Hef sem kunnugt er bardúsað eitt og annað í verkalýðsmálum í gegnum árin. Þar voru ,eru og verða ærin verkefni . Sem betur fer hefur verkalýðshreyfingin og sérstaklega við innan BSRB átt að skipa hæfu forystufólki. Sérstaklega vill ég í því sambandi nefna Ögmund Jónasson vin minn og samstarfsmann til margra ára á vettvangi verkalýðsmála.
Ögmundur hefur í störfum sínum fyrir BSRB sýnt eindæma ósérhlífni og ávallt verið boðinn og búinn til þess að leggja fólki lið. Ögmundur tekur ávallt upp hanskann fyrir þá sem minna mega sín í samfélaginu. Ögmundur fer ekki í manngreiningarálit og gerir ekki greinarmun á fólki vegna pólitískra skoðana þeirra. Í BSRB er fólk úr öllum kimum samfélagsins og sem formaður þeirra samtaka nýtur Ögmundur verðskuldaðs og gríðarlegs trausts eins og berlega kom fram á þingi BSRB fyrir skömmu.
Ögmundur hefur sem þingmaður reynst verkalýðshreyfingunni mikill akkur. Hann hefur staðið vörð um öll þau mál er varða kaup, kjör, lífeyrisréttindi og aðstæður launafólks í landinu. Velferðarmál í víðasta skilningi eru honum einnig hugleikin og þar hefur hann beitt sér af krafti .
Verkalýðshreyfingin verður að hafa kraftmikinn málsvara á Alþingi og sennilega hafa aldrei verið ríkari ástæður og meiri nauðsyn en einmitt núna. Ögmundur er algerlega réttur maður á réttum stað sem verkalýðsforingi og þingmaður. Ég hvet því alla þá sem taka þátt í forvali VG um helgina að tryggja honum verðugan sess.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli