miðvikudagur, 15. október 2008

Af álverum, olíuhreinsunarstöðvum og ...

... öðru því sem menn telja að "leysi" kreppuna? Sjálfstæðismenn hugmyndafræðingar og aðalábyrgðarmenn hins aðframkoma íslenska hagkerfis telja (a.m.k. í Hafnarfirði) að lausn efnahagsmála felist m.a. í stækkun álversins í Straumsvík sem er í eigu fyrirtækisins Rio Tinto (Sjá nánar umfjöllun MBL hér að neðan).

Boðar fyrirtækið undirskriftasöfnun meðal íbúa bæjarins á vegum (launaðra) starfsmanna þess, í þeim tilgangi að fá samþykkta nýja íbúakosningu um stækkun álversins? sem eins og kunnugt er var felld í fyrra þrátt fyrir gríðarlegan fjáraustur fyritækisins í áróður um eigið ágæti. Rio Tinto er ekki beinlínis þekkt fyrir ríka samfélagsábyrgð eins og dæmin sanna. Spurning er því þessi, ætlum við að "leysa" þetta efnahagsklúður með þriðja heims lausnum a la Rio Tinto. Nei takk ómögulega - ekki risaálver nánast í miðbæ Hafnarfjarðar - skilum komandi kynslóðum allavega þokkalega hreinu og heilbrigðu umhverfi.

Norski olíusjóðurinn hættir að fjárfesta í Rio Tinto
Norski olíusjóðurinn, eftirlaunasjóðurinn sem stór hluti olíuvinnslutekna Norðmanna rennur í, mun ekki lengur fjárfesta í bresk-ástralska námufyrirtækinu Rio Tinto, móðurfélagi Alcan á Íslandi, sem rekur álverið í Straumsvík. Ástæðan er námuverkefni, sem Rio Tinto er með í Indónesíu en því fylgir gríðarleg mengun.
Norska ríkisútvarpið, NRK, hefur eftir Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra, að engar upplýsingar liggi fyrir um að Rio Tinto muni breyta um stefnu í Indónesíu og olíusjóðurinn geti ekki fjárfest í slíkum félögum.
Olíusjóðurinn seldi fyrir tveimur árum hlutabréf í námufélaginu Freeport McMoRan vegna þátttöku félagsins í umdeildum framkvæmdum í á Papua í Indónesíu við svonefnda Grasbergnámu, sem er stærsta gullnáma heims og þriðja stærsta koparnáma í heimi.
Í kjölfarið var bent á að Rio Tinto ætti 40% í Freeport McMoRan. Í apríl í ár bað norska fjármálaráðuneytið seðlabanka landsins að selja bréf olíusjóðsins í Rio Tinto Plc. og Rio Tinto Ltd. Þeirri sölu er lokið en alls voru seld hlutabréf fyrir 4419 milljónir norskra króna í Rio Tinto Plc. og fyrir 430 milljónir norskra króna í Rio Tinto Ltd. Samtals nemur þetta nærri 77 milljörðum íslenskra króna.
NRK segir að við framkvæmdirnar í Indónesíu sé um 230 þúsund tonnum af jarðefni út í vatnakerfi svæðisins og þessi losun muni aukast eftir því sem námugreftrinum vindur fram
.
Heimild mbl.is 10.9.2008

Engin ummæli:

Skrifa ummæli