föstudagur, 31. október 2008

Rio Tinto er ekki jólasveinninn

Í gær var heilsíðuauglýsing í Fjarðarpóstinum frá Rio Tinto (með einum eða öðrum hætti) um undirskriftarherferð til stuðnings nýjum íbúakosningum um stækkun álvers Rio Tinto. Einnig grein frá starfsmanni álversins um að nú sé lag að redda atvinnumálum í Hafnarfirði og ef ekki bara gjaldeyrismálum þjóðarinnar .

Það eru nú aldeilis tíðindi að Río Tinto bregði sér í líki jólasveinsins og ætli sér að bjarga í einu vettvangi því klúðri sem nokkrir fjármálamenn hafa komið þjóðinni í. Eins og kunnug er þá eru hvergi þekkt dæmi um slíkt hjá Rio Tinto fyrirtækinu sem er því miður þekkt af öðru sbr umsvif fyrirtækisins í Indónesíu og víðar sem varð til þess að Norski Olíufjárfestingarsjóðurinn vill ekki bendla sig við fyrirtækið.

Veit ekki hvort það var meiningin með íbúalýðræði í Hafnarfirði að afar umdeilt alþjóðlegt stórfyrirtæki ráðist í hundruð milljóna „kosningabaráttu“ ár eftir ár? Haldi úti persónunjósnum um fólk sbr úrskurð Persónuverndar , haldi úti her launaðra starfsmanna, ráði til sín færustu ímyndar sérfræðinga, birti glansauglýsingar í dýrustu miðlum landsins, svona mætti telja og ekki má gleyma disknum hans Bo sem við Hafnfirðingar fengum sendan heim í álpakkningum. Er þetta íbúalýðræði ? Nei því fer fjarri þetta er grímulaus hagsmunabarátta stórfyrirtækis .

Þrátt fyrir erfiða tíma þá er margt í pípunum í Hafnarfirði. Allt stefnir í að frá Hafnarfirði hefjist umsvifamikill vatnsútflutningur . Umsókn um netþjónabú er til umræðu og svona mætti lengi telja. Rio Tinto álbræðsla sprettur ekki upp morgun og hefur enga þýðingu í þeirri krísu sem nú geisar. Álver og mengandi stóriðja nánast í miðbæ Hafnarfjarðar eru ekki lausnir morgundagsins – Samfélag morgundagsins byggir á umhverfisverndarsjónarmiðum og umhverfisvænni atvinnustarfsemi.

2 ummæli:

  1. Talandi um að reyna að nýta sér ástand þjóðar. Ekki smekklegt. Álver er ekki það sem við þurfum akkúrat núna.
    -Ösp

    SvaraEyða
  2. heyr heyr!

    kv.
    maría

    SvaraEyða