föstudagur, 20. janúar 2006

Ræðukeppni & söngkeppni Vitans

Brá mér á ræðukeppni framhaldsskólanna Morfís í gærkvöldi. Er málið nokkuð skylt þar sem að sonur minn er liðsstjóri Flensborgarliðsins. Sá mína menn í Flensborgarskóla sigra Fjölbrautarskólann við Ármúla nokkuð örugglega. Fín keppni og gaman að fylgjast með því hve góðum tökum allt þetta unga fólk hefur náð á rökræðunni.
Bjartsýni var umræðuefnið - með og á móti, ekki skorti rökin, andstæðingar unnu og því ljóst að ekki er gott að byggja á bjartsýninni einni saman.

Var dómari í kvöld í söngkeppni félagsmiðstöðvarinnar Vitans. Hef alltaf jafn gaman af því hlutverki og í raun forréttindi að fá að fylgjast með þessu upprennandi listafólki. Varð ekki fyrir vonbrigðum í kvöld. Allt frá hráu pönki þar sem menn létu hina almennt viðurkenndu tónfræði ekki trufla sig yfir í hugljúfar ballöður, og allt þar á milli . Fór að lokum svo að söngkonan og gítarleikarinn Hekla ásamt hljómsveit sigraði keppnina með minnsta mun sem ég man eftir í svona keppni.

Æskan að fara í hundanna? segir eldra fólk stundum – Tóm vitleysa segi ég og hvet alla til þess að kíkja inn í þessa veröld.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli