Alveg makalaust að heyra málflutning ofurlaunaliðsins. Annars vegar þegar að það er að bera saman ástæður fyrir ofurlaunum sínum og svo hins vegar að reyna að réttlæta hina grjóthörðu íslensku láglaunapólitík sem er sú svæsnasta í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Hækkun launa ræstingafólks ku orsaka hrun hins íslenska efnahagslífs. Dettur helst í hug að Ragnar Reykás skrifi textann í þessum farsa.
Er ekki komin tími til „sakaruppgjafar” enda meintur glæpamaður alsaklaus. Það eru ekki laun ræstingarfólks og annara láglaunahópa sem eru að setja allt á annan endann í íslensku efnahagslífi, þó svo að fulltrúar vinnuveitenda haldi fram þeim ásökunum með kerfisbundnum hætti.
Íslensk láglaunapólitík er félagslegt böl og auðvitað hinn eini sanni sökudólgur. Það er með eindæmum að blessuðu gamla fólkinu, örykjum og láglaunafólki sé haldið í kjörum við og undir framfærslumörkum í þessu altalaða góðæri.
Ef það hefur einhvern tímann verið pólitískt stefnumið núverandi ríkisstjórnar að jafna kjörin í landinu þá hefur það algerlega mistekist. Kannski hefur það aldrei verið ætlunin, stjórnvöld fremur dregið taum þeirra samfélagshópa sem þegar hafa verulega ríflega til hnífs og skeiðar. Held það bara, svei mér þá, að svo sé og í þeim efnum hefur mönnum tekist vel til, það dettur varla brauðmoli af borðum alsnægtanna
Engin ummæli:
Skrifa ummæli