Allan níunda áratuginn var líflegt í Seljahverfinu. Unglingar söfnuðust saman við verslunarkjarna í hverfinu. Oft var róstursamt vegna áfengisneyslu ungmennanna og á þessum árum komu upp mjög erfið mál vegna vímuefnaneyslu , m.a. snifffaraldur. Mörgum fannst þetta merkilegt enda hverfið talið félagslega sterkt, blönduð byggð þar sem allar stéttir samfélagsins áttu sína fulltrúa.
Á sama tíma og skammt frá í hinu „alræmda” Efra Breiðholti var allt með felldu og unglingar hverfisins undu sínum hag hið besta.
Skýringin á þessu ástandi í Seljahverfi var einföld þegar að var gáð. Í hverfinu var engin félagsmiðstöð og unglingar hverfisins áttu sér ekkert athvarf annað en sjoppurnar. Í Efra Breiðholti var á sama tíma rekin ein öflugasta félagsmiðstöð landsins Fellahellir. Þegar að loksins var komið á legg félagsmiðstöð í Seljahverfi í upphafi tíundna áratugarins þá var eins og við manninn mælt allt datt í dúnalogn og æska hverfisins tók til við uppbyggilegri iðju en áður var.
Mikilvægi félagsmiðstöðva í forvarnarstarfi er augljóst. Starfsemin er ekki síður mikilvæg hvað varðar uppeldi og menntun ungdómsins almennt þar sem unga fólkið lærir margt í félagsmiðstöðvunum og þroskast sem einstaklingar.
Stjórnmálamenn gleyma þessu oft. Sérstaklega þegar að vel gengur. Gott ástand í æskulýðsmálum er ekki sjálfgefið og ekki hægt að ganga að því sem vísu. Þess vegna er eitt mikilvægast hlutverk stjórnmálamanna að skapa starfsemi félagmiðstöðva umgjörð við hæfi og ekki síst fjármagn til starfseminnar. Niðurskurður og aðstöðuleysi á þessu sviði leiðir bara til „Seljahverfisástands” og á slíku hefur ekkert samfélag efni á. Kraftmikið samfellt starf er það sem virkar – Tímar „herlúðrablásturs” þegar allt er komið í óefni eru liðnir einfaldlega vegna þess að slíkt virkar ekki. Samfellt og gott starf félagsmiðstöðva sem byggir á fagmennsku og styrkrum stoðum er það sem virkar og að slíku ber að hlúa.
Árni, þetta er alveg rétt. En ef mig misminnir ekki var gert átak í því að fá krakkana í Seljahverfi í Fellahelli. Þegar þau fóru svo að birtast þar varð mikill núningur milli þeirra og krakkanna úr Efra-Breiðholtinu og stefndi í leiðindi. Kvöld eitt gerðist það að varla sála lét sjá sig í Fellahelli, hvorki úr efra né Seljunum. Við eftirgrennslan fréttum við starfsmennirnir að blásið hafði verið til mikils bardaga í brasbrekku milli hverfanna. Nú við rukum á staðinn og var þar loft lævi blandið. Á endanum tókst að stilla til friðar og héldu fylkingarnar saman í Fellahelli þar sem boðið var upp á heitt kakó. Eftir þetta komu Seljakrakkarnir í Fellahelli og voru þar aufúsugestir þangað til þau fengu sína eigin félagsmiðstöð. (Ég skrifa þetta eftir minni og muna aðrir þetta öruggega betur þar sem ég er orðinn svo skaddaður af því að vera sífellt að snúa út úr veruleikanum.)
SvaraEyðaBestu kveðjur,
Sigurjón