laugardagur, 23. ágúst 2003

RSÍ

RSÍ
Hef verið að velta fyrir mér undanfarið hvaða taktík er í gangi hjá RSÍ (Rafiðnaðarsambandi Íslands). Í síðustu samningum voru ýmsir eins og t.d formaður Rafiðnaðarsambandsins ( og jafnvel einstakir forystumenn ASÍ) sífellt kyrjandi þann söng að þeir þyrftu að ná kjörum opinberra starfsmanna og enn væri langt í land, um væri að ræða óþolandi mismunun o.sv.fr.? Því miður er byrjað að örla á þessu að nýju, m.a. í grein er formaður RSÍ ritar í Morgunblaðið um daginn. Raunin er hins vegar sú og hægur leikur að vitna til kjararannsóknanefndar í þeim efnum að samningar og kjör þar á bæ er síst lakari ef tekið er mið af sambærilegum störfum hjá opinberum starfsmönnum og ef einhverjir hafa setið eftir þá eru það opinberir starfsmenn.

Grátkórinn í Garðastræti
Það virðist því miður svo að ýmsir innan RSÍ telji sig hafa einhvern hag í því að hnýta sífellt í opinbera starfsmenn og taka þar með undir með grátkórnum úr Garðastræti sem að öllu jöfnu heldur tárakirtlunum afar virkum með þráhyggjubundinni umfjöllun um "ofurkjör" opinberra starfsmanna.

Eigum öll inni
Ekki veit ég hvort þessi undarlega taktík er gerð í vissu þess að hlutdeild launþega í þjóðartekjum aukist ekki og menn freisti þess því að krækja sér í stærri bita af kökunni en ella með þessu brölti.
Staðreyndin er hins vegar sú að íslenskt launafólk hvar sem það stendur í sveit eða fylkingum á fullan rétt á sanngjörnum hlut, ekki á kostnað hvers annars, heldur þess hlutar sem hreinlega hefur verið hirtur af almenningi í formi verðsamráðs, okurvaxta og hárra samræmdra tryggingagjalda. Hinn íslenski aðall hefur verið stikkfrí og leikið tveimur skjöldum og lítil heilindi á bak við þjóðarsáttina af þeirra hálfu.
Þarna liggja víglínur og þarna á að sækja fram. Formaður Rafiðnaðarsambandsins er því miður í herferð gegn eigin fólki og spjót hans ætluð þeim er síst skyldu.. Mitt ráð, 180° viðsnúningur, beina spjótum sínum í rétta átt og eyða ekki púðrinu í opinbera starfsmenn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli