þriðjudagur, 19. ágúst 2003

Hef víða farið

Hef víða farið
Hef víða farið og átt þess kost að sjá margt. Hef sem formaður samtaka norrænna félagsmiðstöðva sótt fundi víða um heim m.a. annars í austantjaldslöndum þar sem vegabréfsskoðun er afar nákvæm. Lendi þó aldrei í sambærilegum hremmingum eins og hjá hinu íslenska tolli. Þar er ég stoppaður í 9 tilfellum af hverjum 10 , læt mér það lynda og tek því með jafnaðargeði , hef jafnvel talið þetta til marks um góða gæslu. Hef stundum velt fyrir mér hvort þessi tíðu samskipti mín við hin íslensku tollayfirvöld hafi eitthvað með það að gera að vera 40 + og klæðast leðurjakka og gallabuxum?

Íslenski tollurinn
Veit það ekki, en hitt veit ég og reyndi í kvöld að tollurinn virðist á stundum geta verið einstaklega óliðlegur og viðskotaillur. Segi farir mínar því ekki sléttar og vík milli vina um þessar mundir. Hef áður gert að umfjöllunarefni á dagskinnunni hið einkar vænlega verðlag í Eistlandi. Þetta aðlaðandi verðlag olli því að ég verslaði mér hljóðfæri þar í landi.
Við hin hefðbundnu samskipti mín við tollinn, við komu mína til landsins framvísaði ég aðspurður að sjálfsögðu reikning varðandi hljóðfærakaupin ca 2.800 eistneskar krónur. Þar kom heldur betur babb í bátinn , hjá tollinum í Keflavík liggur ekki fyrir gengið á hinum margrómuðu eistnesku krónum. Meðan að yfirvöld rannsaka málið er hið ágæta hljóðfæri í vörslu hins opinbera í Keflavík og verður þar til gegni gjaldmiðilsins liggur fyrir.

Hvað er til ráða?
Fyrir alnokkru er búið að finna upp hið svokallað Internet þar sem urmull upplýsinga liggur á lausu m.a. gengi hinna ýmsu gjaldmiðla. Þó svo að Seðlabanki Íslands hafi ekki hina Eistnesku krónu í öndvegi í ritum sínum og á heimasíðu þá má benda á að danski Seðlabankinn er með afar vandaða heimasíðu þar sem gefur að líta gengi nánast allra gjaldmiðla. Ef tölvutæknin hefur hafið innreið sína hjá tollinum í Keflavík má hæglega slá inn nafni bankans á leitarvél og finna gengið bæði fljótt og vel. Með því má t.d. fyrirbyggja það að fólk þurfi að gera sér aukaferð til Keflavíkur algerlega af tilefnislausu. Óliðlegheit af þessu tagi hafa bara í för með sér ákaflega neikvætt viðhorf eins og þessi pistill ber glöggt vitni um? Það getur vel verið að tollurinn telji viðhorf til sín litlu máli skipta en óneitanlega hlýtur það vera metnaðamál hverra stofnunar að viðhorf til hennar sé jákvætt - Í þeim efnum á tollurinn ekki að vera undanskilin.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli