Brá mér í Bæjarbíó í gærkvöldi eins og ég geri gjarnan á þriðjudagkvöldum. Þar fara fram kvikmyndasýningar á vegum Kvikmyndasafns Íslands. Í gær var á dagskránni myndin „Benny Goodman Story” frá 1955. Fín mynd sem byggð er á ævi og tónlist þessa mikla snillings.
Faðir Bennys var fátækur innflytjandi í Chicago og átti erfitt með að veita börnum sínum nokkuð en þrátt fyrir það komust Benny og tveir bræður hans í tónlistarnám á öðrum áratug tuttugustu aldarinnar. Hvar kunna menn að spyrja - jú í Hull House og hvað er svona merkilegt við það. Hull House er hverfamiðstöð, sem eru forverar félagsmiðstöðva, sem sinntu æskulýðsstarfi af fullum krafti á þessum árum. Tónlistarkennsla var einn angi unglingastarfsins í hverfamiðstöðvunum og kostaði nánast ekki neitt og var eini möguleiki margra barna og unglinga til að öðlast menntun á þessu sviði. Tónlistarmaðurinn Benny Goodman er því í raun árangur af félagsmiðstöðvarstarfi - og svo eru menn alltaf að spyrja hverju starfið skilar (helst í krónum talið)? Sjá nánar um Hull House
Í næstu viku verður sýnd myndin „Lady sings the bluse” frá 1972. Mynd sem byggir á ævi söngkonunnar Billie Holiday. Hún átti ekki sjö dagana sæla, stundaði vændi, var djúpt sokkin í dópneyslu og átti við mikla erfiðleika að etja. Billie átti ekkert athvarf. Velti fyrir mér hvort henni hefði ekki farnast betur ef hún hefði átt þess kost sem barn og unglingur að sækja hverfa- eða félagsmiðstöð eins og Goodman – Ekki nokkur spurning.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli