fimmtudagur, 30. október 2008

Hvað varð um gamla góða Moggann eða var ...

Mundi eftir alvöru leiðara í Mogganum um áfengismál. Minnti að það hafa verið fyrir margt löngu? Reyndar var Mogginn í mörg ár sá fjölmiðil sem virti í hvívetna lög um bann við áfengisauglýsingum. En viti menn það var fyrir rétt rúmi ári síðan að meðfylgjandi ritstjórnaragrein birtist. Grein sem ég get heilshugar tekið undir enda skrifuð af skynsemi og skilning á málefninu. Tilefnið hið marg framlagða frumvarp um sölu brennivíns í matvörubúðum , frumvarp sem aftur leit dagsins ljós í ár, ásamt frumvarpi um heimild til að auglýsa áfengi. Bæði þessi frumvörp illa unnin og byggja á 10- 12 ára gömlum heimildum.

Sala áfengis – Ritstjórnargrein MBL 16. Okt 2007
"Enn á ný er frumvarp til breytingar laga um verslun með áfengi komið til kasta Alþingis. 17 þingmenn úr þremur flokkum eru skrifaðir fyrir frumvarpinu. Markmið frumvarpsins er að leyfa sölu á léttvíni og bjór í stórmörkuðum og matvöru- og nýlenduvöruverslunum. Í greinargerð með frumvarpinu segir: "Erfitt er að finna rök fyrir tilvist áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins en aftur á móti eru fjölmörg rök gegn henni." Er það virkilega svo erfitt?

Flutningsmenn frumvarpsins telja að núverandi fyrirkomulag sé tímaskekkja og eigi rætur að rekja til þess tíma sem "menn voru mjög gjarnir á að setja einokunarlög og hin ýmsu höft í íslenska löggjöf. Þar má t.d. nefna einkaleyfi á síldarsölu, einkasölu á viðtækjum, einkarétt til útvarpsreksturs. Seinna komu ýmis lög og höft eins og einokun á sölu bifreiða, símtækja og annars slíks og fyrir einungis um 15 árum var ríkið með einokun á því að flytja inn eldspýtur". Þetta er ef til vill fyndið.

Ekkert er hins vegar skoplegt við málið sjálft. Áfengi er vara af allt öðrum toga en bílar, útvörp, sjónvörp, símar og eldspýtur. Engri vöru, sem seld er með löglegum hætti hér á landi, fylgir jafn mikil ógæfa og áfengi. Fjöldi Íslendinga á daglega í lífs- og sálarstríði við áfengisvanda, sem aldrei hverfur þótt hægt sé að halda honum niðri. Freistingarnar eru nægar og það er síður en svo eins og erfitt sé að ná í áfengi eða fólk láti það standa í vegi fyrir drykkju að geta ekki keypt áfengi í matvörubúðum.

En er ekki óþarfi að ekki sé hægt að kaupa í matinn án þess að freistingarnar blasi við fólki, sem á fullt í fangi með að halda sig á réttu spori? Er til of mikils mælst að fólk leggi það á sig að fara í sérstakar verslanir til að kaupa áfengi? Vissulega er göfugt markmið að ætla að einfalda fólki lífið, en ekki má gleyma að þessi ráðstöfun myndi einnig gera lífið að martröð fyrir fjölda manns.
Í greinargerðinni með frumvarpinu er lítið gert úr því að lögleiðing sölu áfengis í matvörubúðum muni hafa áhrif á aðgengi þeirra, sem ekki eru orðnir tvítugir, en er hægt að fullyrða það? Eftir því sem sala á áfengi verður dreifðari verður eftirlitið erfiðara.

Það er athyglisvert að í greinargerðinni er hvergi talað um áfengisvandann. Hún gæti rétt eins snúist um sölu á eplum eða súrmjólk. Hér er hins vegar á ferðinni frumvarp, sem engin ástæða er til að samþykkja. Í umræðum á þingi í gær var bent á að forvarnir hefðu ekki virkað. Munu þær virka betur verði frumvarpið samþykkt? Það er eins og flutningsmenn frumvarpsins séu tilfinningalausir og geri sér enga grein fyrir því um hvað áfengisvandamálið snýst." (MBL 16.okt 2007)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli