fámenn félög. Ef það er markmiðið þá hefur það tekist og óska ég forsvarsmönnum viðkomandi félaga til hamingju með það og velfarnaðar á hinni oft á tíðum torfæru braut sem verkalýðsmál eru.

Gamla Samflotið
var afar öflug eining og mín skoðun er sú að bæjarstarfsmenn hafi einfaldlega ekki efni á því að koma sitt í hvoru lagi til kjarasamninga. Það er því von mín að Kjölur sjái sér samboðið að starfa með Samflotsfélögunum gömlu og það er einnig von mín að þau örfáu félög sem utan bandalaga hafa starfað komi einnig til liðs við okkur. Hagsmunir umbjóðenda okkar krefjast þess og ábyrgð okkar sem forystumanna er að tryggja að svo verði. Annað er aukaatriði. Látum ekki gust reiðinnar slökkva ljós skynseminnar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli