laugardagur, 22. janúar 2011

Wonderful Copenhagen

Hef starfa minna vegna verið mikið á ferðinni í gegnum árin. Sérstaklega þegar að ég gegndi formennsku í Samtökum norrænna félagsmiðstöðva. Og oft lá leiðin í gegnum Kaupmannahöfn hina ókrýndu höfuðborg Norðurlanda og ekki síst fyrrum höfuðborg okkar Íslendinga. Borgin er stórborg í mörgu tilliti s.s. menningarlegu, þó svo að hún teljist ekki stór miðað við mannfjölda.

Þegar að ég er í Kaupmannahöfn þá gisti ég nær undantekningarlaust á Saga Hótel sem er ódýrt 2 stjörnu hótel við Colbjörnsgötu sem er í næsta nágrenni við Hovedbanegården. Hótelið er fjölskyldufyrirtæki. Það var fyrir einskæra tilviljum að ég komst í samband við þetta hótel en Danska Samfés, Ungdomsringen, bjó við sérkjör fyrir sitt fólk, kjör sem ég gekk inn í fyrir margt löngu og hafa staðið mér til boða alla tíð síðan. Hótelið lætur lítið yfir sér, er laust við allan lúxus, er þrifalegt og býður upp á ágætis herbergi með fínum rúmum, góðri hreinlætisaðstöðu og lipurri þjónustu. Ég hef ávallt reynt að halda ferðakostnaði í lágmarki hvort sem ég ferðast á eigin vegum eða annarra en í þeirri viðleitni minni er hótelkostnaður oft Þrándur í götu og fátt finnst mér verra en að eyða umtalsverðum upphæðum í slíkt.

Í Kaupamannahöfn skiptir engu máli hvaða dagur er því öll kvöld ársins er hægt að finna góða tónleika nánast fyrirvaralaust í miðborginni og víðar ef því er að skipta. Fyrir okkur sem höfum gaman af blues og jazz þá er Blúsklúbburinn Mojo (www.mojo.dk) i Løngangsstræde (rétt við Strikið) alltaf með eitthvað skemmtilegt í gangi og sama má segja um Jazzhouse ( www.jazzhouse.dk ) á Niels Hemmingsens Gade sem einnig liggur við Strikið. Þar að auki er fjöldi annarra staða í miðborginni sem bjóða upp á lifandi tónlist. Það þarf ekki að gera annað en taka góðan göngutúr um miðbæinn og nánast tryggt að fólk finnur eitthvað við sitt hæfi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli