föstudagur, 10. október 2008

Ekki gleyma börnum og unglingum

Á þessum síðustu og allra verstu tímum þá hvílir gríðarleg ábyrgð á okkur sem eldri erum hvað varðar það að upplýsa börn og unglinga um það ástand sem ríkir í samfélaginu. Börn og unglingar skynja ástandið í gegnum foreldra sína og þá sem eldri eru. Þegar að tímar eru víðsjáverðir eins og nú þá er ljóst að margt fólk hefur miklar áhyggjur, er óöruggt og jafnvel mjög reitt. Barn eða unglingur sem upplifir slíkt, án þess að gera sér fyllilega grein fyrir hvers vegna foreldrarnir eru svona leiðir, verður óöruggt ekki ósvipað því sem á sér stað í brotnum fjölskyldum. Í slíku ástandi á barn eða unglingur t.d. oft mjög erfitt með að einbeita sér í skóla, heldur að leiðin í foreldrunum sé sér að kenna o.sv. frv.

Því er ákaflega mikilvægt fyrir foreldra og aðra uppalendur að setjast niður með ungviðinu og ræða það þjóðfélagsástand sem uppi er. Koma börnum og unglingum í skilning um ástandið og gera þeim kleyft að skilja og vera hluti af því sem á sér stað á þeirra forsendum. Með því sýnum við ekki einungis ábyrgð sem foreldrar og uppalendur - við erum ekki síst að gefa börnum og unglingum gríðarlega gott veganesti inn í breytt þjóðfélag.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli