þriðjudagur, 12. ágúst 2003

Mér er það bæði ljúft og skylt

Mér er það bæði ljúft og skylt að koma eftirfarandi á framfæri:
Ágætu félagar
Fyrir tveimur árum var veitingahúsið í orlofsbyggðum okkar í Munaðarnesi flokkað í hópi þeirra 10 veitingahúsa í landinu þar sem vatnið mældist hreinast. Nú bregður hins vegar svo við að orlofsbyggðirnar geta ekki boðið upp á ósoðið vatn! Um miðjan júlí mældist mengun í drykkjarvatninu í orlofsbyggðum BSRB í Munaðarnesi og nú hefur fundist kampýlobaktería í vatninu. Þetta er í senn alvarlegt og dapurlegt þótt dvalargestum þurfi ekki að stafa hætta af menguninni ef þeir gæta þess að fara að leiðbeiningum og sjóða drykkjarvatnið.
Mengunin er rakin til hitanna að undanförnu en í þeim fer allt kvikt á hreyfingu. Strax og mengunar varð vart, voru settar viðvaranir í öll húsin og hafa þær verið ítrekaðar síðan. Jafnframt hefur verið leitað lausna til að ráða bót á vandanum bæði til skamms tíma og langs. Allt er gert til að finna úrbætur.
Talsmenn Orkuveitu Reykjavíkur hafa greint frá áformum um að leggja kaldavatnsveitu á þessu svæði næsta haust. Ef af því verður mun okkar vandi úr sögunni. Fram til þess tíma munum við leita skammtímalausna en jafnframt treysta á að fólk sýni jafnaðargeð gagnvart þessu ástandi sem við ráðum ekki við að leysa á annan hátt en nú er reynt að gera.
Skrifstofa BSRB

Engin ummæli:

Skrifa ummæli