sunnudagur, 9. mars 2008

Veit fátt leiðinlegra ...

...en að hanga í umferðarteppu morgun eftir morgun á leið minni til vinnu frá Hafnarfirði til Reykjavíkur. Eru heilir 7 km sem hefur gengið afar illa að komast á stundum. “Personal verst” eru tæpar 90 mínútur. En yfirleitt má gera ráð fyrir ca 30 - 40 mínútum í ferðatíma.
Umferðaróhöpp á þessar leið er tíð og oft alvarleg. Tjón nemur milljónatugum ef ekki hundurðum milljóna árlega. Á meðan vandinn eykst stöðugt þá þrátta stjórnmálamenn dag inn og dag út um mislæg gatnamót hér og tvíbreiðar akreinar þar. Vegakerfið ber ekki lengur alla þá gríðarlegu umferð sem um það fer. Ein redding færir vandann að öðrum gatnamótum og svona mætti lengi telja.

Allt skammtímalausnir og bútasaumur, vandinn þarf að leysast innan tímaramma stjórnmálanna sem eru fjögur ár þegar að best lætur. Lausnir í samgöngumálum reiknast ekki í kjörtímabilum né skyndigróða einkafyrirtækja. Uppbygging tekur ártugi ef ekki mannsaldur. Ástæðan fyrir þessu ófermdarástandi er auðvitað tilkomin vegna þess að menn hugsa skammt og í einni vídd með því að einblína á bíl-isma sem einu lausnina. Það er löngu orðið nauðsynlegt að kanna aðrar leiðir í bókstaflegri merkingu þess orðs

Í mínum huga er ekki nokkur spurning um að allt svæðið frá Akranesi alla leið í Leifstöð á að járnbrautavæða. Sambland af sporvögnum, lestum og jarðlestum. Kostar auðvitað urmul fjár en ef menn hætta að hugsa slíkt sem fjárfestingu sem á að borga sig á kjörtímabilinu þá kemur fljótlega í ljós að til lengri tíma litið er þetta eina skynsemin og frá mörgum sjónarhornum afar góður kostur. Ódyrt rafmagn, umhverfisvæn rekstur, hraðvirkt, öruggt og öflugt samgöngukerfi óháð hinu ofurhlaðna vegakerfi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli